26.02.1925
Efri deild: 15. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

6. mál, póstlög

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er rjett, að frv. þetta er komið frá aðalpóstmeistara og flutt samkvæmt óskum hans. Jeg vakti strax máls á því við hann, að mjer fyndist mjög óaðgengilegt að hafa alla þessa runu í einni grein. En hann taldi það ekkert mundu saka. Og til þess að spara prentunarkostnaðinn, kom okkur saman um að hafa þetta svona, því að breytingar þessar verða settar inn í viðkomandi staði í póstlögunum og inn í leiðbeiningar póstmanna.

Um brtt. nefndarinnar hefi jeg ekki ástæðu til að vera margorður. En þó finst mjer ósamræmi vera milli gjalds fyrir póstávísanir og gjalds undir peningabrjef og ábyrgðarbrjef, þar sem minsta gjald undir peningabrjef er 70 aurar, en undir ábyrgðarbrjef 50 aurar. Þetta er vitanlega ekki stórvægilegt atriði, en jeg tel það benda í þá átt, að fyr eða síðar verði brjefhirðingum falið að annast póstávísanir, sem jeg tel nauðsynlegt.

Aðra brtt. nefndarinnar tel jeg rjettmæta, því að með henni er rjetturinn til skaðabóta gerður tryggari. En 6 mánaða greiðslufrestur á skaðabótunum er vitanlega settur fyrir póststjórnina, til þess að hún geti leitað sjer upplýsinga, ef þess er þörf. En auðvitað er henni skylt að greiða skaðabæturnar strax, þegar málið er fyllilega upplýst, eftir hvað stuttan tíma sem það er.

Um þriðju brtt. nefndarinnar vil jeg taka það fram, að jeg lít svo á, að óumflýjanlegt geti aldrei orðið að. breyta burðargjaldstöxtunum, nema þegar þeir koma í bága við alþjóðapóstsamninga.