23.02.1925
Neðri deild: 14. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

10. mál, lán úr Bjargráðasjóði

Tryggvi Þórhallsson:

Það er fjarri því, að jeg sje andvígur frv. þessu. Jeg álít það ganga í rjetta átt og að tilgangurinn sje góður og nauðsynlegur. Einni aths. vildi jeg þó beina til hæstv. atvrh. (MG) og landbn. Samkv. frv. er ætlast til, að atvinnumálaráðherra veiti lánin, og við það er ekkert að athuga í sjálfu sjer. En nú er svo komið, að Búnaðarfjelag Íslands er orðin önnur hönd atvinnumálaráðuneytisins, og samvinna hefir verið góð þar á milli. Má og vænta þess, að svo verði fyrst um sinn, einkum þar sem nýafstaðið búnaðarþing kaus skrifstofustjóra atvinnumálaráðuneytisins í stjórn Búnaðarfjelagsins. Jeg vona, að lán eftir þessu frv. gangi ekki nema að litlu eða engu leyti til a.-liðsins, en því meira verði veitt til hinna liðanna, forðabúra og bústofnslána. Á þeim sviðum er ekki einungis hentugt, heldur næstum óhjákvæmilegt að njóta aðstoðar Búnaðarfjelagsins. Jeg vildi því beina því til hv. landbn., hvort ekki mætti breyta ákvæðunum um lánveitinguna í þá átt, að atvrh. sje heimilt að veita lánin eftir till. Búnaðarfjelagsins.