12.03.1925
Efri deild: 28. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

10. mál, lán úr Bjargráðasjóði

Frsm. (Sigurður Jónsson):

Það er í rauninni lítið um frv. þetta að segja. Frv. sjálft og greinargerð þess er svo glöggt og ítarlegt, að þar er litlu við að bæta. Upphaflega var ætlast til þess um bjargráðasjóðinn, að hann yrði notaður til þess að afstýra hallæri og vandræðum. En þótt fje sjóðsins lægi í bönkum hjer syðra og væri fyrir hendi, þá er það sýnt, að óhægt mundi oft um að ná því, ef hafís lyki um Norðurland og samgöngur teptust. Mjer finst því líklegt, að nota mætti sjóðinn eitthvað svipað landhelgissjóðnum, sem nú kaupir skip.

Í 1. gr. frv. er farið fram á það, að menn geti fengið lán úr sjóðnum. Koma þá einkum til greina þrjú atriði. Í fyrsta lagi, að þau sveitarfjelög geti fengið lán, sem beðið hafa einhvern stórfeldan hnekki af óvæntum ástæðum.

Í öðru lagi, að veita megi lán til að stofna fóðurbirgðafjelög og tryggja sig gegn fóðurskorti með kornforðabúrum. Gœti það bæði orðið mönnum og skepnum til bjargar.

Í þriðja lagi, að veita megi lán til þess að stofna bústofnslánadeild. Það er nýmæli, og var einn nefndarmaðurinn ragur við það ákvæði. Að vísu kann að vera hætta á því, að vanskil kunni að hljótast af slíkum lánum, en þess er þó að gæta, að sýslufjelög og bæjarfjelög ábyrgjast þessi lán. Og ekki getur það sýnst ótryggara en ef fjenu er varið til hallærislána, þegar hallœrið er dunið yfir.

Frv. hefir flotið ómótmælt gegnum neðri deild, og vænti jeg þess, að slík verði einnig afdrif þess hjer. Læt jeg þetta nægja að sinni og mælist til þess, að frv. verði vísað til 3. umr.