09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

86. mál, Landhelgissjóður

Forsætisráðherra (JM):

Það er ekki löng greinargerð fyrir þessu litla frv., og í rauninni ætti ekki að þurfa að bæta við hana neinu sem heitir. Jeg vonast eftir, að hv. þingdeildarmenn geti fallist á það, að stjórninni verði gefin heimild sú, sem frv. fer fram á.

Landhelgissjóður, sem stofnaður var með lögum 1913, er nú orðinn svo stór, að nægilegt fje er fyrir hendi til þess að kaupa eða láta smíða lítið strandvarnaskip. Jeg held mjer sje óhætt að segja, að sjóðurinn sje nú, eða eigi að vera í honum, rúmlega 1 miljón króna. Hjer er farið fram á, að verja megi úr sjóðnum alt að 700 þús. kr. í því skyni að kaupa eða láta smíða strandvarnaskip, og vona jeg, að hægt verði að fá gott skip og okkur hentugt fyrir minna verð. Það hefir verið grenslast eftir, hvort hægt myndi að fá hentugt skip keypt, eða hvort betra væri að láta smíða það, og hefir ráðuneytið horfið að því ráði, að best mundi vera að byggja skip á stærð við meðaltogara, og er það í samrœmi við till. sjávarútvegsnefnda.

Á þingi 1919 voru samþykt lög, sem heimiluðu stjórninni að kaupa eða láta byggja skip til strandvarna, og má líta svo á, að stjórnin hafi fulla heimild til þess, sem hjer er farið fram á. En þessi heimildarlög minnast hvergi á landhelgissjóðinn, eða að verja eigi honum til þessa, og gleymdist að taka það fram í fyrra, þegar lögunum um sjóðinn var breytt. En þar sem sjóðurinn er orðinn svona stór, þykir sjálfsagt að verja nokkrum hluta hans í þessu augnamiði, og þess vegna er frv. borið fram.

Um nauðsyn þessa máls eru ekki skiftar skoðanir. Við höfum sjeð og sannfærst um, að þörf er á fullkomnari strandvörnum. Í fyrra getum við sagt, að strandvarnirnar hafi verið allgóðar, og þó var skip það, er við hjeldum úti, alls ekki fullnægjandi. En með því að bæta öðru við ættu strandvarnirnar að verða viðunandi, því sjálfsagt er að slaka ekki í neinu á kröfunum til Dana, enda heppilegt að hafa samvinnu við þá í þessu efni; það sýndi sig í sumar, er leið.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um frv., en vona hinsvegar, að enginn rísi á móti því, að stjórnin fái þessa heimild, sem farið er fram á.