09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

86. mál, Landhelgissjóður

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vildi mega láta þau orð fylgja frv. þessu fyrir hönd fjármálaráðuneytisins, að stjórnin leggur það fyrir þingið í fullu trausti þess, að það vilji leggja fram það fje, sem þarf til greiðslu kostnaðar við rekstur skipsins, þegar til kemur. Og ef þær tekjur, sem ríkissjóður hefir nú, nægja ekki til þess, þá sjái Alþingi honum fyrir nýjum tekjuauka til að standast þann kostnað. Jeg hefi viljað láta þessa getið strax, til þess að ekki væri hægt að segja eftir á, að ekkert hefði verið um þetta atriði hugsað. Vitanlega eru engar skýrar áætlanir til um það, hversu rekstrarkostnaðurinn muni verða mikill, en gert hefir verið ráð fyrir, að hann muni verða um milj. kr. árlega.

Út af ummælum háttv. þm. Str. (TrÞ) vil jeg taka það fram, að með frv. þessu er ekki lagt fram neitt fje, heldur aðeins farið fram á að fá heimild til að ráðstafa því fje, sem áður er útvegað. Er því hjer einungis um ráðstöfun á útveguðu fje að ræða, en ekki fjárframlag af hendi ríkissjóðs, nema að því leyti, sem meira þarf til rekstrar skipsins en landhelgissjóður getur borgað.