23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

86. mál, Landhelgissjóður

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það þarf ekki langt mál að fylgja frv. þessu frá minni hendi. Nefndin er á einu máli um að ráða hv. deild til að samþykkja frv. óbreytt.

En mjer þykir vel hlýða í þessu sambandi að minna á það, að fyrir 12 árum var landhelgissjóður Íslands stofnaður, og sá, sem mestar og bestar þakkir á skilið fyrir það, að byrjað var að draga saman fje í sjóðinn, var sjera Sigurður Stefánsson. Hann átti frumkvæði þessa máls og studdi það vel og drengilega. Sjóðurinn hefir nú vaxið hröðum fetum. Fyrir nokkru var landsstjórninni gefin heimild til þess að láta byggja strandvarnaskip. Þó gat ekki af því orðið, eins og kunnugt er, enda lýsti hæstv. fyrverandi stjórn yfir því í fyrra, að hún sæi sjer ekki fært að láta byggja skipið, vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs. Er því gleðilegt, að svo hefir batnað í ári, að núverandi stjórn sjer sjer fært að leggja til við Alþingi, að byrjað verði á smíð strandvarnaskipsins, enda munu allir fagna því, sem eitthvað þekkja til, að sá draumur þjóðarinnar rætist, að landið eignist fyrsta strandvarnaskipið.

En það er vitanlegt, að stofnkostnaður þessa fyrirtækis er smáræði í samanburði við rekstrarkostnað skipsins. Þess vegna verða allir að gera sjer ljóst, að um leið og ákveðið er að byggja strandvarðaskip þá verður rekstur þess að vera trygður. Og einmitt vegna þess, að stofnkostnaðurinn er tiltölulega smár, þá leggur nefndin aðaláhersluna á, að bygt verði nýtt skip til landhelgisvarnanna, en ekki gamalt keypt. Ekki mun dýrara að reka nýtt skip en gamalt, og er þess vegna sjálfsagt að spara ekki svo til skipsins í upphafi, að það komi ekki að hálfu gagni við það, sem vænta má af vönduðu skipi.

Þá má geta þess, að landhelgissjóðslögunum muni þurfa að breyta áður en stundir líða, svo að þau verði í samræmi við framkvæmdirnar. Þó vill nefndin ekkert frumkvæði hafa um það að þessu sinni. Sjóðurinn þarf að vaxa, því strandvarnaskipunum verður að fjölga, en eftir því sem strandvarnirnar aukast, má gera ráð fyrir færri brotum, og sektarfjeð því minna, sem í sjóðinn rennur. Það má vel vera, að á sínum tíma verði heppilegra að kaupa t. d. tvö minni skip, sem yrðu þó ekki dýrari í rekstri en þetta eina skip, sem við eigum þá. En úr því sker reynslan, svo um það er ástæðulaust að fjölyrða frekar. Jeg hefi að vísu verið þeirrar skoðunar, að rjettara hefði verið að svo vöxnu máli að kaupa tvö smærri skip nú þegar, en stærra skipið síðar, þegar nálgast þeir tímar, að við njótum ekki lengur dönsku varðskipanna, en þar sem jeg litlar undirtektir hefi fengið, geri jeg það ekki að ágreiningsatriði. Í slíkum málum sem þessum er gott, að allir geti fylgst að. Því treysti jeg, að allir geti orðið á eitt sáttir um að fylgja frv. þessu til sigurs, því hjer er um stórt mál og gott að ræða.