23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

86. mál, Landhelgissjóður

Pjetur Otteeen:

Það ræður að líkum, að jeg, sem var einn þeirra manna, er áttu frumkvæði að því á þinginu 1919, að samþykt voru lög, sem heimiluðu stjórninni að kaupa skip til landhelgisgæslu, og hefi nálega á hverju þingi síðan bent á nauðsyn þessa máls, að jeg fagni því mjög, að hæstv. stjórn beitir sjer nú fyrir því að hrinda þessu mikla áhugamáli mínu í framkvæmd. Og eftir þeim undirtektum, sem mál þetta hefir nú fengið hjer, mun mega treysta því, að það sje eindreginn vilji þingsins að styðja stjórnina í því að koma máli þessu áfram.

Það var minst á það við 1. umr. þessa máls af einhverjum hv. þdm., að heimild sú, sem stjórnin hefði til framkvæmda í þessu máli í lögum frá 1919, mundi einhlít, og af þeim ástæðum ekki þurfa neinar lagabreytingar. En eins og á stóð 1919, var ekki hægt að byggja framkvæmd í þessu máli á landhelgissjóði, er þá var ekki nema um 160 þús. kr., eða aðeins lítið brot af því, sem skipið mundi kosta þá; varð því að sjá fyrir framkvæmdinni á annan hátt, eins og þau lög mæla fyrir um. En nú hefir landhelgissjóður vaxið svo á þessum 5 árum, að hann mun nú nema um 1 miljón kr., en vandað strandvarnaskip mun vera hægt að fá fyrir 600–700 þús. kr.

Það er því aðeins um þá breytingu að ræða, að heimila stjórninni að verja fje sjóðsins til þess að kaupa skipið fyrir, en sú breyting er óhjákvæmileg, af því að svo er ákveðið í lögunum um landhelgissjóð Íslands, að það sje á valdi löggjafans, hvenær hann tekur til starfa.

Um mál þetta að öðru leyti er óþarfi að fjölyrða. Það er gleðilegur vottur um skilning hv. þdm. á þessu mikla þjóðþrifamáli, hversu mikil eindrægni er um það að láta nú til skarar skríða með að koma upp góðu og öflugu strandvarnaskipi — og að þeir láta sjer ekki vaxa í augum, þó að óneitanlega sje í mikið ráðist með þessu, ekki einasta það að kaupa skipið, heldur verður árlegur útgerðarkostnaður þess vitanlega mikill, eins og hv. frsm. (ÁÁ) benti rjettilega á.

En jeg er sannfærður um það, að sú verður reyndin á, að það þurfi engan að iðra þess, þó að allmiklu fje sje varið í þessu augnamiði, því að sú vernd, sem aukin landhelgisgæsla veitir smábátaveiðunum og ungviði fiskjarins, er svo þýðingarmikil í nútíð og framtíð, að það verður aldrei tölum talið.

Þá gleður það mig einnig, að hæstv. stjórn leggur til, að gerð skipsins verði eins og ráð var fyrir gert í lögunum 1919. Það er áreiðanlega langheppilegast fyrir allra hluta sakir að hafa skipið að öllu sem líkast togara og með nægum ganghraða. Skipið þarf að vera gott sjóskip, og það eru togarar yfirleitt. Þær tilraunir, sem gerðar hafa verið að undanförnu til þess að bæta úr landhelgisgæslunni á þann hátt að hafa vjelbáta til eftirlits, hafa yfirleitt reynst harla haldlitlar, og auk þess hefir gæsla svo ófullkominna báta verulega annmarka að öðru leyti.

Úrræðið liggur í þessu, að koma upp góðu og hentugu skipi, sem getur haft í fullu trje við sökudólgana. Eitt slíkt skip bætir mikið úr með aðstoð Þórs — og svo vitanlega danska varðskipsins — en framtíðarmarkmiðið er vitanlega að ráða frekari bætur á, með því að eignast að minsta kosti annað vel útbúið skip til þessara hluta, og má því ekki skerða landhelgissjóðinn miklu meira en nú er ráð fyrir gert, og halda til haga því, sem til hans kann að falla, svo að á þann hátt sje sjeð fyrir handbæru fje til þess á sínum tíma að færa út kvíarnar. Það mun áreiðanlega verða álitið í framtíðinni, að Alþingi hafi stigið giftuspor með því að koma þessu máli í framkvæmd.