01.04.1925
Efri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

86. mál, Landhelgissjóður

Jóhann Jósefsson:

Það gladdi mig að heyra, hvað hv. þm. Snæf. (HSteins) var djarfhuga í þessu máli. Einmitt þannig á að hugsa í máli eins og þessu. Það hefir vitaskuld aldrei verið mín tilætlun, að eitt skip ætti að anna öllu því, sem jeg nefndi. Jeg mintist á þessi atriði með það fyrir augum, að skipin væru fleiri, eins og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) tók fram. Það er auðvitað rjetta stefnan, sem hv. þm. Snæf. (HSteins) vildi fara í þessu máli, að hafa skipin mörg og láta þá björgunarstarfsemina vera samfara landhelgisgæslunni.

Hv. 1. landsk. (SE) talaði um, að þetta væri ekki mál neins sjerstaks kjördæmis. Jeg veit ekki til, að jeg hafi gefið tilefni til að minnast á það. Þetta er auðvitað alþjóðarmál, þótt það snerti kjördæmin misjafnt. Þetta vona jeg, að hv. 1. landsk., sem ávalt hefir opin augun fyrir því, hvað gera þarf í landhelgismálinu, skilji vel. Hv. þm. hefir sýnilega orðið eitthvað bumbult af því, sem jeg mintist á ýmislegt, sem á undan er farið í strandgæslu- og björgunarmálinu, t. d. flutningsmanns frv. um landhelgissjóðinn, strandgæslu Dana og athafna Vestmannaeyinga. Þarf mikla viðkvæmni til að hlaupa upp vegna þeirra ummæla, er jeg viðhafði. Nú var tíminn til þess að geta þess, sem gert hefir verið í málinu, og gefa þeim heiður, sem heiður ber.

Um hitt atriðið, sem við höfum haft tækifæri til að deila um áður, hvort heppilegri sjeu herferðastrandvarnir eða stöðug gæsla, ætla jeg ekki að deila nú. Jeg vil ekki ráðast í að metast um margt við hv. 1. landsk., en í þessu máli þykist jeg hafa betra vit og meiri reynslu en hann.