01.04.1925
Efri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

86. mál, Landhelgissjóður

Sigurður Eggerz:

Jeg þakka hœstv. forsrh. (JM) fyrir að leggja áherslu á, að skipin væru nógu hraðskreið, því að það tel jeg afarmikilsvert atriði í málinu.

Hv. þm. Vestm. (JJós) sagðist hafa bæði meira vit og meiri reynslu í þessu máli en jeg. Reynsluna hefir hann aðeins frá Þór, og sú reynsla er aðallega reynsla um heppilegt björgunarskip, en um vitið skulum við ekki deila. Annars hefi jeg haft ekki svo lítil afskifti af landhelgisgæslunni, þar sem hún hefir heyrt undir mig um tíma. Og mjer virðist jeg ekki þurfa að bera kinnroða í þessu máli, þar sem jeg fyrstur kom hjer á algerlega sjálfstæðri íslenskri landvarnagæslu jafnhliða þeirri dönsku, en í fyrstu mætti þetta allmiklum mótmælum. Jeg vil viðurkenna dugnað Vestmannaeyinga í að fá Þór sem björgunarskip, en ótal aðrir hafa barist fastlega fyrir aukinni landhelgisgæslu, og eiga þm. ekki lítinn þátt í því, hvað því máli hefir verið hrundið áfram. Jeg hafði mjög mikla löngun til, meðan jeg fór með stjórn síðast, að ráðast í að kaupa landvarnaskip, en heimild til þess var þá til, en fjárhagurinn þoldi það ekki þá, en nú er hann kominn í betra horf, og verður nú þessu þýðingarmikla máli væntanlega hrundið áfram.