24.02.1925
Neðri deild: 15. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

31. mál, sektir

Frsm. (Jón Kjartansson):

Eins og sjá má á nál., hefir allshn. einróma lagt til, að frv. þetta nái fram að ganga, og telur hún felast í því ýmsar rjettarbætur frá því, sem nú er. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er það einkum þrent, sem frv. fer fram á, að breytt verði í núgildandi lögum. Fyrst er það, að hækka skal hámark sekta, sem dæma má menn í eftir hinum almennu hegningarlögum. Samkv. núgildandi ákvæðum í þeim lögum má ekki dæma menn til að greiða hærri sektir en 2000 krónur. En hegningarlögin eru orðin gömul og þetta sektarhámark óhæfilega lágt, einkum þegar þess er gætt, hversu verðlag peninga hefir breyst, svo og þegar það er borið saman við sektarákvæði í ýmsum öðrum lögum. Það eru gömul ákvæði í lögum, tekin í ts. 25. júní 1869, að sjeu sektir ekki greiddar á tilskildum tíma, þá skuli þær afplánaðar í fangelsi. Þessi vararefsing er, að því er hegningarlögin snertir, ákveðin í 31. gr. láganna, og er þar að vísu rammi, sem dómarinn skal fara eftir, þegar hann ákveður vararefsinguna. En þessi rammi er þó svo þröngur, að vararefsingin verður altaf óhæfilega há í hlutfalli við sektarupphæðina, eins og greinilega má sjá á því, að menn geta þurft að vera 60 daga í einföldu fangelsi til þess að afplána 200 kr. sekt. Slíkt nær vitanlega ekki nokkurri átt. En sjerstaklega kemur það betur í ljós, hversu vararefsingin er ranglát, þegar hún er ákveðin fyrir brot, sem ekki er refsað fyrir samkv. hegningarlögunum. Þá er vararefsingin fastákveðin með tölum í áðurnefndri ts. 25. júní 1869, og hefir dómarinn þar ekkert að segja um vararefsinguna. Og eins og sýnt er í greinargerð frv., getur vararefsingin í þessum tilfellum orðið svo há, að alls engri átt getur náð. Það er ekki langt síðan mikið var talað um erlendan mann, sem hjer var dæmdur í 20 þús. kr. sekt og var byrjaður að afplána hana. Það hefði tekið þennan mann um 11 ár að afplána þessa sekt að fullu. Það sjá nú allir, að ekkert vit er í slíkum ákvæðum, þegar styttri fangelsisvist liggur við stórum glæpum, sem refsað er fyrir samkv. hegningarlögunum, heldur en brotum, sem aðeins liggja við sektir. Jeg vona, að allir hv. þdm. sjái, hversu nauðsynleg þessi breyting er.

Þá er farið fram á það í frv., að mönnum verði ekki leyft að afplána sektir í fangelsi við vatn og brauð, sem mjög hefir tíðkast undanfarið. Það er nú álit flestra refsirjettarfræðinga, að refsingu þessa eigi að nema úr lögum, þar sem hún sje svo óholl einstaklingunum. Nefndin hefir fallist á, að rjett sje, að þessi heimild sje úr lögum numin.

Í nefndinni var talsvert rætt um það að setja nýtt ákvæði í frv., er gerði það að skyldu, að gerð væri aðför fyrir sektum áður en gripið væri til vararefsingarinnar. Jeg fyrir mitt leyti hafði talsverða tilhneigingu í þessa átt, þar sem jeg varð þess oftlega var, meðan jeg var fulltrúi lögreglustjórans hjer í Reykjavík, að menn, sem vitanlegt var, að gátu greitt sektir, sem þeim var gert að greiða, færðust undan því, kusu heldur að afplána þær, þar sem það tók svo stuttan tíma, í fangelsi við vatn og brauð. Það er augljóst, hversu óheppilegt það er, að menn skuli slægjast eftir því að fara í fangelsi, og datt því nefndinni meira en svo í hug að setja allsherjarákvæði um aðför fyrir sektum í frv. En þó hættum við við þetta eftir nánari yfirvegun, sjerstaklega þegar við gættum þess, að hjer eftir verður mönnum ekki leyft að stytta fangelsistímann með því að afplána sektirnar í fangelsi við vatn og brauð. Einnig mundi það auka störf fógeta til muna, ef slíkt ákvæði yrði sett í lög. Þá má og telja það vafasamt, hvort það sje í rauninni rjett að ógna mönnum með öreign fyrir brot, sem aðeins liggja við sektir. Að öllu þessu athuguðu hætti nefndin við að gera þessa brtt. Brtt. nefndarinnar er eingöngu orðabreyting, sem hún telur til bóta. Auk þess er prentvilla í 4. gr. frv., sem að sjálfsögðu verður leiðrjett.