28.02.1925
Efri deild: 19. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

31. mál, sektir

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hygg, að það sje ofurskiljanlegt, að svona frumvarp kemur fram, og að það sje síst of snemma. Eftir hegningarlögunum mátti dæma í sektir frá 2–2000 kr. og einfalt fangelsi er þar ákveðið í hæsta lagi 2 ár. Nú hefir löggjöfin fyrir utan hegningarlögin breyst mikið, þannig, að sektir í samanburði við þetta geta orðið afarháar. Og er auðsjeð, að hegningarlögin eru orðin mikið á eftir tímanum; einkum á það sjer stað um ákvæði tilskipunarinnar frá 25. júní 1869 um afplánun sekta. Hygg jeg, að bæjarfógetinn hjer í Reykjavík hafi ekki orðið þess síst var, hve erfitt er að eiga við svo að segja fyrnd lög. Jeg skal ekki fara langt út í þetta. Aðeins benda á, að komið getur fyrir, að maður verði dæmdur í sjerlega háa sekt, t. d. fyrir að flytja bannvörur inn í landið. Vart er ætlandi, að sá maður sje sekari en annar, sem drýgt hefir mjög alvarlegan glæp, en sekt hins fyrnefnda getur verið svo há, að hann þyrfti að sitja í æfilöngu fangelsi til þess að afplána hana, þó hann væri mjög ungur, er hann byrjaði á því, en hinn máske aðeins fá ár. En svona eru ákvæði gömlu tilskipunarinnar. Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) hefir áður sýnt ljóslega fram á það hjer í þessari hv. deild, hversu óhafandi slík lög eru. Og þess vegna eru nú þessar breytingar bornar fram, og eru þær að miklu leyti gerðar í samráði við hann.

Jeg vænti þess, að jeg þurfi ekki að mæla frekar með þessu frv. Hv. Nd. hefir samþykt það með einni örlítilli orðabreytingu, og vildi jeg óska, að það fengi jafngóða meðferð hjer. Enda mun mjer óhætt að segja, að þetta sje alveg sjálfsögð lagabreyting.

umr. lokinni vil jeg mælast til þess, að frv. verði vísað til hv. allshn.