26.03.1925
Neðri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

1. mál, fjárlög 1926

Halldór Stefánsson:

Jeg skil vel þörfina á að vera stuttorður, því að jeg veit, að margir þurfa að taka til máls, þar sem svo margar brtt. eru við fjárlögin. Jeg skal þess vegna láta mjer nægja að gera grein fyrir einni af þeim brtt., sem jeg er riðinn við, en það er 5. brtt. á þskj. 235, um ferðastyrk til Ólafs Ó. Lárussonar læknis. Hv. meðflm. mínir munu gera grein fyrir þeim öðrum tillögum, sem jeg er riðinn við. Jeg skal þá með fám orðum gera grein fyrir ástæðunni.

Menn munu muna, að í fjárlögunum undanfarið hefir verið veittur 3000 kr. utanfararstyrkur handa læknum, til þess að þeir gætu fylgst betur með í sínum fræður. Styrkurinn hefir verið veittur eftir tillögum landlæknis. Þessi umræddi læknir hafði fengið vilyrði fyrir styrk, en þegar hann ætlaði að hefja hann, var búið að veita hann af einhverjum misskilningi eða öðrum ástæðum, sem mjer er ókunnugt, hverjar voru. En af því að hann var þá ferðbúinn, fór hann eigi að síður, en mun þó hafa verið gefin von um, að þetta yrði bætt upp síðar. Hann tók þess vegna lán til ferðarinnar. Jeg skal taka það fram, að læknirinn er ekki efnaður maður og hefir fyrir stórri fjölskyldu að sjá. En nú vildi svo til, að styrkurinn var feldur af fjárlögunum, svo að af engu var að taka, þegar til efndanna átti að koma.

Þá ætla jeg að gefa stutta skýrslu um utanferðina, svo að menn sjái, að hún var gerð í því skyni, sem til var ætlast.

Fyrst fór hann til Noregs og heimsótti 2 spítala í Bergen og Kristianíu. Þaðan fór hann til Danmerkur og gekk á Sundbyspítala í Kaupmannahöfn í 3 vikur. Svo fór hann til Þýskalands og sótti fyrirlestra í Berlín rúma viku, var síðan 3 vikur í Zwickau hjá frægum lækni þar, og síðan 3 vikur í Wien, og þar gekk hann á chirug, klinik, hjá hinum fræga handlækni Eiselsberg. Á heimleiðinni var hann svo aftur á spítala í Kaupmannahöfn. Alls var hann erlendis 4 mánuði, og er upphæð styrksins miðuð við það. Jeg vona, að þetta nægi til að sýna, að hann fór í þeim erindum, sem til var ætlast, og notaði tímann vel, enda er hann áhugasamur og góður læknir og skyldurækinn. Jeg vona, að hv. þdm. sannfærist um, að hjer er ekki farið fram á annað en að bæta mistök, sem jeg að vísu veit ekki, hvernig á stendur, þar sem læknirinn fór í von um styrk, sem hann gat ekki vitað, að mundi bregðast, a. m. k. á hann enga sök á því. Vona jeg, að fjvn. taki þessari tillögu með sanngirni og velvild og mæli með henni.

Að svo stöddu skal jeg ekki lengja umr. frekar.