20.02.1925
Efri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

13. mál, smjörlíki

Sigurður Eggerz:

Það er hverju orði sannara hjá hæstv. atvrh. (MG), að það er einkennileg aðferð að styrkja fyrst fyrirtækið með láni og banna það svo. En ástæðan er auðvitað sú, að þegar lánið var veitt, þá var mönnum ókunnugt um, að smjörbú og smjörlíkisgerð eru ósamrýmanleg eftir þeim reglum, sem gilda hjá þeim, sem reynslu hafa fengið í þessum málum. Hæstv. atvrh. (MG) talaði um óþægindi þau, sem af því leiddu, að sum tækin væru bæði notuð til smjörlíkis- og smjörgerðar, og yrði því að afla sjer nýrra tækja, ef smjörlíkisgerðin flytti sig. En þar sem nú eftir þeirri reynslu, sem fengin er annarsstaðar í þessum málum, og eftir vorri eigin löggjöf er bannað að nota sömu tækin, þá verður þetta smjörbú að beygja sig fyrir því eins og aðrir.

Enginn má skilja orð mín svo, að jeg vilji ekki láta sýna smjörbúi þessu fullkomna sanngirni. En þá álít jeg þá leið langtum heppilegri, að gefa beinlínis upp þetta 5000 kr. lán, heldur en veita heimild þá, er frv. fer fram á. Ef hún yrði veitt, gæti það orðið til þess að spilla smjörmarkaðinum, og þá væri áreiðanlega meira í húfi heldur en þessar 5000 kr. Eins er jeg sannfærður um hitt, að það yrði ekki til tjóns fyrir smjörlíkisgerðina að flytja sig til Eyrarbakka, heldur þvert á móti. Mikil framleiðsla er aðalskilyrðið fyrir smjörlíkisgerðina, en eftir því sem hún er afskektari, eru minni skilyrði til þessa fyrir hendi.

Það, sem landbn. þarf fyrst og fremst að athuga í máli þessu, er það, hvort þessi heimild geti ekki haft spillandi áhrif á íslenskan smjörmarkað.