20.02.1925
Efri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

13. mál, smjörlíki

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get vel fallist á þá skoðun hv. 1. landsk. (SE), að rjett sje að athuga, hvort heppilegra sje að gefa upp lánið eða veita heimildina. En aðrahvora þá leið verður að fara, því að þingið getur að öðrum kosti ekki verið þekt fyrir afskifti sín af þessu máli. Jeg fyrir mitt leyti held, að það sje alveg óhætt að veita heimildina. Þeir, sem náttúrlega hafa helst ástæðu til að beinast gegn því, eru smjörlíkisframleiðendur, og fyrir þeirra tilstilli er bannákvæðið fram komið. Það kann að vera rjett hjá hv. 1. landsk. (SE), að heppilegra sje að hafa þessar verksmiðjur í kauptúnum, en í þessu tilfelli getur það þó orkað tvímælis. Það smjörlíki, sem þar hefir verið framleitt, hefir einkum verið notað til viðbits þar eystra í sparnaðarskyni og þótt betra en annað smjörlíki, enda er þar völ á efnum, eins og t. d. mjólk, sem örðugra er að afla sjer í kaupstöðum. Annars er vandinn ekki annar fyrir smjörbúið — ef það vildi smeygja sjer undan banninu — en að reisa annað hús við hliðina á hinu, og það geta engin fyrirmæli bannað. Ef tilætlunin væri að beita svikum, er ákaflega erfitt að koma í veg fyrir það. En hjer hygg jeg, að slíkt komi ekki til mála, og í því trausti hefi jeg borið fram frv. þetta.