26.03.1925
Neðri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

1. mál, fjárlög 1926

Klemens Jónsson:

Mjer þótti háttv. frsm. meiri hl. (ÞórJ) byrja ræðu sína á hálfeinkennilegan hátt, þar sem hann fór að víkja að fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar í fyrra. Mjer fanst hann tala fremur sem flokksmaður en sem óhlutdrægur framsögumaður fjárveitinganefndar. Jeg ætla alls ekki að fara að draga gömul fjárlög eða frumvörp inn í umræðurnar nú, en læt mjer nægja að halda því fram, að fjárlagafrv. mitt í fyrra hafði þann kost að marka alveg nýja stefnu í fjármálum, sem síðan hefir verið fylgt. Þá stefnu að skila fjárlögunum tekjuhallalausum. Þá stefnu hjelt þingið í fyrra, og jeg vona, að bæði þing og stjórn haldi henni ennþá. Þetta veit jeg, að allir sanngjarnir menn viðurkenna.

Við þennan kafla fjárlaganna á jeg enga brtt. Eigi að síður vil jeg fara nokkrum orðum um einstaka liði.

Hvað tekjuáætlunina snertir, þá er hún sá grundvöllur undir fjárlögunum, sem vanda verður eins og hægt er, ef vel á að fara. Hana verður að áætla svo varlega, að vissa sje fyrir, að þær tekjur, sem gert er ráð fyrir, komi inn. Tekjuáætlun þessa fjárlagafrumvarps tel jeg mjög gætilega, helst til of gætilega, nema þá því aðeins, að afganginum ætti að verja til afborgunar af lausu skuldunum, sem líka mun vera tilætlunin, þar sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir lýst yfir því, að það hafi þegar vakað fyrir honum við samningu frumvarpsins, en það hefði átt að koma skýrt fram. Hefir því fjvn. ekki gert annað en að taka skrefið fult, þegar hún um leið og hún áætlar tekjuhliðina mjög varlega ákveður, að afganginum skuli verja til þess að borga í lausu skuldunum. Jeg er háttv. nefnd alveg samþykkur með að taka þennan lið upp. Og jeg er alveg samþykkur því, að ekki nær neinni átt að færa þann lið niður. Get jeg því með engu móti fallist á till. hv. þm. Dala. (BJ), en tel sjálfsagt að halda fast við að hafa upphæðina ekki minni en 600 þús. kr., eða eins og tekjuhækkuninni nemur.

Jeg tók eftir því hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að þegar hann hefði verið að ákveða upphæð verðtollsins í fjárlagafrumvarpinu, þá hefði hann haft fyrir augum, að lögin í þeirri mynd, sem þau eru nú, giltu aðeins til 1. apríl 1926. Ennfremur tók hæstv. ráðherra fram í þessu sambandi, að þessi 350 þús. kr. hækkun, sem nefndin fer fram á, gæti því aðeins staðist, að lögin eins og þau eru nú giltu alt árið. Jeg sem form. fjhn. skal skrifa þetta bak við eyrað, en að svo stöddu get jeg ekkert sagt, hvað nefndin gerir.

Háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) og hæstv. fjrh. (JÞ) kváðust báðir vænta þess, að þetta þing hjeldi hinni sömu sparnaðárstefnu og síðasta þing. Reyndar bar hv. frsm. kvíðboga fyrir, að svo myndi verða. Út af þessum ummælum vil jeg taka það fram, að jeg er alveg sömu skoðunar og í fyrra, að fyllsta þörf sje að gæta hins ýtrasta sparnaðar, og vil jeg styrkja hverja stjórn til þess. Því jeg vil ekki láta stundarhag, eitt góðæri, villa mjer eða öðrum sjónir, svo að menn missi stjórnar á sjálfum sjer. Það hefir oft verið tekið fram með rjettu, að gróðavíman 1919 hefði haft ilt eitt í för með sjer, og því beri að forðast, að slíkt geti komið fyrir aftur, og það ættu þm. að hafa hugfast nú.

Enda þótt jeg fylgi hinum ýtrasta sparnaði, verð jeg þó að taka það fram, að fullkomna kyrstöðu getur þjóðin ekki unað við til lengdar. Mjer finst t. d. æðihart að takmarka allar samgöngubætur, bæði á sjó og landi, meðan Við höldum öllum þessum dýru skólum. Finst mjer því rjettast, að jafnhliða því, sem dregið er úr samgöngubótunum og verklegum umbótum sje jafnframt dregið úr skólahaldinu.

Eftir tillögum fjvn. og tillögum hæstv. stjórnar virðist mjer, að hvikað sje frá kyrstöðunni, þar sem t. d. eru teknar upp 50 þús. kr. til vita og allmikið fje til vegabóta. Þetta tel jeg vel farið, og mun það fyllilega óhætt.

Þá hefi jeg lokið hinum almennu athugasemdum, sem jeg vildi gera, og skal því víkja nokkrum orðum að einstökum brtt.

Þá er fyrst eitt atriði, sem jeg vildi beina til hæstv. forsrh., en úr því hann er ekki viðstaddur, get jeg eins beint því til hæstv. fjrh. (JÞ). Það er viðvíkjandi 11. grein A. 6, skrifstofukostnaði sýslumanna. í minni stjórnartíð voru dálítið skiftar skoðanir um, hvort þetta ætti að vera föst upphæð eða aðeins áætlunarupphæð. Jeg hjelt því fram, að þetta væri föst upphæð, sem ekki mætti fara fram úr nema með aukafjárveitingu. Þætti mjer vænt um að heyra álit hæstv. fjrh. á þessu.

Háttv. fjvn. hefir komið fram með margar brtt., og eru margar þeirra þess efnis, að jeg mun greiða atkvæði með þeim. Sjerstaklega skal jeg taka fram, að jeg sje ekki, að hjá því verði komist að hækka fjárveitinguna til landhelgisgæslunnar eins og nefndin leggur til. Sama má segja um vegabæturnar. Sjerstaklega gleður það mig, þó, að háttv. nefnd hefir tekið Vaðlaheiðarveginn upp í till. sínar, því að þess var brýn þörf, og hefir verið um fult 20 ára skeið. Annars veit jeg ekki, hvort nefndin hefir gengið nógu langt á þessu sviði. Vitanlega hefir hún aukið upphæðina til viðhalds þjóðvega um 5 þús. kr., en jeg er ekki viss um, að það sje nóg.

Sama er að segja um tillagið til sýsluvegasjóða. Það er fulllágt.

Þá kem jeg að 25. lið, þar sem hv. fjvn. leggur til að heimila stjórninni að láta stækka og fullkomna loftskeytastöðina hjer í Reykjavík, svo að hún verði einfær um að annast skeytasamband við útlönd, ef þörf gerist. Jeg get sagt það þessu viðvíkjandi, að það getur verið viðsjárvert að gefa stjórninni svo víðtæka heimild til útgjalda, sem menn hafa allsendis óglögga hugmynd um, hve mikil muni verða. En þessu máli er nú samt svo farið, eins og nál. ber með sjer, að óhjákvæmilegt er að veita stjórninni heimild þessa, svo að þótt einhverjum þyki það athugavert, þá verður það samt svo að vera. Það er ekki víst, hvort samningar takast með Stóra norræna og stjórninni, svo að stjórninni er nauðsyn að hafa heimild til þess að gera stöðina svo fullkomna, að hún geti annast skeytasambandið, ef á þarf að halda. Jeg vona nú, að til þess þurfi ekki að koma; jeg vona, að við náum þolanlegum samningum við Stóra norræna. En eftir því, sem heyrst hefir, mun hafa verið erfitt að eiga við Stóra norræna fjelagið, er landssímastjóri var að semja við það síðastliðinn vetur. En vonandi er, að þegar á á að herða. þá náist samningar án þess að grípa þurfi til þessarar heimildar.

Þá er þessi nýi viti. Jeg mun einnig greiða atkv. með honum, vegna þess að jeg álít, að ekki geti komið til mála að taka svo mikið vitagjald án þess að verja því til að lýsa strendur landsins. Það mun ýmsum þykja undarlegt að taka svo mikið gjald af erlendum skipum og nota það til almennra ríkisþarfa, og er það ekki nema eðlilegt. En þegar það er athugað, að varið hefir verið miklu meira fje alls til vitabygginga en nemur vitagjaldinu frá byrjun, þá verður að álíta það vel forsvaranlegt, þó að úr falli eitt og eitt ár án þess að nýir vitar sjeu reistir. En það má ekki ganga svo til lengdar.

Jeg held, að jeg hafi svo ekki fleira að segja um brtt. hv. meiri hl. fjvn. En viðvíkjandi brtt. hv. minni hl. þá er þar farið fram á svo stórfelda hækkun á hjer um bil öllum liðum, að jeg býst ekki við því, að jeg geti fylgt þeim, þó að þær sjeu sumar mjög þess verðar, að þeim sje gefinn gaumur, og undir öðrum kringumstæðum mundi jeg hafa tilhneigingu til að fylgja þeim.

Þá eru till. einstakra þm. Mun jeg ekki minnast á margar þeirra. Fyrst skal jeg þá nefna brtt. frá hv. 2. þm. Eyf. (BSt) undir III. lið á þskj. 235, um styrk til íbúa Ólafsfjarðarhrepps til þess að útvega sjer lækni. Af því að jeg er mjög vel kunnugur á þessu svæði, vil jeg taka undir með hv. þm. (BSt) og votta það, að hann gaf alveg rjetta skýrslu og nákvæma um staðháttu á þessum slóðum. Mikinn hluta ársins er hjer um bil ómögulegt að komast landveg í Ólafsfjörð, og oft alveg ófært á sjó. Brött og snjóþung heiði, Reykjaheiði, liggur milli Ólafsfjarðar og Svarfaðardals. Jeg hefi oft farið þá heiði, og hefir hún verið mjög ill yfirferðar jafnvel um mitt sumar. Best er að komast sjóleiðis, en þó geta komið dagar og vikur, sem ómögulegt er að komast frá Svarfaðardal í Ólafsfjörð. Símasambandið, sem komið hefir síðan jeg þekti til, bætir nokkuð úr, þannig, að fyr getur náðst í lækni en annars. En það nægir ekki. Nú vilja Ólafsfirðingar fá sjer lækni, en eins og hv. 2. þm. Eyf. (BSt) tók fram, þá mun þar ekki að ræða um mikla praksis. Það var fátækt fólk í þessari sveit, þegar jeg þekti þar til, en síðan mun velmegun hafa aukist, og einnig hefir þar risið upp þorp í Ólafsfjarðarhorni. Þó geri jeg ekki ráð fyrir mikilli praksis. En hinsvegar álít jeg, að þessi læknir eigi ekki að vera eingöngu fyrir Ólafsfjörð, heldur líka fyrir Stíflu. Milli Stíflu og Ólafsfjarðar liggur Lágheiði svo nefnd, sem teljast má greið yfirferðar. Ætti því læknirinn að geta haft alla Stíflu með Ólafsfirði. Vil jeg mæla hið besta með samþykt þessarar tillögu.

Hvað aðrar brtt. á þskj. 235 snertir, þá mun jeg með atkvæði mínu sýna, hver sje mín afstaða til þeirra. Þó skal jeg taka það fram um X. brtt. á því þskj., um styrk til Heilsuhælisfjelags Norðurlands, að jeg á bágt með að greiða atkv. á móti henni, þótt um allháa upphæð sje að ræða. Hjer hefir komið fram svo mikill áhugi og fórnfýsi, að teljast verður mjög viðurkenningarvert. Skotið hefir verið saman talsvert á annað hundrað þús. kr. Sýnist mjer vel þess vert að styrkja slíkan áhuga. En jeg bíð eftir nánari skýrslu frá hv. 1. flm. (BL) áður en jeg tek afstöðu til þessarar till.