26.03.1925
Neðri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Hv. 2. þm. Rang. (KIJ) bætti sjer í þann hóp, sem ætlar sjer að vera vitur og varkár í fjármálum með því að taka af tekjum ríkissjóðs til þess að greiða halla fyrri ára. En sá halli stafar af klaufaskap þings og stjórnar. Nú vilja þessir menn láta það alt bitna á landsmönnum um næsta þriggja ára bil, í stað þess að taka lán, sem endurgreiðist á 30 árum, svo að hægt sje að halda áfram að styðja nauðsynlegar framkvæmdir, eins og skylda hv. þm. er. Það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn og búa þannig til nýjan lið, um 600 þús. kr., aðeins út í loftið. En þótt allar þær brtt., er hjer liggja fyrir, yrðu samþyktar, væri samt nóg fje afgangs til þess að greiða lausaskuldirnar. Það verður stórfje fram yfir áætlun, og þýðir ekki að slá ryki í augu kjósenda um það.

Hæstv. samgöngumálaráðherra (MG) kvaðst vona, að samningar tækjust við Stóra norræna. Jeg vona, að það verði ekki, því að þeir samningar mundu verða Íslandi í óhag, eins og samningar við það fjelag hafa altaf verið Íslandi í óhag. Og þeir samningar eru svo, að það er því líkast, sem mjög einfaldir menn hafi samið þá. En verði nú úr samningum, vona jeg, að hæstv. stjórn snúi þessu þann veg við, að hún reyni að hlunnfæra fjelagið, í stað þess að láta það hlunnfæra Ísland. En sannarlega væri nær að veita íslenskum námsmönnum styrk heldur en láta slík fjelög ganga í íslenskan ríkissjóð.

Kem jeg þá að öðru efni. Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að nokkuð hefði vantað á, að vitar landsins legðu landssjóði til það fje, er þeir kosta. Þarna skjöplaðist þó hæstv. samgöngumálaráðherra, því að ekki eru vitarnir sjálfir taldir sem eign. Og satt er það, að skýrsla nefndarinnar er undarleg, því að ef vitar væru með taldir, þá er eign 1/2 milj. fram yfir skuldir, og þá eign ætti að vísu að nota til þess að reisa nýja vita. (Atvrh. MG: Á að taka þessa gömlu vita til þess?). Hæstv. atvrh. þarf ekki að taka þannig til orða, því að bæði hann og jeg vitum það, að ekki veitir af milj. kr. til þess að reisa nýja vita, sem hjer er þörf fyrir, og að skammarlega litlu hefir verið til þeirra varið og háborin skömm, hve vitar eru hjer fáir. En þegar eitthvað á að gera í því efni, er altaf vitnað til peningaleysis og laminn sami barlómurinn ár eftir ár. Nú vita þó allir og hafa viðurkent, að nauðsynlegt er að vita vel strendur landsins, svo að siglingar sjeu hjer öruggari og lífi sjómanna minni hætta búin en ella. Og það er synd gagnvart þjóðinni sjálfri að stöðva slík fyrirtæki, og allra helst þá, er fyrirtækið sjálft borgar sig. Þess vegna veitir ekki einu sinni af 50 þús. kr., heldur 150 þús. kr., til þess að reisa nýja smávita, sem óreistir eru, svo sem á Dyrhólum, í Seley eystra og víðar, og mætti veita til þessa meira fje en gert er, því að það er ekki satt, að neinn fjárskortur sje.

Um símaleiðsluna er það að segja, að Alþingi leikur ár eftir ár þann leik að brjóta sín eigin lög. En í þessu máli er til einn hæstirjettardómur, og það er dómur þjóðarinnar, því að hún mun ekki kunna því, að á sjer sjeu brotin lög. Það stendur í lögum, að afgangur af símatekjum skuli ganga til þess að leggja 3. flokks síma, en tekjurnar hafa nú orðið eyðslueyrir um mörg ár. Síminn hefir skilað um 1/2 milj. kr. hreinum tekjum, en þær hafa alveg horfið inn í þá miklu hít, sem heitir ríkissjóður. Hjer vil jeg minnast á sambandslínu, sem nær út á Barðaströnd og er innanhjeraðs í Dölum. Það kann vel að vera, að símastjóri hafi ekki sjerstaklega áætlað símalínu þarna. En bæði jeg og Dalamenn teljum nauðsynlegt, að ekki sje beðið eftir því, að einhverri undirtyllu stjórnarinnar þóknist að hefja máls á því, að þessa síma sje þörf.

Jeg hefi heyrt, að vegamálastjóri hafi gert áætlun um sjö ár um það, hvernig samgöngubótum á landi skuli hagað. Þetta tel jeg nokkuð líkt og söguna um Jakob og Rakel, áður en hann var svikinn um kvonfangið, sbr. vísuna:

„Fyrir henni fjórtán í vetur

föður ágjörnum þjóna jeg vann.“

Hv. 2. þm. Rang. (KIJ), hæstv. atvrh. (MG) og fleiri töldu vel ráðið að veita fje til vegar yfir Vaðlaheiði. Jeg hefi stutt það, en þar með er ekki sagt, að jeg telji aðra vegi rjettlausa. Vegur sá, er getur um í brtt. mínum, frá Fellsenda á leið suður yfir Bröttubrekku, er nauðsynlegur fyrir Dalasýslu. Og vegna þess, að hans sjest hvergi getið í þessari sjö ára Rakelar-áætlun vegamálastjóra, vil jeg minna á hann. Það var einu sinni til vegur, er var svo góður, að kýr varð þar til og síðan höfð fyrir stiklu, en í þessum vegi er engin kýr til vegarbóta. En leiðin er svo slæm, að 7–8 sinnum verður að fara þar yfir eina á, og breytist þó leiðin eftir því, hvernig áin brýtur eyrarnar. (Atvrh. MG: Það er auðsjeð, að ekki er hægt að leggja veg þarna). Þetta mundi vera rjett hjá hæstv. atvrh., ef fara þyrfti yfir ána. en svo er ekki, ef vegurinn fæst. Og að þessum upplýsinginn fengnum, efast jeg ekki um, að hæstv. samgöngumálaráðherra og hv. þdm. muni greiða brtt. minni atkvæði.

Jeg er þakklátur hæstv. atvrh. fyrir tillögur hans um skuldagreiðslu flóabátsins Svans. Stjórn sú, er upphaflega var kosin til þess að sjá um útgerðina, festist á víxlum, eins og venjulegt er að menn ánetjist í slíkum fyrirtækjum. Reyndi hún síðan að gera sjer fje úr bátnum, en varð fyrir miklu tjóni, og þættist nú góðu bætt, þótt ekki fengi hún meira en 8000 kr. upp í tjón sitt, t. d. ef óskir hennar inn hlutdeild ríkissjóðs skyldu falla við þessa umræðu. Stjórn fjelagsins hefir ekki í annað hús að venda. (Atvrh. MG: Nema þá til háttv. þm. Dala.). Jeg sje enga ástæðu til þess, að þm. Dala., sem er illa sjeður hjá hæstv. stjórn, geri það. Annars skal jeg stilla orðum mínum í hóf við þessa umræðu þessa hluta fjárlaganna.

Einn lið hefi jeg þó geymt mjer, og hann er um sendiherra Íslands í Danmörku. Hefi jeg hjer ýmsar ástæður fram að færa í því máli og vona, að menn hlýði til og sjái, hvort ekki er rjett það, er jeg held fram. Í sáttmála þeim, er Danir og Íslendingar gerðu með sjer 1918. er svo fyrir mælt í 7. gr., að Danir skuli fara með utanríkismál Íslendinga í umboði þeirra. Þar er þeir vildu og þar sem Danir hefðu sendiherra. En einn staður er óhugsanlegur, þar er Danir geti farið með umboð vort, og það er hjá þeim sjálfum. Árið 1919 varð það að samkomulagi með stjórnum beggja ríkja, að framkvæmd sáttmálans í þessu efni skyldi vera sú, að þjóðirnar skiftust á sendiherrum. Danir urðu fyrri til og sendu hingað fulltrúa með sendiherratitli (Extraordinær Gesandt og befuldmægtiget Minister). Litlu síðar sendum vjer Svein Björnsson til Danmerkur, eins og allir vita. Verður nú varla annað sagt en að Dönum sje misboðið í því, að láta sess hans óskipaðan í Danmörku. Því að um allan heim er það talin sjálfsögð hæverska að hafa hjá hverri þjóð jafngildan sendimann sem hún hefir á hverjum stað. En óhæverska við vinveitt viðskiftaríki er eitt hið versta glappaskot, sem oss getur hent. Og svo ber á annað að líta, að þótt vjer höldum, að engir taki eftir því, sem hjer er talað, þá er nú svo, að margir eru þeir, sem skilja íslensku víðsvegar um lönd og skýst ekki yfir alt hjer. Það er oss til lítils sóma, að því hefir oft verið hampað, að sjálfstæðið sje oss of dýrt. Gegn þessu hefir Einar Arnórsson prófessor komið með mótmæli í ritgerð nokkurri. Þetta hefir Knud Berlín lesið, og í danska blaðið „Skatteborgeren“ ritar hann svo grein um þetta og kemst að þeirri niðurstöðu, að sjálfstæðið íslenska sje of dýrt fyrir Dani. Í grein hans í þessu blaði segir svo, ef hæstv. forseti leyfir, að jeg lesi upp kafla úr henni. (Forseti BSr: Það væri gott, ef þýðing fylgdi með). Þess gerist varla þörf, því að hana skilja allir, samanber söguna um íslensku stúlkuna, sem einu sinni fór til Spánar og Spánverjar fóru að tala við hana, þá sagði hún: „Gú de!“ samkvæmt þeirri djúpt innrættu skoðun, að Danmörk væri allur heimurinn.

Hjer segir svo:

„Men efter et Par Aar at have prövet, hvad denne Herlighed kostede, har Island nu indrettet sig mere praktisk og billigt, idet det har betroet Stillingen som dets diplomatiske Repræsentant til en dansk Mand. der er praktiserende Overretssagförer i Köbenbavn, og som samtidigt með denne Virksomhed udförer det diplomatiske Hverv som islandsk Chargé d’Affaires.“

Þessi samanburður er rjettur, og líka hitt, að sá maður, er nú er Charge d’Affaires fyrir Ísland í Danmörku, er danskur þegn. Og er menn hugsa um þetta, má nærri geta, hvort slíkt geti ekki rekið sig á, Jeg er ekki að niðra þessum manni, og jeg hefi margsinnis tekið það fram, að hann er sá eini, er jeg gat trúað hjer fyrrum, er jeg var sendiherra Íslands og hafði tvö konungsríki í hælunum, bæði Ísland og Danmörk; jeg veit því, hvernig horfir við hjá þessum manni. Að vísu er til í Danmörku danskur maður, sem fer með sendiherraumboð fyrir annað ríki, en það er Svertingjaríki suður í Afríku. Og það er víst sá keppinautur, sem Ísland á að líkjast mest! Eða hvað?

Sjálfstæði það, er vjer fengum 1918, var ekki stolið, og þurfum vjer því ekki að fela það. En er það ekki alveg hið sama og vjer felum það, þá er vjer viljum ekki hafa sendimann á þeim stað, þar sem ekki er hægt að hafa umboðsmann? Að minsta kosti lítur þá svo út fyrir annara augum, sem vjer sjeum að fela sjálfstæði vort.

Gott er það að vera ekki orðsjúkur, þora að gera rjett og fara ekki mikið eftir því, sem aðrir segja. Hjer er öðru máli að gegna. Það er ekki einskisvirði, hvað aðrar þjóðir segja um oss og að þær hafi gott álit á þessu litla ríki. Gott álit er miklu meira virði fyrir þjóð heldur en fje það, sem fer til að afla þess. Þetta kemur í ljós daglega, eigi aðeins í viðskiftum þjóða, heldur og einstaklinga. Á þetta vil jeg benda hinum miklu sparnaðarmönnum þingsins. Að vísu er kostnaður nokkur við það að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn. Hefi jeg átt tal um það við Svein Björnsson, hvort sæmilegt væri að ætla slíkum manni 40 þús. kr. á ári, en hann sagði mjer, að vel athuguðu máli, að slíkt mundi eigi geta kostað minna en 42 þús. kr. Kaus jeg þá heldur að gera ráð fyrir 45 þús. kr., því að það er betri upphæð í meðförum.

Jeg viðurkenni það enn, að þessu fylgir kostnaður fyrir ríkissjóð. En hvað kemur svo í móti? Auðvitað þarf gagn, er að þessum sendiherra má verða, og til skilningsauka get jeg gefið nokkrar upplýsingar um það, hvert gagn hefir af þessum sendiherra hlotist fjárhagslega. Árið 1921 var hann sendur til Osló til þess að semja um tunnutollinn. Árangurinn af því varð sá, að Ísland græddi 50–100 þús. kr., en svo að við förum meðalveg, þá skulum við segja, að það hafi ekki grætt nema 75 þús. kr. Árið 1921 fór sendiherrann líka til Lundúna, til þess að taka þar lán; þetta var þungt og erfitt í vöfum, en hefði verið notið þeirrar aðstöðu, er landið átti, og sendiherrann hefði verið sendur til Lundúna 2 dögum fyr, þá hefði landinu getað sparast ein miljón króna í gengismun. Og hefði hann nú sjálfur tekið lánið í stað milligöngu dansks manns, þá hefðu sparast margar miljónir. — Þetta hafa fjármálamenn í Lundúnum viðurkent.

Árið 1922 sendu íslendingar þennan sendiherra sinn suður til Madrid, og varð sú ferð til þess að spara hjer aukaþing, og auk þess varð árangurinn sá, að Spánverjar geymdu það að setja toll á saltfisk. Hvað á þessu hefir græðst, verður ekki með tölum talið. Sumir kunna að segja, að þetta hafi ekki verið íslenska sendiherranum að þakka einvörðungu, en líti menn þá á hitt, að meðan danski sendiherrann í Madrid var einn, var engu hægt um að þoka, enda var það ekki von, þar sem hann var öllum málavöxtum ókunnugur, nema af afspurn.

Það var hinum íslenska sendiherra að þakka, að málið komst í gott horf; því þótt þarna væri danskur maður að semja fyrir oss, kom hann eigi miklu til leiðar, ekki af því, að hann hefði eigi vilja til að vinna oss fult gagn, heldur af því, að hann gat það alls ekki, er hann brast kunnugleika á högum vorum og þörfum. En þegar hinn íslenski sendiherra kom til, fjekst fresturinn, og það, að tollurinn kom ekki á því ári, má reikna sem alt að 7 miljón króna gróða fyrir oss. Síðan var hann sendur á alþjóðafund í Genúa, og varð sú ferð talsvert ódýrari fyrir það, að hún var hafin frá Kaupmannahöfn en ekki frá Íslandi. Þá var hann enn sendur til Oslóar 1922, 1923 og 1924 viðvíkjandi kjöttollsmálinu, og eru þeir samningar, sem þá tókust, honum að þakka. Að vísu voru sendir einhverjir menn hjeðan, en þeir komu engu til leiðar og gerðu því ekki gagn. Sendiherrann okkar rjeð þessu máli til lykta, og enginn annar. Jeg hefi sjeð í „Tímanum“, að hagur ísl. bænda af þessum samningum hafi orðið um 700 þús. kr., aðrir telja hagnaðinn 600 þús. kr., ef varlega er reiknað, og er þetta árlegur gróði á kjöttollssamningunum. Þetta gelst að vísu ekki í ríkissjóð, en jeg tel hann góðu bættan fyrir þær 40–50 þús. kr., sem sendiherrann kostar, ef landsmenn græða þannig á því, að embættið var stofnað. Það eru góðir vextir af 40 þús. kr. á ári. Þetta er fjárhagshlið þessa máls, en það er ólíklegt, að nokkurn tíma komi það ár, að sendiherrann geti ekki gert þjóðinni tvöfalt, ferfalt, tífalt eða margfalt gagn við það, sem til hans er kostað, þó ekki væri með öðru en því að fara sendiferðir fyrir oss frá Kaupmannahöfn, svo eigi þurfi að senda menn hjeðan. Þar að auki má hann verða bönkum, ríkisstjórninni og einstökum mönnum að miklu gagni með búsetu sinni í Kaupmannahöfn. Reyndar má segja, að þeirri hlið málanna, sem lýtur að erindrekstri í Kaupmannahöfn, sje borgið með því fyrirkomulagi, sem nú er. En það er aukaatriði. Hins þarf vissulega með, að þar sje reglulegur íslenskur sendiherra, því að málalokin eru oft undir því komin, hver maðurinn er. Það fer eftir áliti og stöðu sendimanns vors, við hvern hann nær að semja. Það er eigi hverjum manni sem er leyft að vaða inn til erlendra sendiherra, ráðherra eða annara stjórnarvalda. Það er undir því komið, hver sendimaðurinn er, við hvern hann fær að tala! Óvaldir menn verða oftast að láta sjer lynda að ná tali af skrifstofustjórum eða öðrum mönnum lægra settum, sem minni völd hafa, og því enn minna mark takandi á þeim. Jeg hefi stundum sagt, að slíkir erindrekar fengju ekki tal af öðrum en dyravörðum, og færu málalokin auðvitað eftir því. Þetta þykir máske fullhart að orði kveðið, en þó er það að mestu leyti satt. En sendiherra, sem verið hefir búsettur þarna um nokkur ár, hann er orðinn kunnur öðrum sendiherrum, sem þar eru, og getur ávalt fengið meðmæli þeirra og aðstoð, ef hann æskir þess; hann er auk þess viðurkendur sem „diplomat“, og standa honum því allir vegir opnir. Hann hefir hundrað sinnum betri aðstöðu en menn, sem sendir eru aðvífandi. Þar að auki er hann maður, sem hefir gefið sig við þessum hlutum um langan tíma, og hefir því tamið sjer margt, sem nauðsynlegt er þeim, er verða að umgangast erlenda „diplomata“, Hann hefir tamið sjer varúð í tali, án þess að sýna þó neina undirhyggju; er orðinn leikinn í þeirri list að fara hvergi of langt nje of skamt. Sendiherra er því eigi sambærilegur við alóvana menn, sem koma aðvífandi „eins og spörr í trönudans“, og þekkja því ekki til, hvernig þeir eiga að haga sjer, til þess að koma málum sínum fram, en geta þó þar fyrir verið fullgóðir menn, ef þeir aðeins væru vanir þessu. Þetta er aðalástæðan fyrir því, að það þarf að hafa sendiherra, — að maðurinn sje og heiti sendiherra; ella verða hans eigi full not.

Þá er annað, sem jeg hefi ekki ennþá drepið á, sem sje að með því að hafa engan sendiherra erlendis staðfestist það álit, sem enn er algengt, að Ísland sje alls eigi sjálfstætt ríki, úr því það fer ekki sjálft með utanríkismál sín. Þetta gerir alla samninga við erlend ríki erfiðari og er oss mikill álitshnekkir. Þess er heldur eigi að vænta, að erlend ríki sendi hingað „diplomatiska“ sendimenn, ef vjer sjálfir höfum enga sent utan, og er það eitt allmikill álitshnekkir hinu unga, íslenska ríki. Það er mikið undir því komið, að erlendar þjóðir viti, fyrst og fremst að vjer sjeum til, og í öðru lagi að vjer sjeum sjálfstætt og fullvalda ríki. Jeg sá nýlega í dönsku blaði talað um „Danmarks nordlige Bilande“, og var Ísland þar með talið í þeirri þvögu, og var þar sýnilegt, að menn vissu eigi, að þessi gamla hlekkjafesti, Ísland, Færeyjar og Grænland, hafði þó slitnað á einum stað.

Það skal enginn ætla, að jeg mæli þetta af orðsýki, vilji aðeins fá einhvern „tildurherra“, eins og „Tíminn“ orðar það; en það er eigi. Nei, jeg lít aðeins á hagnaðinn, peningana, sem stofnun þessa embættis beinlínis gefur af sjer. Þótt jeg telji sóma lands vors allmikils virði, ræði jeg ekki um þann hlut að sinni nje fer út í að meta hann til fjár. En jeg ætla aðeins að tala um peninga, enda eru þeir mörgum mönnum kærastir allra hluta, — að það eru miklir peningar græddir, að það er stórgróðafyrirtæki að hafa sendiherra erlendis.

Jeg vona, að jeg hafi engan mann sært með þessari ræðu minni, enda hefi jeg á engan mann ráðist. Jeg tel það mikið happ fyrir land okkar og þjóð, ef þetta þing bæri gæfu til að endurreisa sendiherraembættið og halda því við framvegis. Jeg hygg, að jeg þurfi eigi að hvetja neinn þeirra, er skipa þennan litla sex manna flokk hjer á þingi, sem jeg tilheyri, en hjer eru tveir aðrir stórir þingflokkar, sem nú fá þetta viðfangsefni. Jeg hefi oft áður sagt í gamni, sem jeg nú segi í fullri alvöru, að hjer er mál fyrir þá að keppa um. Þetta er stórt mál og alvarlegt, — mál, sem er og verður lífgjafi hvers þess flokks, er það ber fram. Þetta er framtíðarmál, sem veldur þeim þungri ábyrgð, er á móti því snúast. Jeg vænti því, að nú verði kapphlaup milli þessara stóru og sterku flokka um það að hafa fyrstir sjeð þörfina á þessu máli og að koma því í framkvæmd, sem er eitt hið mesta nauðsynjamál. Fyrir sjálfstæðismönnum þingsins, sem eru nú 24 eða 25, þarf ekki að ræða þetta mál frekar. Atkvæði þeirra hafa hingað til ætíð skilað sjer í öllum sjálfstæðismálum, hvar sem þeir hafa verið í flokki. Og jeg býst yfir höfuð ekki við neinum verulegum mótmælum gegn þeirri fjárveitingu, sem jeg fer fram á, að veitt verði í þessu skyni.