25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

13. mál, smjörlíki

Hákon Kristófersson:

Það má vel vera, að einhverjum komi það undarlega fyrir, að jeg skuli ekki hafa getað fylgt háttv. meiri hl. nefndarinnar að málum. Skal það og játað, að jeg hafði lítilla upplýsinga aflað mjer viðvíkjandi þessu máli, þá er það lá hjer fyrir í hið fyrra sinnið, en síðan hefi jeg snúið mjer til Trausta Ólafssonar efnafræðings, er mun manna bærastur til að dæma um þessi efni, og hefir hann tjáð mjer, að slíkt muni hvergi tíðkast, að rjómabú hafi jöfnum höndum smjör- og smjörlíkisgerð, og telur hann málið mjög varhugavert. Og því hefi jeg nú snúist á móti frv., að jeg tel ekki ósennilegt, að þessi undanþága, ef hún gengi fram, verði til þess að koma óorði á íslenskt smjör, sem hefir sannarlega ekki of gott álit fyrir, þó fremur væri hlynt að því heldur en hitt.

Það hefir verið talið, að þetta væri nauðsynlegt vegna lánsins, sem búinu hefir verið veitt. Jeg held nú, að það sje ekki einsdæmi, að einstaklingar eða fjelög ráðist í fyrirtæki, sem seinna verður þeim til óhagræðis. Og jeg gæti frekar fallist á, að búinu yrði gefið eitthvað eftir af láninu heldur en lagt yrði inn á þessa braut.

Jeg er sammála hv. þm. Str. (TrÞ) í því, að rjett hefði verið að bera mál þetta undir Búnaðarfjelagið. Og þegar það var afgreitt seinast í landbn., þá var formaðurinn þar staddur og taldi mjög varhugavert af nefndinni að fara þessu fram. Jeg lái raunar ekki hv. meðnefndarmönnum mínum, en það tek jeg undir með hv. þm. Str., að ósannað muni vera, hvort ekki sje notadrýgra að taka upp ostagerð heldur en smjörlíkisgerð, ef um það er að ræða að afla búinu tekna. Það er heldur ekki af því, að jeg vilji gera þeim, sem að búinu standa, illar getgátur, þótt jeg segi, að oft hafi það borið við, að ófyrirleitnir menn hafa blandað vörutegundir með öðrum verðminni efnum til að græða á því. Og þó að þeir menn, sem nú eru mestu ráðandi hinu svo nefnda Áslækjarbúi, sjeu vafalaust vandaðir menn og lausir við slíkt, þá er ekki hægt að segja, að svo verði altaf. Það er langt þangað til lánið verður að fullu endurgreitt, en á meðan hefir búið rjettinn til smjörlíkisgerðar. Og það er víst ekki langt síðan það notaði vjelarnar í heimildarleysi. Mjer finst því allra hluta vegna heppilegast að fella þetta frv. nú, en vildi þá gjarnan, ef slíkt þætti sanngjarnt, veita búinu fjárhagslega aðstoð á annan hátt í staðinn.

Það má vel vera, að svo reynist, að jeg hafi rangt fyrir mjer. En jeg vil engan hlut eiga í samþykt þessara laga, og get vel unnað þeim mönnum, sem berjast fyrir þessu máli, sómans af framgangi þess.