26.03.1925
Neðri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

1. mál, fjárlög 1926

Sigurjón Jónsson:

Áður en jeg kem að brtt., sem jeg flyt á þskj. 235, ætla jeg með nokkrum orðum að minnast á eina brtt. frá hv. fjvn. á þskj. 195. Brtt. þessi er 26. till. og er nýr liður: Til þess að reisa nýja vita 50000 kr.

Hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) fylgdi þessari brtt. úr hlaði með nokkrum orðum og tilfærði orð vitamálastjóra um það, að kapp væri lagt á að fá nýjan landtökuvita bygðan á suðurströnd landsins, Dyrhólaey. Er jeg vitamálastjóra samþykkur um það, að full nauðsyn sje á því að byggja sem fyrst góðan og fullkominn landtökuvita á þessum stað, en hinsvegar álít jeg fiskiflota vorum enn brýnni nauðsyn á að fá aðra smærri vita bygða fyrir þessa upphæð. Er það álit okkar í sjávarútvegsnefnd og fleiri háttv. þingmanna, að árið 1926 megi ekki svo líða, að ekki verði bygðir nokkrir smávitar, sem bráðnauðsynlegast er að fá bygða sem allra fyrst. (Atvrh. MG: Er það samhuga álit sjávarútvegsnefnda?). Jeg geri ráð fyrir, að svo sje.

Af þessum vitum, sem jeg hefi í huga, er Stafnesvitinn fyrstur. Tel jeg það vansæmandi, að það sje látið dragast lengur en til næsta árs að byggja þann vita. Slys eru þarna mjög tíð, og nú 3 síðustu árin hefir farist þarna eitt skip á ári. Síðast nú alveg nýlega fórst þarna mótorskipið Sólveig með allri áhöfn. Þar á undan mótorskipin Sigríður og Ása. Kunnugir og minnugir menn segja mjer, að þarna hafi farist ekki færri en 14 skip síðustu 11 árin. Jeg fyrir mitt leyti legg því áherslu á, að þessi viti verði bygður árið 1926.

Þá er fiskiflota vorum mjög nauðsynlegt að fá sem fyrst bygðan vita við Grundarfjörð. Grundarfjörður er eina örugga höfnin við Snæfellsnesið, og leita bátar þangað mjög, þegar þeir stunda veiðar öðruhvorumegin Snæfellsness, en þarna við nesið fara veiðar nú mjög í vöxt, og leita bátar þangað langt að. En engin leiðarljós eru þarna til þess að vísa leið inn á þessa góðu höfn, og getur þegar minst vonum varir hlotist af því stórslys. Er því mjög nauðsynlegt að fá hið allra fyrsta bygðan þarna vita. Þá vantar einnig mjög tilfinnanlega smávita á Vestmannaeyjar. Háttv. frsm. fjvn fastákvað nú heldur ekki neitt um það, hvar yrði bygt fyrir þessar 50 þús. kr., en jeg og ýmsir fleiri álítum, að þessa smærri vita megi ekki draga að byggja, og þótt byrjað yrði á landtökuvitanum fyrir þessa upphæð, þá yrði hann þó aldrei fullger fyr en einhvern tíma á árinu 1927. En í fjárlögum fyrir árið 1927 verður að veita alla upphæðina til landtökuvitans, svo að hann komist upp á því ári.

Hv. frsm. sagði, að vitarnir skulduðu enn ríkissjóði, að hann hefði ekki fengið greitt eins mikið í vitagjöldum og lagt hefir verið til vita. Tel jeg slíkt síst nokkuð varhugavert, enda eru byggingarnar sjálfar — vitarnir —, sem eru nú metnar á aðra miljón króna virði, eign ríkissjóðs. Enda ber á það að líta, að gott vitakerfi er besta öryggisráðstöfun, sem ríkið getur gert, bæði fyrir fiskiflota vorn og öll önnur skip, er sigla meðfram ströndum landsins. Er hjer um svo mörg mannslíf og mikla fjármuni að ræða, að ríkinu er það alls ekki vansalaust að taka meiri tekjur af vitakerfinu en til þess er varið, sjerstaklega meðan þessu kerfi er jafnáfátt og enn á sjer stað.

Sjómenn vorir og aðstandendur þeirra eiga fulla heimtingu á því, að þingið geri það, sem mögulegt er, til þess að tryggja líf þeirra í þessu efni, enda getur vitakerfið síðar meir orðið ríkissjóði tekjulind, þegar okkur hefir tekist að fullkomna það. Þótt jeg sje ekki ánægður með þessa upphæð, 50 þús. kr., og telji hana of lága, þá er jeg samt háttv. fjvn. þakklátur fyrir að hafa tekið upp þessa brtt.

Þá kem jeg að brtt., sem jeg á undir rómv. lið XIV á þskj. 235. Er það um uppbótargreiðslu til sjúkrahússins á Ísafirði vegna verðtollsins, alt að 3000 kr. Þetta sjúkrahús er nú upp komið, og hefir ríkissjóður þegar lagt til þeirrar byggingar 50 þús. kr., en 25 þús. kr. eru áætlaðar í þessu frv. til greiðslu næsta ár. Gegn þessum fjárframlögum ríkissjóðs hefir Ísafjarðarkaupstaður þegar lagt fram minst 150 þús. kr., og er mjer óhætt að fullyrða, að sjúkrahús þetta er í alla staði mjög vandað. Var mikil þörf á að fá þetta sjúkrahús bygt, enda kemur það nú að tilætluðum góðum notum.

Allar áætlanir um þessa byggingu voru gerðar áður en 20% verðtollurinn, sem samþyktur var á síðasta þingi, gekk í gildi. En vegna þessa verðtolls hefir þessi bygging orðið 2–3 þús. kr. dýrari en ella. Er það ýmiskonar útbúnaður við sjúkrahúsið, sem verðtollurinn hefir lagst á. Hve miklu þessi hækkun nemur nákvæmlega, veit jeg ekki, en geri ráð fyrir, að það geti orðið alt að 3000 kr. Það eru nú tilmæli mín til hv. þm., að þessa upphæð megi endurgreiða úr ríkissjóði, þó aldrei hærri upphæð en hjer er tilgreind, og þá upphæð eina, sem sannað verður, að stafi af þessum greinda verðtolli. Sjúkrahúsið hefir ekki í öllum tilfellum greitt verðtollinn sjálft, heldur stundum þeir, er selt hafa til byggingarinnar munina eða efnið, er verðtollurinn hefir lagst á, en þeim verið það endurgreitt af byggingarkostnaðinum. En yfir þetta á sem sagt að sýna reikninga og aldrei á þetta að fara fram úr 3000 kr.

Að hjer sje um sanngirniskröfu að ræða, vona jeg að geta sýnt fram á í fám orðum. Ætlun þingsins með verðtollinum var frá upphafi sú, að ríkissjóður fengi þessar tekjur af miður nauðsynlegum vörum, eða með öðrum orðum, að tollurinn legðist ekki á nauðsynjavörur. Nægir um það að benda á orð hv. frsm. fjhn. í því máli. Hefi jeg þau ummæli hjer fyrir framan mig í þingtíðindunum frá síðasta þingi. Er þar skýrt að orði komist um það, að verðtollinum sje ekki ætlað að leggjast á nauðsynjavörur. Í sama streng tekur svo hæstv. fjrh., þar sem hann segir hjer einnig, að verðtollurinn eigi ekki að lenda á öðrum en miður þörfum vörum. Allir aðrir, sem um þetta mál tala, eru hjer sömu skoðunar, svo að vilji þingsins er skýr í þessu máli. Verðtollurinn átti ekki að leggjast á nauðsynjavöru. En er þá hjer um nauðsynjavörur að ræða? Til þess að sanna það, ætti að vera nægilegt að nefna, að munirnir eða efnið, sem um er að ræða, fer til þess að útbúa vandað sjúkrahús, sem ríkissjóður og fátækt bæjarfjelag eru í sameiningu að koma upp. Og að hjer sje um reglulega nauðsynjavöru að ræða, sýna best þau miklu gjöld, sem þetta fátæka bæjarfjelag hefir á sig lagt til þess að hrinda í framkvæmd þessu mikla nauðsynjamáli, sjúkrahúsbyggingunni. Um þessi tvö atriði verður ekki deilt. Þingið ætlaðist ekki til þess, að verðtollurinn legðist á nauðsynjavörur, en hjer hefir verið tekinn verðtollur af nauðsynjavöru, sem fátækt bæjarfjelag kaupir til opinberrar byggingar, sjúkrahúss. Fjölyrði jeg ekki frekar um þessa brtt., en treysti svo rjettsýni háttv. þm., að þeir sjái rjettmæti þessarar tillögu.