25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

13. mál, smjörlíki

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Jeg vildi svara þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. Str. (TrÞ) bar fram um það, hvort frv. hefði verið borið undir stjórn Búnaðarfjelagsins. Það hefir ekki verið gert. Þó ósannar þetta ekki það, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði, að nefndinni hafi verið kunnugt um persónulegt álit búnaðarmálastjóra. Jeg verð að segja það, að ef Búnaðarfjelag Íslands hefði haft sjerstakan áhuga fyrir þessu máli, þá var stjórn fjelagsins jafnauðvelt að koma til landbn. eins og henni að bjóða því að fyrra bragði að athuga frv. Og því frekar hefði stjórn Búnaðarfjelagsins átt hægt með að bera þessa ósk fram, þar sem einn úr stjórn fjelagsins er þingmaður, og hefir því gott tækifæri til að vita, hvað málum líður í þinginu. Annars er þetta mál ekki svo flókið, að landbn. þættist ekki einfær að ráða áliti sínu um það.

Hv. þm. Str. var að tala um, hvort það væri nokkuð æskilegra fyrir þetta fjelag að reka þarna smjörlíkisgerð heldur en ostagerð. Má vel vera, og það væri betur að svo væri, segi jeg. En það snertir í raun og veru ekkert þetta mál, því að frv. hamlar ekki því, að búið snúi iðju sinni svo sem því sýnist um það að leggja stund á ostagerð í staðinn fyrir smjörlíkisgerð, og ef ostagerð væri ábatavænlegri, þá er því búi opin sú leið sem öðrum smjörbúum.

Þá ætla jeg með fáum orðum að víkja að því, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði, þótt þess sje naumast þörf, því að hann mun hafa borið fram þær ástæður, sem helst þykja mæla á móti þessu frv., en þeim hefir nokkuð verið hnekt hjer áður af öðrum. Jeg vil þá aðeins benda á það, sem jeg hefi sagt hjer áður, að búið sjálft á mest á hættu, ef það misnotar þetta leyfi. Hvert smjörbú hefir sitt sjermerki, og ef það kemur í ljós, að smjör frá þessu búi er verra en frá öðrum, þá gengur það algerlega út yfir sölu þess sjálfs. Í öðru lagi vil jeg benda á, að þetta eru aðeins heimildarlög, sem hægt er að nota eða láta ónotuð, ef ástæða þykir til, og stjórnin getur, hvenær sem hún vill, tekið í taumana; og í þriðja lagi álít jeg mjög litla tryggingu í því einu, að ekki megi reka smjörgerð og smjörlíkisgerð saman í búinu, eins og það væri eini möguleikinn til þess að geta falsað vöruna. Það væri líklega ekki afartorvelt að fá smjörlíkið að fyrir þann, sem vildi blanda smjör með því. Jeg hefi þess vegna litla trú á þessu atriði sem nokkurs nýtu tryggingarákvæði, og þótt það sje tíðkað í öðrum löndum að banna þetta, þá mun það þó ekki undantekningarlaust, eins og hv. þm. Barð. (HK) benti líka á, og það sannar ekki meira en það, að menn hafa talið það æskilegast að hafa það svo, enda sennilega engum árekstri valdið — eins og hjer — að skipa svo til.

Þar sem hv. þm. Barð. sagði, að sjer væri kunnugt um, að búið hefði til þessa óleyfilega notað áhöld sameiginlega fyrir smjör og smjörlíki, þá kemur það ekki við nefndinni að athuga það, heldur hæstv. stjórn. Jeg vil þá út af því benda á, að það gæti verið ástæða til fyrir stjórnina, af því að þetta er eina smjörlíkisgerðin, sem starfar í sveit, að láta athuga, hvort hún starfar ekki að öllu leyti eftir fyrirmælum laga, sem henni hafa verið sett.