25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

13. mál, smjörlíki

Jörundur Brynjólfsson:

Það er leiðinlegt, hvað það virðist ætla að ganga illa að sannfæra háttv. þm. Barð. (HK) um það, að þótt einhver galli kæmi í ljós á smjöri frá þessu búi, þá ætti það ekki að ná til alls landsins, heldur aðeins til þess bús, sem sendingin er frá. En það lítur helst út fyrir, að hv. þm. (HK) viti ekki, hvað gerist í viðskiftum hjer nje erlendis. Þau firmu, sem fá sendingar hjeðan, snúa sjer til þeirra, sem selja þeim hjer heima, og færa þeim sitt lof og last. Og geta má nærri, hvort þeim mönnum, sem að þessu búi standa, er fremur öðrum svo ósýnt um hag sinn, að þeir reyni ekki að vanda smjörgerð sína sem best þeir geta. Þetta er því algerlega óþarfur ótti hjá hv. þm. (HK), því að ekki síst vegna þess, að þeir hafa smjör- og smjörlíkisgerð saman, munu þeir gæta allrar varúðar. Reyndar eru farnar að berast sögur um búið inn í þingið, um að það misnoti þau tæki, sem, það hefir, en með því að þessar sögur eru eftir ónefndum mönnum, eru þær ekki að nokkru hafandi. Annars vildi jeg taka hjer inn í eina athugasemd til hv. þm. Str. (TrÞ), því að það er svo lítið, sem jeg hefi að svara honum. Jeg skil ekkert í þeim ástæðum hv. þm. (TrÞ), sem hjer hafa fram komið, að nauðsynlegt sje að leita nú álits Búnaðarfjelagsins, einkum þegar þess er gætt, að það er fyrirfram vitað, hvert álit þess er á þessu máli. Jeg vona, að það gangi fram, hvert sem álit þess annars kann að verða. Og einkum á jeg bágt með að skilja þessa ástæðu hv. þm. (TrÞ), þar sem mjer virðist hann í sjálfu sjer vera frv. fylgjandi. Ennfremur er það upplýst, að annar maður úr stjórn Búnaðarfjelagsins er frv. meðmæltur. Hvað er þá unnið við að senda Búnaðarfjelaginu frv. til umsagnar? Að vísu mun búnaðarmálastjóri vera ragur við að veita þessa undanþágu. (HK: Hann er eindregið á móti því). Gott og vel! Látum hann vera ákveðinn á móti frv. Það er samt sem áður engin ástæða til að fá mótmæli hans á annan hátt en þau eru þegar fram komin. Jeg tek hv. þm. Barð. (HK) fullkomlega trúanlegan í þessu efni og get alveg látið mjer nægja, að hann hefir nú skýrt frá afstöðu búnaðarmálastjóra til málsins. Hinsvegar þykist jeg vita, að andstaða hans gegn frv. sje bygð á svipuðum rökum og þegar eru fram komin í hv. Ed. og hjá hv. þm. Barð. (HK), og þau rök rjettlæta ekki einu sinni, að málið verði nú tekið af dagskrá, hvað þá heldur meira.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði, að smjörlíkisframleiðsla þessa rjómabús myndi aukast með tímanum, þá er þess að gæta, að það er útilokað fyrir þá sök, að tækin eru svo smávaxin. Það eru engar líkur til þess, að búið geti framleitt meira smjörlíki en til notkunar innansveitar og í hæsta lagi miðlað einni eða tveim næstu sveitum örlitlu í viðlögum.

Þá drap hv. þm. (HK) á það, að merkur maður hafi sagt honum, að smjörlíki væri blandað saman við smjör þar eystra. Jeg held að þetta sje ekki svo saknæmt á þann hátt sem það er gert, sem sje eingöngu til þess þannig að drýgja íslenska smjörið til heimilisnotkunar. Því jeg þykist vita, að hv. þm. vilji ekki væna bændurna þess, að þeir blandi smjörið, sem þeir selja, á þennan hátt. (HK: Jeg tók það fram, að þeir notuðu smjörið, sem þeir blanda, heima). Það kemur bændunum einum við, hvernig smjör þeir nota heima fyrir, og fæ jeg engan veginn sjeð, hvað þetta getur snert hjúahald þeirra yfirleitt, eins og háttv. þm. var að tala um.

Það ætti þó ekki að vera lakara að nota smjör og smjörlíki samblandað heldur en óblandað smjörlíki, eins og dönsku bændurnir gera að mestu leyti. Danir, sem eru einhver mesta landbúnaðarþjóð, sem sögur fara af, flytja smjörið úr landi, sökum verðmætis þess, en bændurnir nota aftur á móti mjög mikið smjörlíki heima fyrir. Jeg get ekki betur sjeð en að okkur sje alveg óhætt að taka Dani til fyrirmyndar í mörgu því, er að búskap lýtur. Ef við værum svo efnum búnir, að við gætum látið það eftir okkur að nota eingöngu íslenskt smjör, þá væri það mjög ánægjulegt, bæði fyrir húsbændur og hjú. En því miður, efnahagur bænda leyfir ekki annað en að þeir gæti allrar ráðdeildar og hagsýni í búskap sínum. Mjer sýnist það koma úr hörðustu átt, að fulltrúi bændakjördæmis, sem sjálfur er og bóndi, skuli telja viðeigandi að hnýta í bændur fyrir þetta.

Hv. þm. (HK) lauk ræðu sinni með því að slá því föstu, að alt íslenskt smjör hlyti að gjalda þess á erlendum markaði, ef í ljós kæmi, að þetta eina rjómabú misnotaði heimild sína til að framleiða smjörlíki. Þetta eru auðvitað ekkert annað en getgátur, sem reynslan mun ósanna á sínum tíma.