03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

13. mál, smjörlíki

Pjetur Þórðarson:

Þessi hindrun á vegi frv. hefir komið fram í því formi, að slík ákvæði sem þessi væru hættuleg smjörframleiðslunni og sölu afurðanna á erlendum markaði. Þessi hætta á að vera fólgin í því, að smjörið geti verið svikið, þegar svo stendur á, að það er framleitt í sömu húsum og smjörlíki er framleitt í. En þessi hætta er áreiðanlega lítils virði, og ekki nærri þess virði, sem sjálfsagt er að greiða þessu smjörbúi, ef frv. verður ekki samþykt. Það er engin hætta á, að slík verksmiðja fari að taka upp á því að svíkja smjör. Hv. þm. Barð. (HK) sagði um þessa ímynduðu hættu, að ef smjörið flyttist gallað til Englands, þá yrði — að því er mjer skildist — slegið upp auglýsingu um, að rjettast mundi að kaupa ekki smjör oftar frá Íslandi. Þetta er fjarstæða. Þeir, sem taka við því þar, hafa líka sinna hagsmuna að gæta í þessu efni og eru ekki svo grannvitrir að fara að auglýsa það, þó það kæmi fyrir, að smjörið væri gallað. Jeg veit þess dæmi, að komið hefir fyrir, að ull, kjöt, gærur og fleiri vörutegundir hafa að einhverju leyti reynst skemdar, en það hefir ekki haft þær afleiðingar í för með sjer, sem hv. þm. Barð. (HK) er svo hræddur um. Frá þessu sjónarmiði eru því framkomnar mótbárur lítils virði. Þegar tveir háttv. þm. vilja nú leggja sig svo langt til að leita að mótbárum eða ímynduðu tjóni, geri jeg ráð fyrir, að þeir fari eftir áliti sjerfræðinga í þessu efni. Þetta álit sjerfræðinga hjer í Reykjavík er nefndinni löngu kunnugt. Það var kunnugt, þegar þessi lög voru til meðferðar í þinginu á sínum tíma. Hinsvegar gæti þessi útlistun á hættunni aðeins átt við þar, sem mikið er fjölmenni, en síst hjer, þar sem framleiðsla er rekin af fáum mönnum uppi til sveita. Öðru máli væri að gegna, ef í hlut ættu menn, sem gætu notað vísindalega þekkingu sína til að svíkja. En að ætla íslenskum bændum það, nær engri átt. Nei, það er dálítið annað á ferðum. Jeg held, að þessi hindrun nú á síðustu stundu stafi af öðru. Og jeg get varla hugsað mjer, að það hafi farið fram hjá nokkrum hv. þdm., að mennirnir, sem hjer reka smjörlíkisgerð, eru hræddir við, að þessi litli atvinnurekstur bænda sje hindrun fyrir framleiðslu þeirra. Mjer finst menn geta verið fljótir að átta sig á, að þetta er fólgið í smávægilega ímynduðum hagsmunamissi fyrir fáeina atvinnurekendur hjer í Reykjavík. En þrátt fyrir þetta þarf framleiðsla bænda ekki að vera í hættu stödd. íslenskir bændur eru of ráðvandir og hagsýnir til þess að svíkja sjálfa sig á að senda út skemdar vörur. Mig furðar á því, að stjórn Búnaðarfjelags Íslands skuli geta fengið sig til að leggja á móti þessu, sem aðeins er hagnaður fyrir örfáa bændur í sveit, en engum til miska. Jeg vona, að ekki verði miklar umr. um þetta mál og menn verði fljótir að átta sig á, að ekki er vert að eyða miklum tíma til þess.