03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

13. mál, smjörlíki

Hákon Kristófersson:

Það var rjett hjá hv. frsm. (HStef), er hann sagði, að jeg hefði upprunalega verið með þessu máli, og mjer þykir engin skömm að játa, að jeg hafði þá ekki nægilega þekkingu á málinu, og fór því eftir áliti manna, sem jeg vissi, að höfðu betra vit á þessu en jeg. Þess vegna frábið jeg mjer ummæli hv. frsm. Það er betra að geta farið að hygginna manna ráðum en að vera sá stirðbusi að halda því fram, að sín skoðun sje sú eina rjetta, og vilja engu öðru sinna. (HStef: Hver hefir sagt það?). Hann sjálfur. Jeg hefi aldrei haldið því fram, að mín skoðun væri sú eina rjetta, en jeg lít þannig á, að Alþingi megi ekki gera neitt í þessu máli. Jeg hefi átt tal um þetta við mjer færari menn, og nú vill svo einkennilega til, að Búnaðarfjelag Íslands virðist vera mjer alveg sammála, og þess vegna vil jeg segja, að þetta eru órökstudd brigslyrði frá háttv. þm. Mýra. (PÞ), sem jeg ekki bjóst við úr þeirri átt, því að hv. þm. (PÞ) hefir mjög forðast að bera slíkt fram hingað til. Jeg verð að segja það, að það er ekki rjett hjá hv. þm. (PÞ), að jeg væri að benda neitt til þess að slá upp auglýsingu, hvorki í Englandi nje annarsstaðar, svo að þetta er ekki annað en útúrsnúningur. Sami hv. þm. (PÞ) sagði, — það hefir átt að vera dularklædd aðdróttun, en dulan fór af henni —, að það væru smjörlíkisgerðarmenn í Reykjavík, sem hefðu haft þau áhrif á mig, að jeg snerist í þessu máli. Það er hægt að slá svona nokkru fram, en það vantar rökin fyrir því, og það er verst þegar það eru menn, sem þektir eru að því að vera vandaðir bæði til orða og verka, eins og hv. þm. Mýra. (PÞ), og vil jeg því vísa slíkri sendingu heim aftur, því að jeg hefi ekki stungið svona til hv. þm. (PÞ), og því er engin ástæða til að beina slíku til mín. Jeg vil algerlega mótmæla því, að jeg hafi gengið götur þeirra manna hjer í Reykjavík, sem kunna að hafa hagsmuni af því, að þessi smjörlíkisgerð fái ekki að starfa, og hafi lagst á móti rjettu máli bygðarlaga þessa lands. En jeg ímynda mjer, að jeg geti fært til betri vegar það, sem fyrir háttv. þm. Mýra. (PÞ) vakir, en eins og jeg hefi þegar tekið fram, þá hefi jeg aldrei slegið neinu föstu um, að þetta væri, heldur aðeins sagt, að það gæti átt sjer stað, og það veit hv. þm. (PÞ), að það hefir mjög svo oft komið fyrir, að ýms óráðvendni hefir átt sjer stað í þeim tilfellum, þegar vörur eru seldar, og þarf ekki annað en að minna hv. þm. (PÞ) á, að það hefir stundum verið send hingað kæfa ofan úr sveitum, sem hefir verið mjög svo óhæf til neyslu, svo að það er ekki að beina neinni aðdróttun að mönnum, þótt bent sje á, að þetta geti átt sjer stað.

Þá vildi jeg segja nokkur orð viðvíkjandi því, sem hv. frsm. (HStef) sagði, að þær ástæður, sem hefðu komið frá mjer og Búnaðarfjelagi Íslands, hefðu verið margthraktar. En þær sannanir, sem menn hafa komið með, eru ekki aðrar en þær, að þeir segjast vona, að þetta komi ekki fyrir, en sönnunargögn getur hv. þm. (HStef) ekki lagt á borðið frekar en jeg, um að þetta komi ekki fyrir. Annars býst jeg við, að sönnunargögn mín sjeu svo sterk, að hv. deild geti fallist á þau. En jeg vildi aðeins segja mína meiningu um málið, og vonast jeg til að hafa sett hana svoleiðis fram, að engir hv. þm. þurfi að leggjast djúpt til þess að leita að brigslyrðum til mín fyrir það.