03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

13. mál, smjörlíki

Pjetur Þórðarson:

Það er ekki mikið, sem jeg ætlaði að segja, jeg ætlaði aðeins að geta þess, viðvíkjandi skeyti frá mjer, sem kallað var dularklædd aðdróttun, að jeg stefndi því ekki eingöngu að hv. þm. Barð. (HK), heldur átti hv. þm. Str. (TrÞ) alveg eins mikið af því, en jeg skal játa það, að mjer hafi ef til vill tekist þetta svo ófimlega, að það hafi kannske eingöngu hitt háttv. þm. Barð. (HK), í stað þess að það átti að hitta tvo í senn. Annars er um þetta að segja, sem hv. þm. Str. (TrÞ) lagði svo mikla áherslu á og taldi vera nýjar upplýsingar, að hjer er ekki um neitt nýtt að ræða, ekki um neitt annað en það, sem nefndinni var fullkunnugt um. Jeg hefi álitið, að þetta frv. væri svo einfalt og að hættan, sem af því stafaði, gæti á engan hátt kostað ríkið 5000 kr. nje 2500 kr. Hún er svo lítilfjörleg, að hún má heita sama sem engin. Annars ætla jeg ekki að biðja neinn afsökunar á því, sem jeg sagði. Jeg gæti reyndar beðið afsökunar, ef það hefði verið ógætilega sagt, en á meiningunni ætla jeg ekki að biðja neinnar afsökunar, en get þakkað hv. þm. Str. fyrir það, að hann viðurkendi það rjett vera, sem aðallega var fólgið í þessari svokölluðu ásökun frá minni hálfu.