03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

13. mál, smjörlíki

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það eru aðeins fáein orð til hv. þm. Str. (TrÞ). Jeg get ekki fundið, að þetta mál heyri undir Búnaðarfjelag Íslands í eins ríkum mæli og hann segir. Mjer skilst aðeins, að hjer sje um það að ræða að leiðrjetta það misrjetti, sem þessir menn hafa orðið fyrir, og ekkert annað. Hv. þm. Str. stóð á móti því í fyrra að veita þessa eftirgjöf, eins og jeg, og enginn efast um það, að þessir hlutir sjeu einhvers virði, þegar þeir eru keyptir fyrir fáum árum á 5000 kr., og sömuleiðis, að þessa hluti verði hægt að selja fyrir eitthvað. Sömuleiðis vissum við í fyrra, að þessi tæki átti að nota bæði við smjör- og smjörlíkisgerð. Það eru því engar nýjar upplýsingar, að þau sjeu notuð til smjörgerðar. En það er annað, sem er spilt hjá þessum mönnum, og það er það, að það var búið að leyfa þeim að hafa þetta tvent saman, og ef það leyfi er tekið af þeim, þá er það skaði, sem þeim er gerður að nauðsynjalausu. Það er því ekki um neinn nýjan grundvöll að ræða, og það er alveg rjett, sem hv. þm. Mýra. (PÞ) sagði, að það er enginn nýr grundvöllur kominn fram í málinu. Eftir stjfrv. því, sem hjer liggur fyrir, er það ekki meiningin að láta smjör- og smjörlíkisgerð vera saman eftirleiðis, heldur er ætlast til, að það sje leyft þarna, af því að búið hafði fengið þetta leyfi áður en lögin komu, og það er venjan, þegar ný atvinnulöggjöf er sett, að leyfa þá atvinnu áfram, sem hafin er áður en hin nýju lög eru sett.

Það særði hv. þm. Str. (TrÞ), að jeg benti á það, hve óheppilega þessir menn voru valdir, sem Búnaðarfjelagið leitaði ráða hjá. En jeg held fast við það, sem jeg sagði, að þessi kona, sem var ráðunautur fjelagsins, fæst við smjörlíkisgerð hjer í bæ. Jeg veit að vísu ekki, hvort hún er núna ráðunautur fjelagsins, en jeg skal ekki rengja, að svo sje, fyrst hv. þm. Str. segir það. En það er ekki heppilegt, að sú kona sje ráðunautur fyrir smjörbúin. Jeg hefði getað viðurkent, að það væri eitthvað rjettmætt í því, ef stjórn Búnaðarfjelagsins hefði snúið sjer til þeirra manna, sem hafa á hendi smjörsölu til útlanda, farið til þeirra og spurt þá; en annars er hægur vandi að setja það skilyrði fyrir því, að smjörið sje flutt út, að það verði rannsakað hjer í Reykjavík. En jeg skal taka það fram, að það er engin þörf á slíkri varúðarráðstöfun, því að mjer dettur ekki í hug að halda, að bændur þar eystra fari að svíkja smjör sitt, og ef smjörið þaðan er jafngott og annarsstaðar frá, þá er alls ekkert við þessu að segja, og þingið hefir þá aðeins uppfylt rjettlætiskröfu, sem þessir menn áttu á það.