17.02.1925
Efri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

28. mál, skráning skipa

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það skal fúslega játað, að fyrstu árin hefir skráning skipa verið í nokkru ólagi, og ber að leita að ástæðunum fyrir því bæði hjá lögreglustjórum úti um land og hjá yfirstjórn þessara mála — hjá fjármálaráðuneytinu. En jeg held, að jeg megi fullyrða, að aðalvandkvæðin, sem á þessu hafa orðið, sjeu hjá lögreglustjórunum. Það er aðallega eitt atriði, sem hefir valdið vandkvæðum í þessu máli, og það er mælingar skipanna. Ráðuneytið hefir haft til þessa sjerfróðan mann, utan stjórnarráðsins, og hefir lengi notið við hans aðstoðar. Þar við bætist og, að eftir lögunum um eftirlit með skipum eru til tveir fastir menn hjer í bænum, sem veita þessu framkvæmd, en yfirstjórn þessara mála er hjá stjórnarráðinu. Ennfremur er til hjer annar maður, einnig utan stjórnarráðsins, sem stjórnin hefir oft haft gagn af að leita til í þessum efnum.

Nú upp á síðkastið hefir verið gerð gangskör að því að koma mælingunum í lag og afgreiða þær jafnótt frá stjórnarráðinu og hægt hefir verið. Úti um land veit jeg til, að þetta hefir gengið tregar, einkum áður fyr. Nú sem stendur liggur ekkert óafgreitt hjá stjórnarráðinu. Hvað viðvíkur sjerfræðilegri skráningarstofnun, held jeg að hennar þurfi naumast við. En hinu ber ekki að neita, að skráningu skipa hefir verið nokkuð ábótavant, og er álitið, að þess muni dæmi, að hinn rjetti eigandi hafi ekki verið skráður fyrir sínu skipi. En til þess að bæta úr þessu hefir skort heimild í núgildandi löggjöf til þess að fá upplýsingar með opinberri rannsókn.