27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

1. mál, fjárlög 1926

Jakob Möller:

Jeg á 2 brtt. á þskj. 235 ásamt hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Sú fyrri er um framlag til landsspítalabyggingar, ein af þeim till. einstakra þm., sem mest hleypir fram upphæð gjaldahliðarinnar. Jeg vil vekja athygli á því, að fjvn. hefir ekki lýst tekjuhliðinni eins nákvæmlega og hægt hefði verið. Hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram í gær, að þegar fjárlagafrv. hefði verið samið, hefði ekki verið hægt að vita til fulls um niðurstöðu ársins 1924, enda sjest, þegar borin er saman niðurstaða stjórnarinnar og útkoma ársins, að þó að hv. fjvn. hækkaði tekjuliðinn um 930 þús., þá munaði um nær því aðra eins upphæð á tekjuliðnum 1924. Þetta kemur mönnum ekki á óvart, því að það var kunnugt, að á síðastl. ári yrði tekjuafgangur, en tekjuhlið frv. 1926 er miðuð við annað ástand. í stað þess, að ætla mætti óráðlegt að miða við árið 1924, segir sig sjálft, að líkur voru til, að tekjurnar yrðu meiri, því að í fyrra var samþykt 25% hækkun á ýmsum tollum og gjöldum til ríkissjóðs, sem gilti þá aðeins nokkurn hluta ársins. Mjer skilst, að hv. fjvn. hafi farið gætilega í að taka tillit til þessa, og hefði mátt áætla tekjurnar nokkuð hærri. Niðurstaðan verður vitanlega sú, að þó að eftir till. nefndarinnar eigi að verja 600 þús. kr. til þess að borga lausar skuldir, verður allverulegur tekjuafgangur, þó að brtt. nefndarinnar og töluvert fleiri yrðu samþyktar. Jeg taldi rjett að víkja að þessu, og geta allir, sem þskj. athuga, fullvissað sig um, að þetta er rjett. Vona jeg því, að hv. þingmenn láti sjer ekki í augum vaxa, þótt farið sje fram á svona háa upphæð til landsspítalans.

Jeg get ekki fallist á það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði í gær, að hættulegt væri að láta ríkið ráðast í framkvæmdir á uppgangsárunum. Ef ekkert má gera á góðu árunum, þá verður aldrei gert neitt. Og ef leggjast á á móti fjárveitingu til landsspítalans af þessum ástæðum, þá verður hann aldrei bygður. Jeg veit satt að segja ekki, hvenær á að ráðast í framkvæmdir, ef ekki á góðu árunum. Ekki gengur það betur á krepputímum. Jeg er alveg sannfærður um, að hjer inni er enginn einasti maður, sem ekki telur sjálfsagt, að bygður sje landsspítali innan skamms. Landsspítalamálið er ekki aðeins metnaðarmál. Vitanlega er það nokkurt metnaðarmál að vera sjálfum sjer nógur og ekki upp á útlend fjelög kominn. En metnaðarhliðin er aukaatriði, þegar litið er á, hve brýn nauðsynin er. Hv. þm. hafa átt kost á að heyra, hve mikið nauðsynjamál þetta er, og það hefir verið skýrt betur en jeg get gert, svo jeg skal ekki verða margorður. Skal aðeins taka fram það, sem jeg álít mestu varða. Sú hliðin, sem að sjúklingunum snýr, er öllum augljós. Sá spítali, sem nú er notaður sem landsspítali, getur ekki tekið á móti nema litlum hluta þeirra sjúklinga, sem á spítalavist þurfa að halda. Sjúklingar utan af landi verða oft að bíða hjer í bænum tímum saman, og verða þá að liggja við misjafnan aðbúnað í borðstofum eða kjöllurum eða hvar sem hægt er að hola þeim niður. Má geta nærri, hvaða áhrif þetta hefir á heilsufarið. Að Landakotsspítalanum er svo mikil aðsókn, að þar fæst varla rúm fyrir aðra en uppskurðarsjúklinga. Þar við bætist, að spítalavistin er þar miklu dýrari en verða mundi í landsspítala. Þó er hin hliðin síst þýðingarminni, sú hliðin, sem snýr að undirbúningsmentun lækna og hjúkrunarkvenna, sem eiga að annast heilbrigðismálin. Það sýnir sig sjálft, hversu ilt það er fyrir háskólann að vera kominn upp á einkastofnun. Að vísu hefir samvinnan gengið vel, og eins og jeg hefi minst á, er plássleysið versti hængurinn á því fyrirkomulagi. Þetta, að spítalinn hefir ekki rúm fyrir nema uppskurðarsjúklinga, hefir þær afleiðingar, að stúdentar fá ekki tækifæri til að kynnast eins mörgum sjúkdómum og þyrfti. Þetta er svo alvarlegt fyrir háskólann, að kennurunum í læknadeildinni er orðið áhyggjuefni, hve kandídatarnir hljóta að verða illa undirbúnir vegna þessarar vöntunar. Að því verður að gæta, að síðan háskólinn var stofnaður hafa ýmsar breytingar orðið, fyrst og fremst þær, að nú lesa svo að segja öll læknaefni læknisfræðina hjer heima. Áður las hjer um bil helmingur þeirra erlendis. Við það, að læknanemendum fjölgar, er þörfin enn meiri á því að hafa sem flest og fjölbreyttust viðfangsefni. En eins og jeg hefi tekið fram, færist Landakotsspítalinn meir og meir í það horf að vera aðeins fyrir uppskurðarsjúklinga. Sjúkdómar þeir, sem læknaefnin hafa tækifæri til að kynnast í spítalanum, snerta því aðeins eina grein læknisfræðinnar. Ef þetta ástand á að haldast, hlýtur að leiða af því tilfinnanlegan þekkingarskort lækna í landinu í öðrum greinum, þar sem þeir fá aðeins notið bóklegrar fræðslu, en vantar alla verklega reynslu til undirbúnings starfi sínu.

Jeg geri ráð fyrir því, að þetta, sem jeg hefi sagt, sje nægilegt til þess að menn geti gert sjer grein fyrir því, hversu nauðsyn þessa máls er brýn. Auk þess veit jeg, að hv. þdm. hafa heyrt og sjeð svo mikið um málið, að það er hreinn óþarfi fyrir mig að fjölyrða um það nú. Það, sem hjer gildir um læknaefnin, gildir líka um hjúkrunarnema, og enn frekar, vegna þess að hjúkrunarnemar hafa engan aðgang að Landakotsspítalanum og hjúkrun verður alls ekki lærð til fullnustu á þeim spítölum, sem við höfum nú, heldur verða hjúkrunarnemar að fara utan til þess að fullkomna sig.

Það hefir verið talað um að byggja landsspítala, sem mundi kosta geysimikið fje, svo miljónum króna skiftir. Ef nú væri í ráði að halda sig við þá áætlun, þá myndi sú upphæð, sem nefnd er í till., hafa lítið að segja, þó að tekin yrði í fjárlög. En það mun hv. þdm. kunnugt, að nú er ný teikning komin og nýjar ráðagerðir um spítalabygginguna, þar sem gert er ráð fyrir, að hún kosti ekki nema 800–900 þús. kr. Vitanlega er það minni byggingin, sem hjer er gert ráð fyrir. Þá er ákveðið, að byggingin sje í einstökum atriðum ekki bundin við þessa teikningu, sem fyrir liggur, heldur sje frjálst að breyta henni eftir því sem henta þykir. En aðeins að öll upphæðin fyrir alla bygginguna verði ekki hærri en ráðgert hefir verið. Þá er það sett að skilyrði fyrir þessu framlagi, sem gert er ráð fyrir úr ríkissjóði, að jafnmikið tillag komi úr landsspítalasjóði. Eins og kunnugt er, hefir verið safnað á undanförnum árum allmiklu fje í þennan sjóð. Enginn vafi er á því, að stofnað var til fjársöfnunar þessarar í því skyni að byggja landsspítala. Og þótt nú sjeu um það nokkuð skiftar skoðanir, til hvers eigi að verja sjóðnum, þá er nú svo komið, að stjórn þessa sjóðs hefir gengið að því að leggja fje sjóðsins til byggingarinnar. Eða jeg fæ ekki skilið öðruvísi þá till. hennar, sem samþykt var á fundi, sem haldinn var hjer í bænum fyrir skemstu.

Fyrir okkur flm. till. vakir það, að gegn þessum 150 þús. kr., sem hún fer fram á úr ríkissjóði, verði lagðar fram 150 þús. kr. úr landsspítalasjóði nú þegar, svo að hægt sje að byrja á byggingunni á þessu ári fyrir það fje, og framlag ríkissjóðs komi svo á næsta ári og þá verði verkinu haldið áfram. Síðan yrði þannig haldið áfram með landsspítalasjóðinn, og að þrotnu hans fje yrði ríkis sjóður að taka á sig að ljúka byggingunni. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það verði til þess að hindra framgang málsins neitt, þó að það sje sett beint að skilyrði fyrir fjárveitingu úr ríkissjóði, að fje landsspítalasjóðs gangi þannig til byggingarinnar, því að stjórn landsspítalasjóðsins er þetta mál svo mikið áhugamál, að hún mun ekki setja það skilyrði neitt fyrir sig, þó að segja mætti ef til vill, að henni sje þannig settur stóllinn fyrir dyrnar.

Það er kunnugt hv. þdm., að í Ed. er komin fram till. til þál., sem fer í líka átt og hjer er farið. Við flm. vissum ekkert um þá till., þegar við lögðum fram þessa till. okkar. Og jeg verð að líta svo á, að það sje heppilegri leið, seni er farin með því að setja ákveðna fjárveitingu í fjárlög í þessu skyni, heldur en að samþ. hana í þáltill. Það er eðlilegra, að það sjeu ákveðnar í fjárlögunum allar slíkar greiðslur, sem er ákveðið að ríkissjóður inni af hendi. Og þó að þáltill. verði samþykt, þá ætti að sjálfsögðu að taka upphæðina inn í fjárlögin. En þá virðist í raun og veru óþarft að hafa þetta form, að samþykkja þáltill. Það er líka föst venja um þessar þál., að það er sett stjórninni í sjálfsvald, hvort hún fer eftir þeirra fyrirmælum eða ekki. Aftur á móti þar sem beint er samþykt fjárveiting í fjárlögum, er alt miklu ákveðnara. Og jeg hygg, að engin stjórn láti það undir höfuð leggjast að láta vinna slík verk, sem fje er þannig veitt til, nema þingvilji komi fram í þá átt; eins og á síðasta þingi, þegar það benti stjórninni á að láta niður falla ýmsar framkvæmdir, sem ráðgerðar höfðu verið í fjárlögum.

Þá man jeg ekki eftir, að það sje fleira, sem þarf að taka fram um málið að sinni. En ef eitthvað væri, sem jeg gæti gefið frekari upplýsingar um, mun jeg að sjálfsögðu eiga kost á því síðar.

Skal jeg svo víkja að annari till., sem við háttv. samþingismaður minn, 2. þm. Reykv. (JBald), flytjum á sama þskj., tölulið XI. Þar er farið fram á fjárveiting til Skúla læknis Guðjónssonar til heilbrigðisfræðináms. Fyrir fjvn. liggur umsókn frá þessum manni um styrk í þessu skyni. En hún kom svo seint, að fjvn. hefir ekki tekist að fá umsögn háskólans í tíma. En nú mun nefndin hafa fengið hana, en ekki tekið neina ákvörðun; svo að jeg geri ráð fyrir að taka þessa till. aftur til 3. umr. Enda skilst mjer, að fjvn. líti þessa till. sanngirnisaugum og kunni að meta það, hve þýðingarmikið nám hjer er um að ræða. Vonast jeg til, að hv. fjvn. athugi betur þetta mál, og mun jeg því geyma mjer að ræða till. þar til jeg heyri eitthvað frá henni.