13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

28. mál, skráning skipa

Atvinnumálaráðherra (MG):

Þar sem hæstv. fjrh. (JÞ) er nú sem stendur í hv. Ed., þá þykir mjer hlýða að gera nokkra grein fyrir frv. þessu. Það hefir þegar gengið umræðulaust og breytingalaust í gegnum Ed. og var þar í sjútvn., og sama leyfi jeg mjer að óska eftir, að gert verði við frv. þetta hjer í hv. deild.

Um innihald þessa frv. get jeg verið fáorður. Lögin um skráning skipa, þau sem nú gilda, eru frá 1919. Þau eru sumstaðar illa orðuð og ekki sem nákvæmust, enda voru þau sett í flýti og feld inn í þau eldri lagaákvæði. Með frv. því, sem hjer liggur fyrir, er væntanlega bætt úr þessum annmörkum, og sjerstaklega hefir áhersla verið lögð á það að fyrirbyggja, að erlend skip verði skrásett hjer pro forma sem íslensk eign.