02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

28. mál, skráning skipa

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er ekki á neinu bygt, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) gerir ráð fyrir, að þessi lagasetning mundi kosta aukið mannahald í fjármálaráðuneytinu. Það er ekki eftir þessum lögum neitt verk, sem þar á að vinna umfram það, sem nú er, nema að taka ákvörðun um rannsókn, sem þá aðrir auðvitað framkvæma, lögreglustjórarnir, ef vafi þykir leika á, hvort maður, sem beiðist skráningar á skipi, hafi eftir íslenskum lögum rjett til skráningar. Að öðru leyti kemur ekkert aukið starf á fjármálaráðuneytið, eða að minsta kosti gerist þess vegna engin þörf fyrir aukið mannahald. Það, sem hv. þm. hafði á móti frv. að öðru leyti, get jeg ekki fallist á heldur. Það getur vel verið, að okkar löggjöf um rjett erlendra manna til fiskiveiða hjer við land sje strangari heldur en löggjöf annara þjóða, flestra eða allra. Jeg skal ekki um það segja. En ef svo er, þá hygg jeg, að það sje ekkert óviljaverk löggjafarinnar hjer, heldur gert með fullkomlega ráðnum huga. Og mjer vitanlega hefir ekkert komið fram um það, að við höfum farið lengra í löggjöf þeirri heldur en við höfðum góða heimild til eftir alþjóðareglum. Í þessum lagabálki er raunar ekkert nýtt á þessu sviði. Þau nýju ákvæði í frv. beinast eingöngu gegn íslenskum ríkisborgurum eða öðrum mönnum hjer búsettum, sem hafa rjett til þess að halda úti skipi undir íslenskum fána. Og það getur ekki orkað tvímælis, að þessir menn og þeirra athafnir eru alveg innan verksviðs þess íslenska löggjafarvalds. Ef þessi ákvæði þykja ströng, t. d. sektarákvæðin, þá er ekki um það annað að segja en það, að þau eru í fullu samræmi við okkar löggjöf á þessu sama sviði. Og úr því við höfum talið okkur nauðsynlegt að gera hana stranga, þá sýnist rjett, að svipaður strangleiki komi fram í öllum þeim atriðum hennar, sem verulega máli skifta.