23.02.1925
Neðri deild: 14. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Frsm. (Björn Líndal):

Jeg vildi leiðrjetta þann misskilning, sem kom fram í ræðu hv. þm. Dala. (BJ), er hann talaði um, að þessi styrkveitinganefnd ætti að veita lögákveðinn styrk til lögákveðinna manna. Satt er það, að styrkurinn verður lögákveðinn, en mennirnir alls ekki, og getur oft verið vandi að velja þá úr, svo vel sje. Það er ekki nema sjálfsagt, að kenslumálaráðherra leiti sjer upplýsinga hjá þeim, er skyn bera á þetta mál. Líka mætti jafnan búast við því, ef stjórnin rjeði hjer ein öllu, að henni yrði brugðið um pólitiska hlutdrægni í valinu, þótt alveg væri ástæðulaust, og væri þá betur farið en heima setið, ef þetta frv. gæti komið í veg fyrir slíka tortryggni. Jeg fæ heldur ekki sjeð, að óeðlilegra sje, að stjórnin hafi nefnd sjer til aðstoðar við styrkveitingu handa stúdentum heldur en til svo margs annars, t. d. til að veita lán úr bjargráðasjóði. Þessi tilhögun miðar að því, að þeir menn, er sjerþekkingu hafa á slíkum málum, geti þar nokkru ráðið, og jafnframt að því að draga einveldi í þessum vandamálum úr höndum stjórnarinnar í fleiri manna hendur. Þetta er hið demokratiska fyrirkomulag. (BJ: Fylgir þm. því?). Jeg geri það a. m. k. að því leyti, að jeg tek það fram yfir einveldi, þar sem einn ræður öllu illa. (BJ: Ætli þm. vildi nú samt ekki vera konungur?). Jeg vil ekki vera konungur, sem engu ræður, og ekki heldur einvaldskonungur, því að jeg treysti mjer ekki til þess að ráða vel og viturlega fram úr öllum málum. Annars ætla jeg ekki að fara að tala um þjóðfjelagsskipulag í sambandi við þetta mál, og get að sinni látið þetta nægja.