23.02.1925
Neðri deild: 14. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þetta er ekki fjármál nema að litlu leyti, en ýmislegt hefir gerst á þessu sviði undanfarin ár, sem tekur til fjármálanna, þó í litlu sje. Fyrst eftir að íslenskir stúdentar mistu rjettinn til Garðstyrksins, virtist stjórn og þing líta svo á, að þeir íslenskir stúdentar, sem utan vildu fara og stunda nám í þeim greinum, er ekki voru kendar hjer við háskólann, ættu rjett á að fá til þess styrk úr ríkissjóði, sem samsvaraði Garðstyrknum. Og þetta mátti heita, að framkvæmt væri fyrstu árin, þó ekki væru í fjárlögunum áætlaðar meira en 8 þús. kr. til þessa. En er svo var komið á þinginu 1922, að hin raunverulega upphæð, sem til þessa fór, var orðin 30 þús. kr., eða því sem næst, þá bar jeg fram brtt. þess efnis að hækka fjárveitinguna úr 8 þús. kr. upp í þessa upphæð, sem auðsjeð var, að notuð yrði, til þess að áætlun fjárlaganna væri ekki vísvitandi röng. En þetta var felt, og vissi jeg ekki gjörla ástæðurnar fyrir því þá. En þær komu í ljós á síðasta þingi. Þá var að tillögu fjvn. fjárframlaginu breytt svo, að stjórnin hafði ekki meira til úthlutunar en hinar upphaflegu 8 þús. kr. En sú upphæð var svo lág, að ekki nægði til þess að greiða styrk þeim stúdentum, sem þegar voru byrjaðir að njóta hans. Með þessu er nú augljóst, að þingið taldi sjer ekki skylt að fylgja þeirri reglu um styrk þennan, sem hv. þm. Dala. (BJ) telur eina rjetta samkv. gefnu loforði, er jeg á bágt með að trúa, að nokkru sinni hafi gefið verið, því jeg get ekki samrýmt það stjórnskipulagi voru, að bindast slíku án opinberra samþykta. En hvað sem því viðvíkur, þá skar síðasta Alþingi úr um þetta, því að eftir að fjárlögin voru sett fyrir árið 1925, þá varð ekki sjeð, fyrirfram, hve marga stúdenta mætti styrkja erlendis á ári. Og hitt gat stjórnin ómögulega tekið upp hjá sjálfri sjer, að veita þeim stúdentum, sem sigla vildu, fyrirfram styrk t. d. til 4 ára. Svona stendur þá málið, að stúdentarnir geta ekki vitað nje haft neina trygging fyrir, að þeir fái 4 ára styrk, ef þeir stunda nám erlendis. Fleira er það í þessu máli, sem snýr að stúdentunum, og skal jeg ekki um það ræða; aðeins benda á þetta, að undanfarið hafa stúdentarnir ekki getað fengið að vita það áður en þeir fóru út, hvort þeir fengju styrkinn, nje byrjað að njóta hans fyr en um nœsta nýár eftir að þeir tóku stúdentsprófið. Þetta vitum vjer, sem ytra höfum lesið, hversu afaróheppilegt er, og eins er hitt ilt fyrir stúdentinn, að vita ekki strax um haustið, hvort honum muni kleift að stunda nám erlendis. En úr þessu hvorutveggja er bœtt með frv. Að því er snertir tölu þeirra stúdenta, er styrkinn eiga að fá, þá myndi jeg skilja mótspyrnu hv. þm. Dala. (BJ) gegn frv., ef hann vissi, að Alþingi liti svo á, sem allir, er sigla vildu, ættu heimtingu á að fá styrk. En að þessi skilningur er síst ríkjandi á þingi, það sýna fjárlögin 1925 skýrt. Koma þau að vísu í bág við vilja hv. þm. (BJ), en fyrir þeim verðum við að beygja okkur.

Þá er annað atriði, sem ekki snertir fjárhagshliðina, heldur skifting styrksins. Það kann að reynast óheppileg tilhögun að segja við stúdentana, að svo og svo margir megi utan fara og styrks njóta, ef þeir aðeins stundi þær greinar, sem ekki eru kendar hjer. Því að svo kynni að fara, að þá legðu flestir stúdentarnir stund á þær greinar, sem ekki er þörf fyrir, að herðar sjeu af svo mörgum. Er þetta þegar sjáanlegt, og sýnist það því rjett hagnýting fjárins að stilla svo til, að dálítið verði farið eftir því, hve mikill nemendafjöldi er fyrir í viðkomandi grein, og eins hvort sótt er um að nema námsgreinar, sem mannaþörf er í. Og þetta er hægt eftir frv.

Annars lít jeg aðallega á þetta frv. sem trygging fyrir stúdenta fyrir því, að utanfararstyrkjunum verði ekki fækkað úr því, sem lög standa til, og eins að þeir, sem styrkinn hljóta, megi vera öruggir um að halda honum, því ekki er jafnauðhlaupið að því að nema svona lög úr gildi eins og að færa niður upphæðir í fjárlögum.