25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Magnús Jónsson:

Jeg get verið stuttorður um þessa brtt., sem jeg hefi flutt. Það hefir komið fram við umræðumar, að ekki þykir heppilegt, að þessi styrkveiting sje bundin við fjóra nemendur á ári.

Mjer finst, að ef þessi styrkveiting er takmörkuð við ákveðna tölu, þá megi ekki fara lengra en svo, að ákveða að 16 njóti styrksins í einu. Það getur vel komið fyrir, að ekki þyki heppilegt að styrkja 4 nýja stúdenta sama árið. Setjum svo, að 5 sæki, en 4 þeirra ætli að nema vísindagrein, þar sem ekki verður talin þörf á nema einum. Fjelli þá styrkur niður, en þó væri ekki hœgt að veita nema 4 næst. Á þessu ræður brtt. bót. Styrkinn fengju hlutfallslega fjórir nýir á ári, og er þá breytingin í því fólgin, að færa má styrkinn til milli áranna.

Brtt. hv. 1. þm. Árn. (MT) gengur í sömu átt og mín og felur raunar í sjer hið sama.