25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skal ekki orðlengja neitt um það atriði, hvort fært sje að binda styrkinn við I. einkunn. Ef styrkurinn verður takmarkaður allmikið, geri jeg frekar ráð fyrir, að í framkvæmdinni muni hann aðallega ganga til stúdenta með I. einkunn. En það hlýtur að fara nokkuð eftir því, hve eftirsóknin er mikil. Þetta atriði á þskj. 85 legg jeg ekki mikla áherslu á. Vil þó heldur, að ákvæði frumvarpsins standi. Það var svo um Garðstyrkinn, að hans gátu notið stúdentar bæði með I. og II. einkunn. En þessi styrkur kemur í hans stað, og er því rjettast að láta ákvæði frv. um þetta vera óbreytt.

Benda má á, hve örðugt væri að koma styrkveitingunni fyrir, svo að ekki ræki sig á, ef farið væri eftir brtt. á þskj. 85.

Ef t. d. styrkur er veittur 6 mönnum árið 1927 og síðan fjórum á ári 1928–1930, þá yrðu styrkþegar 18 árið 1930. En tillagan gerir ráð fyrir 16. Hið sama kæmi að nokkru leyti út, ef brtt. á þskj. 86 væri samþykt. Jeg held því, að rjettast sje að láta ákvæðin í frv. standa.

Jeg geri ráð fyrir, að svo geti farið, að ráðuneytið veiti styrk fleirum en 4 eitthvert ár, ef tala stúdenta við það fer ekki fram úr 16, þeirra er styrks njóta. En þó að eitt árið væru ekki styrktir nema 14–15 nemendur, þá er þetta ekki óríflegt tillag. Verður að gæta þess, að það er óvanalegt, að ríki þurfi að kosta nemendur við erlenda háskóla. Okkur veitir fullerfitt að láta okkar háskóla hafa nóg fje, svo það er eðlilegt, að við getum ekki verið mjög ríflegir við þá, sem nema erlendis. Jeg hefi viljað gæta fullkomlega hófs á báðar hliðar, en álít ekki þörf á að styrkja fleiri en upp undir 16 á ári. Jeg hefi þóst ekki síður líta á hag stúdenta með frv.

Vænti jeg þess, að hv. deild samþykki frumvarpið óbreytt.