25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla mjer ekki þá dul að fara að mæla oftar á móti þessu frv. í því skyni að hafa áhrif á hv. þingmenn. Það er hvort sem er ógerningur að fá menn til þess að hugsa um málið eftir rjettum hugsunarreglum.

Tvent vakir fyrir mönnum, — skilja þeir það, sem lagt hafa stund á hagnýta sálarfræði hv. þingmanna — að koma sjer undan skuldbindingunni, sem gefin var 1921, skera sífelt utan af þessum styrk og smáminka hann, hinsvegar þetta, að reyna altaf að gera öllum til geðs, haltra stöðugt á öllum löppum. Hvað skyldu þeir segja, kjósendur hv. þingmanna, sem eiga gáfaða og námfúsa sonu, er vilja nema eitthvað, sem ekki er kent í háskóla Íslands, þegar Alþingi hefir sagt með lögum, að það ætlaði að halda loforð við 16 nenn, en svíkja hina? Hvað segja þeir, sem útundan verða?

Væri jeg kjósandi, myndi jeg biðja hv. þm. að hafa litla þökk fyrir og senda annan á þing næst.

Það er svo með þessa fjárveitingu sem aðrar, að það eru ekki þingmenn, sem eiga peningana, heldur landsmenn sjálfir. Það er sjálfsagt að fara vel með peninga, en það á ekki að taka bitann út úr munninum á börnum landsmanna. En það er það, sem hv. þingmenn vilja.

Mjer heyrðist það á hæstv. mentamálaráðherra (JM), að hann væri að afsaka þetta með því, að það væri svo óeðlilegt, að ríki kosti syni sína til náms erlendis. Þetta er rjett þar, sem það á við. Þær þjóðir, sem eiga eða hafa komið á fót hjá sjer nægum og fullkomnum mentastofnunum, þurfa þessa ekki með. En þar, sem engar slíkar mentastofnanir eru til, eða of fáar, hvort sem það stafar af efnahagslegu getuleysi eða nísku, þá verður að senda menn utan til þess að læra. Jeg skal ekki lasta oss Íslendinga fyrir það, að vjer stofnuðum háskóla vorn svo seint, en hitt er ámælisvert, að vjer höfum ekki gert neitt til þess að auka veg eða gengi þessarar mentastofnunar vorrar eftir að hún komst á fót. Þvert á móti hefir verið reynt hvað eftir annað að draga úr þessum vísi til innlendrar vísindastofnunar, minka hann og limlesta og á allan hátt halda áhrifum hans niðri. Það yrði sparnaður fyrir þjóð vora, og metnaður hennar ætti það einnig að vera að efla háskóla vorn, svo að ekki þurfi að senda menn utan til náms. En það samrýmist illa því, sem nú er efst á baugi, að slátra kennaraembættum og fella niður þá kenslu, sem byrjað var á. Og svo er verið að slá því fram, að óeðlilegt sje að kosta menn við nám erlendis. Það er víst, að það getur vel hlotist af dvöl ísl. námsmanna erlendis, að vjer ölum þar upp. góða og nýta mentamenn, sem svo ílendast þar eða hverfa hjeðan á braut, og er þetta ekkert nýtt fyrir oss. Mun þetta einnig verða svona framvegis, meðan vjer tímum ekki að greiða þeim sómasamleg laun, eða að minsta kosti svo, að þeir geti lifað af þeim. Hví varð Stefán Jónsson að fara hjeðan? Það átti að vísu að hola honum hjer niður sem einhverskonar dósent. Hvers vegna er Pjetur Bogason ekki látinn koma hingað? Það er síður en svo, að reynt sje að fá hann hingað til lands. Honum er gert að skilyrði, ef hann ætli að koma, að nema meira og fleira, til þess að fá viðtöku hjer. Þá munu og háskólakennarar vorir framvegis eins og hingað til fá tilboð hvaðanæfa, vilji þeir hverfa hjeðan. Sje það satt, sem sagt er, að Norðmenn ætli að fá um 100 kennara í íslensku og ísl. fræðum, efast jeg ekki um, að margir muni verða fúsir til að fara hjeðan heldur en að þræla hjer við sult og eftirtölur. Áður stóð jeg hjer upp í sæti mínu til þess að mæla á móti þessum lögum sem algerlega ósæmandi Alþingi, en það kom fyrir ekki, og nú stend jeg aðeins upp til þess að þvo hendur mínar af þessu máli, til þess að láta alda og óborna vita um það, að jeg hefi ekki viljað vera með í því að setja þessi lög, sem eru óþörf, gagnslaus og algerlega ósæmandi löggjafarþingi þjóðar, sem þó vill láta telja sig siðaða þjóð.