25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Bjarni Jónsson:

Nú þykir mjer hæstv. forsrh. (JM) vera farinn að verða spaugsamur, þegar hann er að tala um, hversu fjölmargar mentastofnanir vjer eigum. Jeg spyr þá: Hverjar eru þær? Er það hinn svokallaði mentaskóli, þessi umskiftingur fyrir lærðan skóla, sem áður var? Er það þetta brot úr háskóla, sem við höfum eignast og altaf hefir verið sveltur, síðan hann komst á fót? Sje þetta svo, þá má segja, að sannist máltækið: Litlu verður Vöggur feginn. Annars er svo að heyra, sem hæstv. forsrh. (JM) hafi ekki vitað, að lítil og fámenn þjóð gæti verið mentaþjóð. En því er nú svo varið, að það er ekki hægt að miða mentunina við mannfjölda, heldur fer hún eftir mentunarþörfinni, og hún er meiri hjer en annarsstaðar. Hjer þarf góðan mann og valinn í hvert rúm. Fjölmennu þjóðirnar, sem nægar eiga mentastofnanirnar, hafa um marga að velja til hvers sem er. Aðalkjarni þessa máls er, að þjóðin ali skilyrði fyrir mentun og menning, til þess að mennirnir geti orðið góðir; en þeir eru ekki allir jafngóðir og landið okkar, sem er með bestu löndum í heimi. Það er satt, hvað sem hæstv. forsrh. (JM) segir, loforð voru gefin um þetta, og allir flokkar og allar nefndir þingsins tóku þátt í þeim loforðum. Loforðið var ekki formlegt, af því að engum datt í hug, að svikið mundi verða. Það eru til svo föst loforð, að enginn getur hugsað sjer, að þau verði brigðuð, og svo var um þetta. Það mátti segja um þetta loforð líkt og um lög Sólons, þegar hann var spurður, hví hann hefði ekki lagt refsingu við móðurmorði; en hann svaraði, að hann vildi ekki nefna svo svívirðilegan glæp á nafn í lögunum, til þess að minna engan mann á, að slíkur glæpur gæti átt sjer stað. Þess vegna var talið óþarft 1918 að lögfesta loforð, sem engum kom til hugar þá, að nokkurntíma yrði brigðað. Þetta loforð er því lög; svo sterk lög, að löggjafarvaldinu er ekki fært að breyta þeim, — því þessu verði, fyrir þetta loforð var sjálfstæði Íslendinga keypt. Þetta loforð er því miklu sterkari skuldbinding fyrir það þing, sem afsalaði Garðstyrknum, en þó það hefði verið sett í lög eða staðið í stjórnarskrá ríkisins, því það stendur í þeim lögum, sem allar siðaðar þjóðir telja sjer skylt að lúta, — í lögum drengskaparins.