27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á litla brtt. á þskj. 235 um 600 kr. styrk til bóndans á Arngerðareyri, til þess að halda þar uppi gistingu. Jeg hafði búist við því, að þar sem hv. fjvn. hefir tekið upp tvo slíka styrki, þá mundi hún ekki sleppa þessum. Jeg þekki vel til á öðrum þessum stað, sem hv. fjvn. mælir með, og jeg veit, að þar er minni þörf slíks styrks. Má vera, að þessu valdi ókunnugleiki nefndarinnar, og skal jeg skýra fyrir hv. þdm. ástæður til þessarar styrkveitingar.

Á Arngerðareyri hagar svo til, að þar er endastöð póst- og mannflutningabáts um Ísafjarðardjúp, og eins fyrir þá, sem koma yfir beiðarnar úr Stranda-, Barðastrandar- og Dalasýslum. Póstbáturinn fer frá Arngerðareyri kl. 7 á morgnana, og þar sem 7 km. vegur er þaðan til næsta bæjar, þá verða allir, sem þaðan vilja fara með bátnum, að gista þar, og eru þar því oft nætursakir í einn 10–12 manns. Sama er að segja um þá menn, sem með bátnum koma frá Ísafirði; þeir gista hjer um bil altaf á Arngerðareyri. Í mörgum tilfellum kemur báturinn ekki fyr en kl. 8–9 að kveldi, og ef vont er veður, er ekki við því að búast, að menn fari frá fyrsta gistingarstað strax, enda eru menn oft misjafnlega vel á sig komnir eftir að hafa verið 10–14 tíma um borð í póstbátnum í misjöfnu veðri.

Það er nú svo, að fjallvegirnir milli Ísafjarðar-, Stranda- og Barðastrandarsýslu eru með erfiðustu fjallvegum hjer á landi, einkum á vetrardag. Heiðarnar eru mjög háar, einkum Þorskafjarðarheiði, og kemur stundum fyrir, að póstur hefir verið 24–30 klst. að komast yfir hana. Það gæti því litið svo út, sem ástæða væri til þess að styrkja þá, sem næst búa heiðunum, til þess að halda uppi gistingu, einkum þá, sem næst búa Þorskafjarðarheiði. En það er oftast svo, að langferðamenn koma þar aðeins við til þess að fá hressingu, en halda áfram til gistingar á Arngerðareyri, hvort sem þeir eru í verslunarerindum þangað eða á leið til Ísafjarðar.

Bóndinn á Arngerðareyri hefir haldið gestaskrá, og á henni sjest, að þar hafa gist á síðasta ári 160 manns. En alls hafa 1044 menn þegið þar greiða á sama tíma. Jeg skal jafnframt taka það fram, að hjer eru ekki taldir innansveitarmenn, heldur aðeins langferðamenn. Jeg skal játa, að það væri kannske ekki fullkomin ástæða fyrir Alþingi að veita þennan styrk, ef svo stæði á, að þessi bóndi væri svo efnum búinn, að hann gæti bygt hæfilega yfir ferðamenn, og gæti svo, heimilinu að skaðlausu, hýst þá. En svo er ekki. Maðurinn er bláfátækur, með 9 börn í ómegð, og það elsta 10 ára, en húsakynni ljeleg. Og þau getur hann ekki bætt, nema hann fái styrk til þess. En þennan styrk ætlar hann að nota til húsabóta. Eins og nú stendur, verður hann og annað heimilisfólk að ganga úr rúmum, ef fleiri eru þar nætursakir í einu en þrír, og má nærri geta, hversu óþægilegt slíkt er á bláfátæku barnaheimili. En eins og áður er sagt, þá er hjer ekki í annað hús að venda fyrir ferðamenn. Að vísu býr þarna verslunarstjóri Sameinuðu verslananna, en íbúð hans er svo lítil, að ekki nægir honum, þó að hann í vandræðum ferðamanna hafi oftlega hýst þá. Hreppsnefnd hefir gefið manninum meðmæli sín, enda mun hreppsnefnd sjá það, að fái maðurinn ekki styrk, svo að hann geti bætt húsakynni sín, þá er annaðhvort, að hann verður að verða annara handbendi, — en það mundi öllum, sem til þekkja, þykja mjög sorglegt, því að þessi maður er alkunnur greiða- og mannúðarmaður, sem á mjög erfitt með það að vísa mönnum frá gistingu, þó að heimili hans og efnahagur heimti annað, — eða að öðrum kosti verður hann að hætta að veita gestum viðtöku, og er hvorugur kosturinn góður. Að öllu þessu athuguðu vænti jeg, að hv. nefnd virðist ástæða til þess að veita þennan umbeðna styrk. Og hins sama vænti jeg af öðrum hv. þdm.

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) vjek nokkuð að till. samgmn. Jeg skal nú ekki taka fram fyrir hendur frsm. nefndarinnar(SvÓ), en jeg vildi benda á fáein atriði, þar sem mjer virtist koma fram hjá hv. þm. (ÞorlJ), að honum væri málið ekki fullljóst. Hann talaði um það, að Austur-Skaftfellingar væru verst settir allra landsmanna hvað samgöngur snertir. Því neitar enginn, að þeir eru illa settir, en jeg held, að ekki sje hægt að segja, að Norður-Ísafjarðarsýsla sje öllu betur sett. Þar kemur Esja á eina höfn í 4 ferðum, en annars kemur hvorki Esja nje milliferðaskipin á neina höfn þar, fyrir utan Ísafjarðarkaupstað. Djúpbáturinn er því eini farkosturinn. Til hans er ráðgert, að gangi 16 þús. kr.; þar af má óhætt telja 12 þús. fyrir póstflutninga, sem greiða yrði hvort sem er. Áður voru greiddar 10 þús. kr. til póstbáts, sem var svo ljelegur, að hann fjekst ekki vátrygður. En eigi mun hægt að fá sæmilegan bát, sem tryggur sje til að flytja svo verðmikinn póst, sem hjer er um að ræða, fyrir minna en 12 þús. kr. Svo að hjer eru þá ekki lagðar nema 4 þús. kr. til samgöngubóta. Jeg veit heldur ekki til þess, að lagt hafi verið nokkurt fje úr ríkissjóði til vegagerða í Norður-Ísafjarðarsýslu. Hitt tel jeg ekki, þó að ruddar hafi verið heiðarnar milli Ísafjarðarsýslu, Stranda- og Barðastrandarsýslu. Af þessu vona jeg, að það sjáist, að víðar er örðugt um samgöngur en í Austur-Skaftafellssýslu. Annars miðaði samgmn. till. sínar við lægstu hugsanlega aðalupphæð, svo að ekki yrði hægt að segja, að hún færi fram úr því, sem brýn nauðsyn krefur, því hún vildi fylgja sem best hinu loflega fordæmi síðasta þings, og jeg vænti þess, að þetta þing gæti þess sama sem best í hvívetna. Það er rjett, að Skaftfellingum er nauðsynlegt að hafa bát til þess að annast samgöngurnar við Austfirði, sjerstaklega á haustin. En margir munu líta svo á, að ekki beri að styrkja milliferðir meðan á vertíð stendur, enda mun það alstaðar vera svo, að útgerðirnar kosta sjálfar báta til flutninga sinna. Sem sagt mun hin almenna flutningaþörf vera þarna mest á haustin og seinni part sumars, á tímabilinu sept.–okt.

Jeg mun svo ekki víkja að fleiru, hvorki brtt. háttv. þdm. eða háttv. nefndar. Það yrði bara til þess að lengja umr. að óþörfu.