08.04.1925
Efri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Það hefir verið allgott samkomulag í nefndinni um þetta frv., sem kom úr hv. Nd. Það fjallar um fjölgun þeirra stúdenta, sem gefinn er kostur á að nema erlendis. Jeg er frv. að vísu ekki fylgjandi nema að sumu leyti, en ber fram brtt., sem eru nokkuð kostnaðarsamar í framkvæmd, en verða óhjákvæmilegar áður en langt um líður.

Jeg er samdóma stjórninni um það, að óhugsandi sje annað en ríkið verði að styrkja menn til náms í útlöndum. Og það hefir þann kost í för með sjer, að þessir menn mundu dreifast og ekki stunda nám í sömu borg allir. Þeir mundu fara til Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur, Þýskalands, Englands og Frakklands. Þetta er mikill ávinningur, sem felst í því að fá áhrif frá sem flestum menningarlöndum. Jeg get því látið í ljós ánægju mína yfir þessari hlið frv.

Hitt finst mjer aftur á móti ekki rjett hugsað, er stjórnin vill takmarka styrkinn við stúdenta eina. Það er ekki altaf þörf á að hafa 16 stúdenta ytra við nám, einkum ef óáran er í fólkinu og góðir kraftar við háskólann hjer.

Á því hefir borið, að þeir, sem styrks hafa notið á undanförnum árum, þykja ekki hafa hagnýtt sjer hann sem skyldi, T. d. er mjer kunnugt um það úr brjefi um einn mann, sem er í einu af Norðurlandaríkjunum, að hann vinnur fyrir sjer og nýtur þó styrks. Jeg er ekki að saka stjórnina um þetta; eftirlit með slíku er örðugt.

En samhliða þessu er fjöldi karla og kvenna, sem nám stunda erlendis og ekki eru stúdentar. Þetta fólk á ekki annars kosti en sækja um styrk til þingsins, ef það á ekki efnað fólk að, en fær oft lítið og gengur það erfiðlega.

Það er óhætt að fullyrða, að ef þörf er á að gefa 16 stúdentum kost á að nema erlendis árlega, þá er þörf á að gefa það einnig að minsta kosti öðrum 16 konum og körlum, þótt ekki hafi þau stúdentspróf. Það eru á hverju ári meðal slíkra manna margir, sem full ástæða væri til að styrkja. Og jeg hefi borið þessa till. fram til þess að gefa tækifæri til að taka ákvörðun um þetta samtímis styrkveitingum til stúdenta. Jeg skal játa það, að með tímanum yrði að setja nánari fyrirmæli um úthlutun þessa styrktarfjár, en í fyrstu legg jeg til, að úthlutun þess sje falin stjórnarráðinu. Og það er rjettur, sem það hefir haft, t. d. um styrk til iðnnema.

Ef þessi brtt. yrði samþykt, þyrfti einnig að breyta nafni frv.