08.04.1925
Efri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Forsætisráðherra (JM):

Till. hv. meiri hl. eru fremur meinlausar og gagnslausar. Jeg held, að það sje afskaplega sjaldgæft, að veita þurfi styrk stúdentum, sem tekið hafa stúdentspróf við erlenda skóla. Þegar litið er á sögulega hlið málsins, sjest, að sá styrkur, sem stúdentum hefir verið veittur eftir 1918, kemur í stað Garðstyrksins, sem þá fjell burtu, en hafði áður verið veittur undantekningarlaust öllum íslenskum stúdentum, sem utan fóru til náms og ekki höfðu 3. einkunn. Það, sem þetta frv. gerir, er að takmarka þennan rjett þannig, að ákveðið er, að ekki fái styrk nema ákveðin tala stúdenta. Þetta er önnur hliðin. Hinsvegar tryggir frv. ákveðinni tölu stúdenta styrk í 4 ár við háskólanám erlendis. Þá getur það ekki komið fyrir framar, sem kom fyrir í fyrra, að Alþingi svo sem upp úr þurru svifti jafnvel veittum styrk af stúdentum.

Þá brtt. nefndarinnar, að veita megi styrk stúdentum, sem tekið hafa stúdentspróf erlendis, álít jeg meinlausa. Jeg neita ekki, að komið gæti fyrir, að þá heimild þætti rjett að nota, en það mundi ekki verða gert nema í einstaka tilfelli, líklega ekki oftar en 1–2 á hverjum 30 árum. En benda má á, að aðstaða þeirra Íslendinga, sem stúdentspróf taka t. d. í Danmörku, er önnur en þeirra, sem próf taka hjer á landi. íslenskir stúdentar með dönsku stúdentsprófi eiga aðgang að Garðstyrk, ef þeir eru ástundunarsamir og efnalitlir. Í raun og veru er eðlilegast og sögulega rjett að binda styrkinn við íslensk próf, eins og gert var um Garðstyrkinn, meðan Íslendingar höfðu óbundinn rjett til hans. Þó að jeg telji breytinguna meinlausa, óska jeg heldur, að frv. gangi fram óbreytt.

Þriðja brtt. er líka meinlaus, og raunar óþörf, því að sjálfsögðu verður tekið tillit til þess, hverskonar manna þjóðin þarfnast, þegar styrkur verður veittur. Tillögunni um breyting á tölu styrkþega verð jeg að mæla á móti. Jeg tel mjög ríflega skamtað, að 16 stúdentar njóti styrksins árlega. Það verður líka að hugsa um stúdenta, sem nema hjer heima, en ef leiðin er gerð mjög greið til náms erlendis, má búast við, að nokkur hluti þeirra, sem þar nema, ílendist ytra, og þá má heita svo, að þeir sjeu þjóðinni tapaðir. Sýnist ekki ástæða til að ala þannig upp menn handa öðrum þjóðum. Jeg álít frv. fara mjög hóflega í sakirnar, og jeg tel ekki þörf á að styrkja fleiri menn en þetta. Jeg býst við, að árlega fáist nógu margir hæfir stúdentar eftir þeirri stúdentaframleiðslu, sem nú er, því í raun og veru eru þetta kostakjör og styrkurinn mjög hár í samanburði við þann styrk, sem stúdentar fá hjer heima. Þeir fá ekki svipað því helming á við þetta, og er þó víst eins dýrt að stunda nám hjer og erlendis. Jeg held, þegar að er gætt, að ekki sje ástæða til að fara lengra en frv. gerir ráð fyrir, og jeg held, að þeir, sem vilja koma skipulagi á þetta mál og tryggja stúdentum styrk framvegis, ættu ekki að leggja kapp á að breyta tölunni. Það lítur raunar út fyrir, að nú sje einskonar útvarp á peningum úr ríkissjóði, en jeg hygg þó óvíst, að hv. Nd. mundi fallast á að hækka þessa tölu.

Hvað snertir brtt. minni hl., þá er mjer óskiljanlegt, að nokkrum skyldi geta dottið í hug að bera hana fram sem brtt. við þetta frv., sem borið er fram á eðlilegum og sögulegum grundvelli. Það var að minsta kosti sjálfsagt að hafa þetta í öðru formi. Jeg skal annars ekkert um þessa till. segja, en jeg skil ekki, að hv. minni hluti geti haft deildina með sjer í þessu.

Jeg skal svo ekki fara um þetta frekari orðum. Þingið verður að ráða við sig, hve miklu fje því þykir fært að verja til stúdenta, og gæta þess jafnframt, að þeir, sem heima nema, verði ekki ver úti en hinir.