14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Hæstv. forsrh. (JM) verður að koma með nýja en ranga skýringu á fjárlögunum til þess að verja með hegðun sína í þessu máli. Hann játar, að sumir menn hafi haldið því fram 1918, að allir stúdentar ættu að fá styrk. En afleiðingin er sú, að hann hefði átt að fara eftir fjárlögunum. Nú er ekki einn stafur, sem segir, að 8000 kr. 1920–1922 væri áætlunarupphæð. Og sjerstaklega eftirtektarvert er það, að hæstv. ráðh. (JM) skuli hafa haldið þessu fram, þar sem hann vissi, að hæstv. fjrh. (JÞ) taldi óleyfilegt að fara yfir takmörk fjárlaganna. Það er enginn vafi á því, að hjer er um óforsvaranlega eyðslu að ræða af hálfu hæstv. forsrh., þar sem hann, þvert ofan í fjárlögin, hefir látið þessa upphæð af hendi. Það kemur ekki málinu við, þó að einn þingmaður komi í stjórnarráðið og heimti þetta. Hvaða stjórn er það, sem fer eftir slíku? Jeg vona, að hæstv. forsrh. sýni ekki aftur, að hann sje svo háður einstökum þm., að hann brjóti fjárlögin ár eftir ár. Þess vegna er það alt rangt, sem hann hefir borið fyrir sig í þessu máli. En þrátt fyrir þetta trúir hann ekki á samninginn frá 1918. Hvað er þá annað eftir en að hann hafi verið kúskaður af einhverjum þingmönnum, sem hafa viljað fara þessa leið.

Hið eina, sem gæti bjargað hæstv. forsrh. (JM) út úr þessum ógöngum, er, að þingið hafi meint alt annað en í fjárlögunum stendur. Ef svo hefði verið, hefði hæstv. ráðherra haft á rjettu að standa hvað snertir einkaskoðun hans. En svo kemur einhver óheillaandi, sem kúgar hann til að brjóta fjárlögin og sína eigin skoðun. Að hv. 1. landsk. (SE) hafi fylgt í fótspor fyrirrennara síns, þegar hann var ráðherra, kemur mjer ekki við Að vísu má segja, að hann hafi haft nokkuð erfiða aðstöðu, þegar þessi regla hafði gilt í 4 ár.

Við fyrri umr. þessa máls játaði hæstv. ráðh. (JM) um þessa stúdenta, sem á lagalausan hátt fengu styrk, að stjórnin vissi ekki annað um þá en að hún fengi vottorð við og við. Styrkurinn væri greiddur í skrifstofunni í Kaupmannahöfn. Jeg verð að játa, að eftir ræðu forsætisráðherra er svo að sjá, sem það sje engin ömun, þó að þeir hafi slarkað svo og svo mikið. En jeg hefi sannað, að algert skipulagsleysi hefir verið á styrknum í mörg ár, þangað til í fyrra, að þingið tók í taumana. En það sýnir ódugnað hæstv. forsætisráðherra, að hann hefir ekki borið frv. fram fyr en núna, þegar fjöldi manna er byrjaður á námi upp á von um styrk og kominn í mestu vandræði. Hefði nokkur forsjá verið í þessu, hefði engum dottið í hug að styrkja þann hóp af verkfræðingum, sem nú eru erlendis. Hvað eigum við að gera við 20 verkfræðinga ? Þeir verða að leita sjer atvinnu erlendis, og þá höfum við kostað fje til þess að ala upp sjerfræðinga handa öðrum þjóðum, en höfum ekkert gagn af þeim sjálfir. Er hægt að hugsa sjer verri meðferð en þetta?

Þá er 3. atriðið, sem hæstv. ráðh. reyndi með ósönnu að halda fram. Mjer kemur ekki við, hvað margir stúdentar fara í hundana fyrir fyllirí, en jeg vil ekki, að slíkir menn fái utanfararstyrk. Ef þeir vilja slarka, geta þeir gert það á sinn eiginn kostnað og vandamanna sinna.

Hæstv. ráðh. sagði vísvitandi ósatt, til þess að bjarga sjer úr þeirri klípu, sem hann er kominn í. Hann sagði sem sje, að jeg hefði meint, að stúdentar í Reykjavík væru óreglusamir. Það nefndi jeg ekki, enda kemur það ekki þessu máli við. En þegar hæstv. forsrh. gengur svo langt að fara með vísvitandi ósannindi, þá viðurkennir hann, að farið sje að kreppa að honum. Í sambandi við þennan mikla straum af stúdentum, sem fengu að læra alt, sem þeir vildu, þvert ofan í fjárlögin, komst hæstv. ráðherra inn á það að reyna að bera í bætifláka fyrir gamla og nýja óreglu íslenskra stúdenta erlendis. Jeg býst við, að hann sje best fær um að dæma um það.

Jeg hefi altaf tekið það fram, að ekki allir, heldur nokkrir af íslenskum stúdentum erlendis hafi verið slarkfengnir. En reglumennirnir hafa goldið hinna. Jeg mæli á móti hinni skipulagslausu aðferð, sem verið hefir höfð hingað til.

Hæstv. ráðherra bjóst við, að ef óreglumenn væru erlendis, mundu þeir vera flokksbræður mínir. En jeg geri ráð fyrir, að þegar Morgunblaðið fer að skálda út af þessu, muni þessir drykkjuræflar ekki óska eftir því að vera samherjar mínir, heldur leita sáluhjálpar hjá sínum líkum. Jeg sagði þetta við Þjórsárbrú og bað fylliraftana að muna eftir því, hvar þeir ættu heima, nefnilega kjósa hæstv. forsrh.

Fyrir mjer vakir það einfalda mál, að það eigi að vera goðgá hjer á Alþingi að veita öðrum en reglumönnum styrk. Og það fer að verða vandlifað, þegar stjórnin reynir að fá forsrh. til að misbeita valdi sínu til að halda þannig hlífiskildi yfir drykkjugörmum, eins og hæstv. ráðh. veit, að sumir stúdentar erlendis hafa verið. Forsætisráðherra hefir leyft sjer að hleypa þeim anda hjer inn, sem það góða væri hjá þeim, sem mælt hafa óreglunni bót. En það er mikill skaði fyrir þjóðina að fá þessa óreglusömu menn í vandastöður. Þeir verða sýkingarhætta þjóðar sinnar.