11.02.1925
Neðri deild: 4. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

24. mál, fiskveiðar í landhelgi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Að svo stöddu þykir mjer ekki ástæða til að fara mörgum orðum um það frv., sem hjer liggur fyrir. Það er ekki stórt, en þýðing þess er að mínu áliti mjög mikil, og jeg vildi óska, að það gæti átt greiðan gang gegnum þingið. Aðalinnihald frv. er algert bann gegn því, að þeir, sem rjett hafa til fiskiveiða í landhelgi hjer við land, leigi skip til veiðanna. Og ástæðan til þess að banna þetta er vitaskuld sú, að ella er hætt við, að við verðum svo að segja kæfðir í leiguskipum. Í þessu liggur sú tvöfalda hætta, að útlendingar geti í raun og veru náð yfirráðum yfir fiskiveiðum vorum, því oft getur verið erfitt að segja um, hvort skipsleiga er raunveruleg eða til málamynda, og að markaðurinn fyrir fiskiafurðir vorar verði sprengdur með of miklu framboði.

Að öðru leyti vísa jeg til athugasemdanna við frv. og tel ekki ástæðu til að fara um frv. fleiri orðum, meðan mótmæli koma ekki fram.

Þegar þeir hafa tekið til máls, sem nú kunna að óska þess, legg jeg til, að málinu verði vísað til sjávarútvegsnefndar, og beini þeirri ósk til nefndarinnar, að hún lofi mjer að koma á fund til sín, þegar hún hefir frv. til meðferðar, og mun jeg þar ræða um við hana, hvort ekki mundi ef til vill ástæða til að breyta dálítið orðalagi 2. málsgr. 1. gr. Auk þess get jeg gefið nefndinni ýmsar upplýsingar um málið, sem mjer þykir ekki rjett að gefa í deildinni.