23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

1. mál, fjárlög 1926

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer þykir rjett að taka það fram, af því um þetta mál er að ræða og nafn mitt stendur undir nál. sem frsm. annars hluta fjárlaganna, að jeg tala hjer ekki sem slíkur að þessu sinni. En úr því enginn varð fyrri til þess að kveðja sjer hljóðs, þá verð jeg nú fyrstur til þess að fara í eldhúsið, og fer ekki illa á því. Það hefir hent mig fyr að mæla það til hæstv. stjórnar, sem hún hefir helst ekki viljað heyra.

Jeg álít, að það sje góður siður, að menn megi einu sinni á þinginu vaða nokkuð úr einu í annað og geti komið að sem flestu, er liggur á hjarta. Vænti jeg, að hæstv. forseti verði þolinmóður, þó að jeg komi nokkuð víða við í trausti þessarar hefðar.

Jeg hefi ekki fylgst lengi með eldhúsdagshaldi þingsins. En hin síðari ár hefir það aðallega legið í smáfyrirspurnum til stjórnarinnar. Jeg ætla mjer að fara lengra. Að vísu mun jeg koma með smáfyrirspurnir. En jeg mun líka fara nokkuð út í hin stærri mál og gera athugasemdir við afstöðu hæstv. stjórnar til þeirra, svo sem mjer kemur hún fyrir sjónir. Sum þeirra mála gætu gefið ástæðu til sjerstakrar umræðu síðar, en þó er eitt mál, sem jeg kýs fremur að ræða nú á eldhúsdegi en þegar það kom hjer fyrir til umræðu.

En þótt nú sje eldhúsdagur og jeg einn hinn grimmasti stjórnarandstæðinga, þá mun jeg að þessu sinni ekki verða mjög grimmur.

Þá kem jeg að málinu, og mun jeg fyrst snúa mjer að þeim hæstv. ráðherra, sem fjærst mjer situr og jeg hefi einna oftast átt í höggi við, hæstv. fjrh. (JÞ). Og það mál, sem jeg vil drepa fyrst á, er mál, sem vakið hefir allmikið umtal og mikla óánægju, einkum í sveitum þessa lands, — það er drátturinn á stofnun Búnaðarlánadeildarinnar, þangað til viku fyrir þing, að hún var sett á laggirnar til málamynda, þrátt fyrir afdráttarlaus fyrirmæli laganna. Jeg gerði það viljandi að koma ekki með neinar ásakanir á stjórnina fyrir framkomu hennar í þessu máli, er frv. það, er jeg flyt hjer fyrir hönd Búnaðarþingsins um Ræktunarsjóð hinn nýja, var til umræðu, af því að jeg vildi ekki verða til þess að vekja ónauðsynlegar deilur í sambandi við frv., meðan ekki væri útsjeð um, að samvinna gæti tekist í þinginu um að leiða málið til farsællegra lykta.

Jeg mun ekki fara mjög út í einstök atriði sögu þessa máls, því að það yrði of löng ræða. Jeg vil aðeins sýna svipinn, aðalsvipinn yfir framkvæmdum hæstv. fjrh. (JÞ) í þessu máli, í sambandi við aðrar gerðir hans, eins og hann kemur mjer fyrir sjónir frá mínum bæjardyrum. Jeg vil líka mótmæla þessum svip á aðgerðum stjórnarinnar, þar sem er annarsvegar stöðvunin á framkvæmd þessara laga, og svo bætt gráu ofan á svart með því að senda út jafnhliða hið fræga íhaldsbrjef, þar sem bændum er bannað að stofna til nokkurra framkvæmda heima fyrir.

Jeg mun nú víkja að því, hvað átti að koma í stað Búnaðarlánadeildarinnar. Okkur, sem erum í stjórn Búnaðarfjelags Íslands, var sent frv. og nefnd látin athuga það. Þá var það trúnaðarmál, og því hefi jeg ekki vikið að því fyr. En nú er það ekki neitt leyndarmál lengur, því að nefndin, sem um það fjallaði, hefir lýst því. Frv. þetta var eins og það kom frá stjórninni ekkert annað en ný veðdeild, nálega samhljóða frv. hv. þm. V.- Sk. (JK), sem hjer var fyrir í fyrra og hv. landbn. lagði þá alveg á móti og kvað ekki geta komið að neinu gagni. En hæstv. fjrh. virðist ekki hafa getað hitt á betra ráð til að koma landbúnaðinum til hjálpar í þessu lánamáli en að taka upp af nýju frv., sem þingi og landbn. kom saman um í fyrra, að væri öldungis gagnslaust, með því að hjer er ekki að ræða um neitt handbært fje, nema það, sem fæst með sölu veðbrjefa. Hæstv. fjrh. er vel kunnugt um það, hvernig Reykjavíkurbæ hefir nýlega gengið að selja slík brjef utanlands, og hann veit, að ef bændur ættu að afla sjer lána á þann hátt, þá mundi þeim ekki takast betur en Reykjavík. Vextir af slíkum lánum yrðu ekki minni en 7– 8%, og er það að gefa bændum steina fyrir brauð að gefa þeim kost á slíku. Þetta er svipurinn á afskiftum hæstv. ráðherra af málinu, að íhaldsbrjefinu ógleymdu. Því að jeg tel það enga dygð, þó að Búnaðarlánadeildin væri að nafninu stofnuð rjett fyrir þing. Til þess munu hafa legið aðrar ástæður, blátt áfram hræðsla hæstv. ráðherra (JÞ) við Alþingi.

Nú er ekki ófróðlegt að athuga í þessu sambandi, að við togaraflotann hafa á þessu ári bæst 10 nýir togarar. Svo gífurlega hefir sjávarútvegurinn verið látinn eflast, jafnframt því sem ekkert handbært lánsfje er til handa bændum. Af þessu hefir stjórnin, að því er virðist, ekkert skift sjer, og er það ákaflega merkilegt, þegar athugað er þetta fræga íhaldsbrjef, sem að vísu einkum mun hafa verið stílað til bænda.

Af samanburði á framkomu og till. okkar hæstv. fjrh. (JÞ) sjest, að þar er um ólíkar stefnur að ræða, gagnólíkar stefnur í því, hvað sje nauðsynlegast til þess að tryggja framtíð landsins. Út frá því, sem nú var drepið á, sjest, að hæstv. fjrh. metur útgerðina mest, stórgróða sjávarútvegsins. Jeg aftur á móti álít, að höfuðverkefni þessarar kynslóðar sje að rjetta við landbúnaðinn íslenska. Á hann á þjóðin fyrst og fremst að treysta. Út frá þessu segi jeg það, að jeg tel það skyldu mína að vinna á móti þeirri stjórn og þeim ráðherra, sem ekki hirðir um að koma því í verk, sem jeg tel þýðingarmest mál fyrir framtíð þessa lands.

Þá vil jeg víkja að öðru máli, sem einnig snertir hæstv. fjrh. (JÞ). En það er sú stefna, sem mjer virðist koma greinilega fram hjá hæstv. stjórn í skattamálum. Skal jeg nefna frv. það um sjúkratryggingar, sem drepið var hjer nýlega, en stefndi að því að koma kostnaðinum við berklavarnir sem nefskatti yfir á almenning. Sömuleiðis frv. um að greiða kostnaðinn af kristnihaldi í landinu með nefskatti. Og loks frv. til breytinga á skattalögunum, þess efnis að ljetta sköttum af stórgróða útgerðarfjelaganna Alt þetta miðar beint og greinilega að því að ljetta skattabyrðina á breiðu bökumun og koma henni yfir á almenning. Hjer er líka um alveg ólíka stefnu að ræða hjá hæstv. stjórn og þm. Strandamanna.

Það virðist vera hugsjón hæstv. fjrh. (JÞ), að í þjóðfjelaginu eigi að vera fámenn stjett ríkra manna, sem hafi sjerstaklega góða aðstöðu. Og jeg skal játa, að þar sem svo hefir verið, hefir oft gengið vel í bili, mentalíf og æðri menning þróast. En það, sem jeg kysi mjer að stuðla að, er samt sem áður fyrst og fremst almenn velmegun sjálfstæðra borgara. Og gleður mig því sú staðreynd, sem nú er fram komin, að þingið virðist ekki ætla að aðhyllast stefnu hæstv. stjórnar. Háttv. Ed. hefir drepið frv. um lækkun nefskatts vegna kristnihalds, og þessi hv. deild hefir vísað á bug berklavarnanefskattinum. Vona jeg, að þetta frv., sem er þá það þriðja sömu tegundar, fari á líkan veg. En það skal viðurkent, að hæstv. fjrh. (JÞ) er alveg samræmur stefnu flokksbræðra sinna, Íhaldsmannanna, eins og hann hefir á einum stað lýst þeim, í Lögrjettu fyrir nokkrum árum, að þeir einblíndu á sína pyngju og hlífðu sjer við sköttum.

Næsta atriðið, sem jeg kem að, er ekkert stórmál. Er það út af atviki, sem kom fyrir í hagstofunni. Duldist ekki á síðasta þingi, að það var fastur vilji þingsins að fækka starfsmönnum í opinberum skrifstofum, og kom frv. um lenging vinnutímans í því augnamiði fram hjer í Nd. Það náði samt ekki fram að ganga. En í hagstofunni hafa gerst tíðindi, sem þverbrjóta þetta. Eins og kunnugt er. Hefir þar starfað í mörg ár sein aðstoðarmaður Pjetur Zóphóníasson, sem allir vita, að vera muni mjög hæfur til þessa starfs, þó að formlega skorti hann próf til að gegna því. Sömuleiðis hefir hann verið einn þeirra manna, sem hest hafa haldið við okkar þjóðlegustu fræðaiðkunum, ættfræðinni, og er oss því vandgerðara við hann en ella. Taldi jeg því sjálfsagt, að hann gegndi sínum starfa áfram, þar sem hann hafði haldið honum svo lengi. En svo kemur ungur nýbakaður hagfæðikandidat frá Kaupmannahöfn. og er Pjetri þá vikið frá, og sá maður sest í sæti hans. Segi jeg þetta ekki til að ásaka þennan unga mann; hann er af góðu fólki kominn og sjálfsagt alls trausts maklegur. Jeg viðurkenni sömuleiðis, að raunverulega hefir hæstv. stjórn haft formlega rjett til þessa, en hún hefir algerlega farið í bága við það „princip“, að fækka starfsmönnum ríkisins, því P. Z. hefir verið bætt við sem nýjum manni í hagstofuna með sömu launum og hann hafði. Jeg lasta það ekki, að P. Z. var ekki kastað út á gaddinn, en verð að segja, að mjer kom það á óvart. Og jeg álít, að rjettara hefði verið að gera enga breytingu.

Þá vil jeg í fám orðum snúa mjer að hæstv. atvrh. (MG). Jeg bjóst ekki við að þurfa að fara inn á Krossanesmálið, og geri það líka lítið. En jeg taldi víst, þegar jeg æskti þess, að nefnd yrði skipuð til að rannsaka það mál, að þá yrði að því ráði horfið. Jeg hjelt ekki þá, að það ætti eftir að koma á daginn, að sú till. fjelli með atkvæði hæstv. ráðh. (MG) sjálfs. En af því að jeg taldi víst, að þessi nefnd yrði skipuð, þá hefi jeg ekki undirbúið mig undir að fara nánar út í það mál að þessu sinni, og get því látið þar staðar numið. Lýsi aðeins yfir undrun minni og óánægju.

Þá kem jeg næst að stórmáli, sem er innflutningshöftin. Mjer finst framkvæmd þeirra á árinu hafa orðið öll önnur en jeg bjóst við. En vel get jeg skilið, að hæstv. atvrh. (MG) hafi átt örðugt aðstöðu, þar sem hæstv. forsrh. (JM) ljet í ljós í fyrra á þinginu vanþóknun sína á innflutningshöftum, og hæstv. fjrh. (JÞ) Ijet hafa það eftir sjer í erlendum blöðum, að hann væri þeim ekki hlyntur. — En það tel jeg víst, að hefðu þau verið myndarlega framkvæmd, þá hefði þetta góða ár hjálpað okkur enn betur en orðið er. — Tók jeg í sumar upp úr blaðinu „Vísi“ heila syrpu af auglýsingum um óþarfavarning, sem var hjer á boðstólum, og hefir því fengist fluttur inn. Jeg álít, að hæstv. ráðh. (MG) hafi í þessu efni vanrækt skyldu sína og ekki framkvæmt vilja síðasta Alþingis.

Næst vil jeg beina örfáum orðum að hæstv. forsrh. (JM). Er það fyrst út af fyrirspurn um endurheimt íslenskra skjala úr dönskum skjalasöfnum. Jeg fullyrði, að í þessu máli hafi lítilli röggsemi verið beitt, og má það ekki vera óátalið. Hann ætlar sjer að bíða eftir því, að lögjafnaðarnefndin taki afstöðu til þess, en mjer finst það ófyrirgefanlegur seinagangur. Það, sem hvetur mig þó mest til að hreyfa þessu máli aftur nú, er, að nýtt atriði hefir bæst við það, sem á undan er gengið. Hagstofan fjekk fyrir nokkru frá Kaupmannahöfn að láni manntalið frá 1703, mjög merkilegt plagg fyrir sögu landsins og ættfræðiiðkanir, sem hv. Alþingi veitir nú fje til að gefa út. En nú í fyrra mánuði kemur krafa um, að því sje skilað aftur. Vildi jeg láta þetta vera hvatningu fyrir hæstv. stjórn, að aðhafast eitthvað í málinu sem allra fyrst.

Þá kem jeg að þáltill. fjvn. Nd. í þinginu í fyrra um að skora á stjórnina að rannsaka. hvort ekki væri rjett að leggja skatta á krossa. Með því skyldi vinna upp kostnaðinn við þá. Enda er fordæmi um þetta annarsstaðar. En ekki hefir heyrst, að hæstv. stjórn hafi gert neitt í þessu enn sem komið er. Vildi jeg mælast til, að hæstv. ráðh. (JM) gerði grein fyrir, hvað veldur.

Með nokkrum orðum vil jeg að lokum víkja að einu stórmáli, sem vakið hefir gífurlega mikið umtal og eftirtekt um land alt. Á jeg þar við smyglmálið mikla í vetur, í sambandi við skipin „Marian“ og „Veiðibjölluna“. Áður en jeg fer lengra út í það mál, vil jeg taka það fram, að þó að jeg yfirleitt felli þungan dóm um meðferð þessa máls, þá vil jeg ekki sjerstaklega ásaka bæjarfógetann í Reykjavík, sem hafði það með höndum. Jeg veit, að hann er svo miklum önnum hlaðinn í embætti sínu, að fásinna er að ætlast til, að hann geti svo vel fari bætt á sig rannsókn svo yfirgripsmikils máls sem þetta var. Jeg álít, að þegar framundan er svo geysilegur viðbætir við dagleg störf hans, þá eigi honum að koma sjerstakur hjálparmaður. Vil jeg beina þessu til hæstv. dómsmálaráðherra (JM). Hefir hann og hlotið að verða var við óánægju út af þessu máli hjá fleirum en mjer. Það á t. d. við undantekningarlítið uni alla bannmenn í bænum, og jeg veit, að nefnd bannmanna hefir farið á fund hans til að reyna að hafa áhrif í þá átt, að það yrði tekið fastari tökum.

Vil jeg þá rekja nokkur atriði í rekstri málsins, og er alt það, sem jeg segi, bygt á forsendum dómsins. Vil jeg sýna fram á. hve óforsvaranlegt sje að láta málinu nú vera lokið.

Það er þá fyrst að byrja á því, að út lendur maður. Kattrup að nafni. kom á land í Keflavík 25. sept. Var hann ákærður fyrir brot á sóttvarnarlögunum og settur í sóttkví. Þótti ferð hans öll hin grunsamlegasta. Segir hann frá skipi, sem sje á leið með skófatnað til Björns Gíslasonar, en annars hafi hann ekkert með skipið að gera. Hversu grunsamlegur, sem framburður mannsins þótti. Þá var honum samt slept aftur 10. okt. — Hitt er þó alvarlegra, að 11/2 sólarhring seinna kemur „Marian“ inn á höfn. 13. okt. er skipstjórinn yfirheyrður. Játar hann strax, að mikið áfengi hafi verið í skipinu, sem hann kvað Kattrup hafa átt að ráðstafa. En Kattrup var danskur þegn. Jeg veit ekki. hvort hægt er að yfirheyra menn, sem dvelja og heima eiga erlendis, en þessum manni hefði verið leikur að ná í Færeyjum og Bergen. Er slælega að verið, að svo skyldi ekki hafa verið gert, en vel má vera, að ennþá sje hægt að ná manninum í Danmörku.

Hvað framburði skipstjórans viðvíkur, þá var hann tvisvar staðinn að því að segja ósatt. Fyrst segir hann, að öllu áfenginu hafi verið kastað í sjóinn. En seinna kemur upp úr dúrnum, að strandvarnarbátur einn hefir flutt talsvert af því í land, og auk þess finst nokkuð innan um skófatnaðinn. En það var ekkert smáræði, sem hefði átt að vera búið að kasta í sjóinn, þar sem í skipinu voru 1100 spíritusdunkar, og þar af komu aðeins 60 í leitirnar. — Loks er ennþá eitt. Hvernig stóð á því, að mb. „Trausti“ skyldi fá áfengið ? Skipstjórinn segir, að hann hafi búist við, að bátur kæmi úr landi að tilhlutun Kattrups til að sækja áfengið. Svo afhendir hann þessum bát heila bátsfarma af víni. — Hvernig stóð á því, að hann afhenti svo mikil verðmæti þar úti á rúmsjó? Hver átti að bera ábyrgðina ? Enn er maður við málið riðinn, bílstjóri að nafni Jakob Sigurðsson. Einhverstaðar hefir hann fengið ávísun á byrgðirnar. — Þannig eru ótal leiðir til að finna sannleikann, ef málið væri tekið föstum tökum.

Fjórða atriðið er um menn í landi. Í forsendum dómsins er þess getið, að það hafi verið borið, að nefndum Jakobi væri kunnugt um, hver væri eigandi farmsins og gæti gefið ávísun á hann. En svo er þess aldrei getið, hvort þessi maður hafi verið yfirheyrður. Hann hverfur alveg úr sögunni. Enn er eitt atriði. Í dagblaðinu „Vísi“ er frá því sagt, að Jakob hafi vísað frá sjer á Björn Gíslason kaupmann, en hans er alls ekki getið í forsendum dómsins. Svo ef menn hefðu ekki annað fyrir sjer en þær, og svo dóminn sjálfan, þá vissu menn ekki, að Björn væri neitt við málið riðinn. En illan grun gefur það óneitanlega, að hann skuli hafa átt skófatnaðinn og Jakob skuli hafa vísað á hann.

Fimta atriðisins, sem jeg vík að og sem jeg beini til hæstv. dómsmálaráðherra (JM), er raunar ekki getið í forsendum dómsins, og er mjer ekki kunnugt, á hverjum rökum það er bygt. En merkir bannmenn hjer í bænum hafa sagt mjer, að einn skipverjanna á „Trausta“ hafi aldrei verið yfirheyrður. Jeg fullyrði ekkert um þetta, en spyr aðeins og óska, að því verði svarað, hvað satt er í þessum orðrómi.

Jeg þarf svo ekki að tala frekar um þetta. Jeg veit, að hæstv. forsrh. er kunnugt um það, að mikil óánægja er hjer í bæ meðal bannmanna út af þessu. Og um þetta mál hefir verið mest rætt af öllum málum, og mest vegna forsenda dómsins. Annars skal jeg taka það fram, að ef hæstv. ráðherra óskar fremur, að jeg komi fram með sjerstaka fyrirspurn í þessu máli, þá er jeg fús til þess, en hinsvegar hefi jeg bæði um þetta atriði og önnur látið hæstv. ráðherra vita fyrirfram, hvað jeg ætlaði að tala um.

Þá er það „Veiðibjöllu“-málið. Um það hafa ekki komið fram nein gögn, og veit jeg ekki, hvort það er til lykta leitt. En almenningsálit er það, að það sje ótrúlegt, að sá maður, er telur sig eiganda að áfenginu, geti átt það. Það er sagt um hann, að hann sje einn af þeim mönnum, sem „aldrei geti eignast neitt“.

Svo er það hinn merkilegi manndauði í Keflavík. Hann hefir verið talinn af völdum spírituss, og er það víst áreiðanlegt. Vil jeg nú spyrja hæstv. forsrh., hvað hæft sje í þessu, því um þetta hefir ákaflega mikið verið talað. Vil jeg spyrja hann um það, hvort menn þessir hafi fengið spíritusinn hjá lækninum í Keflavík, eða þá hvort það muni svo, sem margir hafa giskað á, að þar hafi verið hinn þýski spíritus, sem ólöglega var fluttur inn, og ef svo er, hvernig stendur þá á því, að læknirinn gat haft hann til úthlutunar ?

Jeg þarf ekki að lýsa því frekar, að jeg er ákaflega óánægður með rekstur þessara mála. Jeg vil spyrja hæstv. forsrh., hvort ekki muni hægt að gera meira í Marianmálinu og hinum heldur en gert hefir verið.

Svo á jeg eftir eitt mál, og vil jeg um það beina máli mínu til allrar stjórnarinnar, en þó sjerstaklega til hæstv. fjármálaráðherra, og þá sjerstaklega fyrir þá sök, að þar kem jeg inn á nýtt mál, er kemur undir hans verkahring, en það eru hinir háu bankavextir. Skal jeg þó aðeins drepa lauslega á það mál. En um það eru ekki deildar skoðanir milli flokka, heldur einnig ef til vill líka innbyrðis í flokkunum, bæði í þeim flokki, er jeg fylgi, svo og í Íhaldsflokknum. Eini flokkurinn, sem er víst óskiftur um það mál, er Alþýðuflokkurinn. (Atvrh. MG: Líklega innan þings). Mig langar til að heyra um eitt atriði í þessu sambandi frá hæstv. fjármálaráðherra, og um leið vil jeg ásaka stjórnina fyrir festuleysi.

Aðstaðan er nú sú, bæði til sveita og sjávar, að skattar eru miklu hærri en áður hefir verið og ætla alt að drepa. Svo koma hinar miklu gengissveiflur hjer, sem líklega eru eins dæmi. Sterlingspund hrapar úr rúmum 33 krónum niður í rúmar 27 krónur á fáum mánuðum. Jeg verð, sem fulltrúi bænda, að átelja það harðlega, að gengi á sterlingspundi var haldið í 33 kr. alt sumarið, en var svo látið falla mjög ört, einmitt um það leyti, er bændur byrja að selja afurðir sínar. Nú vil jeg spyrja, hvort afskiftaleysi stjórnarinnar á að haldast í þessu efni áfram gagnvart atvinnuvegum landsins. Á að halda því áfram að íþyngja þeim með háum sköttum, háum vöxtum og örri hækkun íslenskrar krónu ? Það er ógurlegur skattur á atvinnuvegum að róa slíkan lífróður upp á við með íslensku krónuna.

Það mun torvelt að finna annarsstaðar dæmi um svo miklar gengissveiflur sem hjer hafa orðið. Jeg hefi ritað um þetta mál og haldið því fram, að það sje ekki aðalatriðið að drífa krónuna upp, heldur hitt, að fá fastan grundvöll. Allir atvinnurekendur, kaupsýslumenn og bændur vilja ekki hafa þennan rugling á genginu. Um okkur hefir það verið sagt, að við „dependeruðum“ af Dönum. En í þessu máli höfum við ekki gert það, þótt ástæða hefði verið til þess. Samkvæmt tillögum danskra bænda, var það ákveðið þar í landi að festa krónugengið að mestu og fara ekki nema hægt í gengisbreytingar. Þetta er að mínu áliti rjett. Það græða engir á gengissveiflum nema gróðabrallsmenn. Og jeg er ekki í neinum efa um það, að eins og þing og stjórn í Danmörku hafa veitt bönkunum styrk í þessu máli, svo sje og hægt hjer. Það hefir mikla þýðingu, að bankarnir fái þennan styrk til þess að geta komið í framkvæmd því, sem er þó allra þýðingarmest, að fá vexti hækkaða. Og jeg get ekki skilið, af hvaða ástæðu það er, að krafist er þessara háu vaxta. Vil jeg spyrja hæstv. stjórn, hvort þess megi vænta, að hún beiti sjer fyrir lækkun bankavaxta. Að vísu hefir mjer heyrst á ýmsum Íhaldsmönnum, að þeir mættu ekki heyra vaxtalækkun nefnda á nafn. En jeg tel, að það hefði verið skylda stjórnarinnar að stíga fyr spor að því marki að lækka vextina.

Eins og menn vita, er Íslandsbanki „prívat“-stofnun. Tel jeg það óverjandi, að leyfa honum að hafa þessa háu vexti. En það er augsýnilega gert til þess, að menn, sem reka atvinnu hjer, greiði á þennan hátt töp hans á fyrri árum. En það eru hinir útlendu hluthafar, sem bankanum stjórnuðu þá, sem eiga að bera tapið, en það á ekki að velta því yfir á Ísland og Íslendinga. Jeg hefi „kritiserað“ aðgerðaleysi stjórnarinnar í þessu máli. Með góðri samvinnu milli þings og stjórnar hefði mátt taka upp skynsamlega stefnu í málinu og festa gengi krónunnar eftir slíkt góðæri, sem nú hefir verið, og lækka vexti. Fyrir atvinnuvegi okkar er þetta eitt hið þýðingarmesta mál, því það eru drápsklyfjar, sem þeir rogast nú undir af sköttum og háum vöxtum og gengisbreytingum.

Jeg skal svo ekki halda lengri ræðu að sinni. Hefi jeg drepið á mörg stórmál, en ekki viðhaft nein stóryrði. Þá hefi jeg og beint ýmsum fyrirspurnum til hæstv. stjórnar. Þakka jeg svo forseta fyrir þolinmæðina.