04.04.1925
Efri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

24. mál, fiskveiðar í landhelgi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er komið hingað frá hv. Nd. Það er ekki umfangsmikið, og býst jeg við, að háttv. deildarmenn hafi áttað sig á því. Sjútvn. hefir haft frv. þetta til meðferðar og leggur til, að á því verði gerðar tvær lítilfjörlegar breytingar. Er þá fyrst, að nefndin leggur til, að í 1. gr. sje bætt nokkrum orðum til skýringar, eins og sjá má í áliti nefndarinnar á þskj. 268.

Mál þetta er einkareinfalt; það miðar að því að koma í veg fyrir, að útlend skip verði notuð hjer til fiskiveiða.

Önnur brtt. nefndarinnar er um sektarákvæði. Af því að þetta eru viðaukalög, er talið nauðsynlegt, að sektarákvæðið sje tekið upp í þau sjálf. En í fljótu bragði athugaði nefndin þetta ekki. Taldi, að það myndi nægja, að sektarákvæðin væri í lögunum, sem þetta eru viðaukalög við. En við nánari athugun kom það í ljós, að þetta var nauðsynlegt, og fyrir þá sök flutti nefndin brtt. þessa. Vænti jeg svo, að mál þetta gangi greiðlega gegnum deildina og að brtt. nefndarinnar verði samþyktar.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið.