04.04.1925
Efri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

24. mál, fiskveiðar í landhelgi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get lýst því yfir, að jeg hefi ekkert að athuga við brtt. hv. sjútvn. Viðvíkjandi sektarákvæðinu skal jeg taka það fram, að jeg tel rjettara að hafa það í þessum sjerstöku lögum, þó jeg hinsvegar líti svo á, að hægt hefði verið að nota ákvæðið í lögunum, sem þessi lög eru viðauki við. Annars get jeg tekið undir með háttv. frsm. (IP), að jeg vonast eftir, að enginn fari að verða móti frv. þessu hjer. Það voru allir sammála um það í Nd., og hins sama vænti jeg hjer.