12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Bjarni Jónsson:

Mig furðar að heyra þennan hv. þm. (JBald), sem nú settist niður, segja þetta, einkum af því að hann er — eftir því sem hann hefir sjálfur oft sagt — ekki þingmaður landsins, heldur aðeins nokkurra manna hjer í Reykjavík. Það er undarlegt, að sá, sem þykist vera talsmaður fátæku mannanna, skuli leyfa sjer að leggja á móti jafnsjálfsögðum hlut og þetta er. Hver hefir eiginlega verið í vafa um það, hvaðan að minsta kosti mikill hluti af tekjuhalla landsins hefir stafað undanfarin ár? Gengistap landsins hefir verið á ári hverju hálf til heil miljón. Hallinn stafar bæði af því, sem landið hefir keypt frá öðrum löndum, gengishallanum, og einnig hinu, að það, sem goldið var starfsfólki innanlands, hefir orðið að bæta upp. Ef þetta er reiknað með, má sjá, að af þessu stafar mestmegnis sá halli, sem hefir verið á landsreikningunum, af því ríkið hefir ekki tekið tekjur sínar í jafngóðum krónum og það geldur út. Þetta er svo einfalt mál, að jafnvel þingmenn œttu að geta skilið.

Menn eru að kveina yfir tekjuhalla, telja alómögulegt að styrkja nokkurn lifandi mann, ekkert skáld og engan listamann, ekki hægt að leggja vegi og ekki síma, ekki hægt að styrkja t. d. sjúkrasjóð „Dagsbrúnar“ eða hjálpa verkamönnum í Reykjavík til að byggja skýli yfir höfuðið o. s. frv. Menn hafa ekki athugað það, að það er ekki til neins að ætla sjer að borga með krónu, sem er hærri en sú, sem tekin er í tekjum.

Af því tekjuhalli skapast af þessu, og hann veldur geig í mönnum við framtíðina og ótta við framkvæmdir þær, sem ríkið þarf að hafa á hendi, ættum við hvorugur að vera á móti frv.

Jeg skal og geta þess, að af öllu því fjármálaskvaldri, sem átti sjer stað á síðasta þingi, var þetta frv. um gengisviðaukann hið eina af viti.