12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Jón Baldvinsson:

Hv. þm. Dala. (BJ) ætti ekki að undra, að jeg sje á móti frv. um gengisviðaukann, ef svo væri, að jeg væri þingmaður verkamanna, sem hann taldi vera og rjett er. Þessi útgjöld koma einmitt þyngst niður á fátæku fjölskyldumönnunum. Má af því sjá, hvort það er rjettlátara að skylda menn til gjalda í ríkissjóð með neysluskatti heldur en með skatti af tekjum. Þessi 25% gengisviðauki fellur á margar nauðsynjavörur, og þó svo væri, að ríkissjóður fengi tekjur af þessu hjer eftir, — tekjurnar voru, ef jeg man rjett, 570 þús. — þá geri jeg ekki ráð fyrir, að Alþingi færi næsta ár að styrkja sjóð „Dagsbrúnar“-manna eða byggja yfir verkamenn. Að minsta kosti er það ekki venja, að tekið sje ljett undir slíkar málaleitanir til þingsins. Hjer er jeg ekki að ásaka hv. þm. Dala. (BJ), því hann hefir betur brugðið við slíku en ýmsir aðrir. En jeg býst ekki við, að hlaupið verði að þessum framkvæmdum, sem hv. þm. mintist á, þó gengisviðaukinn verði samþyktur.