21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. (Klemens Jónsson):

Þessu máli var vísað til fjárhagsnefndar. Hefir hún komist að þeirri niðurstöðu að samþykkja frv. óbreytt.

Tveir nefndarmanna hafa skrifað undir með fyrirvara, og munu þeir sjálfir skýra afstöðu sína.

Þegar athuguð er greinargerðin, sem fylgdi, þegar frv. um gengisaukann var lagt fram í fyrra, sjest, að aðalmarkmiðið var að auka tekjur ríkisins. Það var borið fram af brýnni þörf á auknum tekjum. Íslensk króna var þá í sínu lægsta gengi, sem hún hefir nokkurn tíma komist. Sterlingspundið kostaði 33 kr. og ísl. krónan var ekki meira en 52 aura virði. Nauðsynin var brýn að fylla í skörðin, auka tekjurnar með tollum og öðrum gjöldum. Að vísu var skrefið ekki stigið fult út, en það hefði verið að heimta inn tolla með gullkrónuverði. Það þótti ekki fært að hækka meira en þá var gert. Annars læt jeg mjer nægja að vísa til greinargerðarinnar, sem frumvarpinu fylgdi á síðasta þingi.

Nú má segja, að talsverð breyting sje á orðin. Sterlingspundið hefir lækkað og krónan hækkað. Þá var frv. bundið við skráningu sterlingspundsins, og var það eðlilegt, þar sem það stóð svo hátt, og var það því næsta eðlilegt, að miðað væri við gengisskráninguna, en höfuðástæðan var þó tekjuþörfin.

Það er því alveg augljóst, að hjer er um gagngerða stefnubreyting að ræða. Lögin voru áður bundin við skráning sterlingspundsins, stóðu og fjellu með henni, en eftir þessu frv. er hjer hreint og beint um tollaukalög að ræða og ótímabundin. Þetta vildi jeg skýrt taka fram, svo að enginn misskilningur geti átt sjer stað í því efni.

Aðalástæðan er hin sama og áður; þörfin fyrir tekjuaukning er enn hin sama. Það er brýn nauðsyn að borga lausaskuldirnar sem fyrst, en þeim tilgangi verður ekki náð, nema ríkissjóður haldi þeim tekjum, sem nú eru.

Sú breyting, að miða ekki við skráningu sterlingspundsins, þykir kannske óþörf, því lítil líkindi sjeu til þess, að pundið fari niður úr 25 kr. á næstunni. En færi nú samt svo, má búast við, að sveiflur yrðu á genginu, pundið yrði stundum undir og stundum yfir 25 kr. Mundi það valda miklum erfiðleikum, eins og tekið er fram í greinargerðinni. Það yrði þá undir atvikum komið, hvort heimtaður yrði tollur eða ekki, og yrði erfitt fyrir kaupmenn og kaupfjelög að vita, hvað leggja þyrfti á vöruna. En fyrir þetta er girt með því að sleppa úr ákvæðinu um skráningu pundsins.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta.