23.02.1925
Neðri deild: 14. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þessum brtt. var útbýtt nú á þessari stundu. Skal jeg því hafa allan fyrirvara um þá útreikninga, sem gera þarf til þess að vita, hve miklu nemi fyrir ríkissjóð, ef þær verða samþyktar. Þó má telja víst, ef báðir liðir brtt. 1 yrðu samþyktir, að ríkissjóður myndi missa árið 1926 tekjur, sem nema mundu um 750 þús. kr., því að jeg lít svo á, að samkv. síðari lið till. eigi lögin að falla með öllu úr gildi 1. apríl 1926.

Ef a.-liður till. yrði aftur á móti samþyktur, en hinn ekki, myndi það svifta ríkissjóð árið 1926 tekjum, sem nema myndu frá 360–400 þús. kr. Og niðurstaðan myndi verða lík hin næstu ár á eftir. Og allur gengisviðaukinn, 900 þús. kr., tapast vitanlega, ef báðir liðir brtt. verða samþyktir.

Ef nú fylgja á þeirri stefnu, er stjórnin hefir tekið og hv. form. fjhn. hefir talið sig fylgjandi, sem sje að reyna að borga lausaskuldir ríkissjóðs á næstu árum, þá verður þegar í stað að finna annan tekjustofn fyrir ríkissjóð, ef brtt. þessar verða samþyktar, sem jeg fyrir mitt leyti tel alls ekki rjett, þar sem tollauki þessi kemur mest niður á munaðarvörum, sem þeir geta sparað, sem spara vilja. En erfitt mun verða að bæta ríkissjóði tekjumissinn upp, nema taka hann af þeim vörum, sem nauðsynlegri eru.