27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um þær brtt., sem jeg hefi flutt með hv. 3. þm. Reykv (JakM). Hann hefir þegar talað svo rækilega fyrir þeim, að jeg hefi þar engi við að bæta.

Mjer finst ekki vera farið fram á mikið, þó að til þess sje mælst, að 150 þús kr. verði lagðar til byggingar landsspítala á næsta ári; einkum þegar þess er gætt með hverju móti ríkissjóður fær tekjur sínar.

Þegar hann fær um 800 þús. kr. af áfengi, sem selt er í landinu, þá getur engum fundist mikið, þó að þessari upp hæð verði varið til landsspítalabyggingar.

Nú er kominn nýr skriður á þetta byggingarmál, einkum þar sem nýlega hefir fengist von um, að landsspítalasjóðurinn ætlaði að leggja fje til sjálfrar byggingarinnar, en það vissu menn ekki áður.

Það, sem aðallega veldur því, að jeg kveð mjer hljóðs, eru nokkur atriði í ræðum hæsfv. fjrh. (JÞ) og hv. frsm. (ÞórJ) og auk þess hækkunartillaga hv. nefndar um verðtollinn.

Jeg er sammála hæstv fjrh. (JÞ) um, að ekki sje rjett að hækka verðtollsáætlunina, þótt af ólíkum ástæðum sje. Hann er á móti hækkuninni vegna þess fyrst og fremst, að hann hefir sjálfur samið fjárlagafrv., og þó að hann vonist eftir framlengingu verðtollslaganna, þá vill hann fá sem mestar tekjur í ríkissjóð umfram áætlun. Jeg er á móti þessari hækkun af þeirri einföldu ástæðu, að jeg vil ekki framlengja verðtollslögin lengur en til 1. apríl 1926. Nóg er nú komið samt.

Verðtollurinn er gífurlega þungur skattur á öllum almenningi í landinu, a. m. k. við sjávarsíðuna, og hvílir hann á svo mörgum nauðsynjavörum, að hann má teljast mikil orsök dýrtíðarinnar, sem þjóðin verður enn að bera.

Hv. frsm. (ÞórJ) fullyrti, að þjóðin hefði samþykt með þökkum tollhækkanir síðasta þings. Held jeg einmitt, að þjóðin hafi yfirleitt miklu fremur fordæmt þær, því að ef litið er í samþyktir þingmálafundanna, þá er þess krafist hvaðanæfa af landinu, að verðtollurinn verði afnuminn þegar á þessu þingi. Þess vegna er ekki rjett hjá hv. frsm. (ÞórJ) að slá þessari fullyrðingu fastri, og vildi jeg láta það sjást, að henni eru ekki allir sammála.

Þó að jeg vilji ganga langt í afnámi tolla, þá hefi jeg ekki borið fram neina till. í þá átt á þessu þingi, enda lýst mjer svo á stefnu þess í tollmálum, að slík till. fengi ekki mikinn byr.

En að minsta kosti verður að vinda bráðan bug að því að ljetta af þeim bráðabirgðasköttum, sem hlaðið var á þjóðina á síðasta þingi, en með því að áætla tekjur ríkissjóðs af þeim svo háar sem hv. fjvn. leggur til, er hætt við, að þingið sjái sjer ekki fært að afnema þá í bráð.

Þá er annað atriði í ræðu hv. frsm. (ÞórJ), sem mjer þykir ekki rjett að leiða alveg hjá mjer.

Hann deildi mjög á þetta þing og sagði, að það væri aumast allra þinga, sem hann hefði setið á. Hann sagði, að það eyddi tímanum í óþarft hjal og sýndi þingmálum meira skeytingarleysi en dæmi væru til.

Það er nú svo, að afgreiðsla þingmála fer mikið eftir því, hvernig þau eru undirbúin, og það eru að langmestu leyti mál, sem hæstv. stjórn hefir undirbúið, sem þetta þing hefir fjallað um. Ef hv. frsm. (ÞórJ) hefir einkum fyrir augum í þessum þunga dómi sínum þær umr., sem hjer hafa orðið um frv. hæstv. stjórnar, eða athafnir hennar og athafnaleysi á síðastliðnu ári, þá má segja, að svo hafi farið, sem til var stofnað.

En ekki er rjett að saka þm. um það, sem er sök hæstv. stjórnar.

Annars get jeg að mestu leyti skrifað undir þessi ummæli hv. frsm. (ÞórJ) á þeim grundvelli, sem jeg nú hefi lýst, og vildi jeg ekki þegja um orsakir þess, hvernig farið hefir, þó að hv. þm. sjeu þær reyndar kunnar.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hæstv. fjrh. (JÞ) út af ummælum hans um aðstoðarlækninn á Ísafirði.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort rjett sje eða skylt að veita þessum lækni þau laun, sem hv. þm. Dala. (BJ) fer fram á, eða um það, hvort jeg greiði atkv. með þeirri till. eða ekki.

Jeg vildi aðeins minnast á, hversu mikið ómak hæstv. fjrh. hefir gert sjer til þess að sanna skyldu ríkissjóðs til að greiða þessum lækni há laun, og bera það ómak saman við framkomu hans við hinn skipaða fulltrúa hagstofunnar, sem hann tók veitinguna af á síðastliðnu hausti, enda þótt manni þessum hefði verið veitt embættið skilyrðislaust og hann tekið við því með það fyrir augum, að hann hefði annan starfa á hendi um ótiltekinn tíma og haft til þess samþykki landsstjórnarinnar.

Það er fróðlegt að bera þessa ráðstöfun hæstv. fjrh. (JÞ) saman við það, hversu langt hann sækir rök fyrir því, að ríkissjóði beri skylda til að launa aðstoðarlækninn á Ísafirði.

Vil jeg þó vænta þess, að þessari framkomu hæstv. ráðh. (JÞ) ráði ekki það, að annar maðurinn er flokksbróðir hans, en hinn andstæðingur.

Enn er eitt atriði í ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), sem jeg vildi athuga lítið eitt, þó að jeg sje honum þar sammála.

Hann sagði, að ríkið ætti ekki að stofna til kapphlaups við atvinnuvegina, þegar vel áraði og allir hefðu nóg að vinna. Þetta er rjett. Það er í sjálfu sjer ekkert á móti því, að ríkið slái þeim framkvæmdum, sem ekki eru bráðnauðsynlegar, á frest til mögru áranna, þegar almenningur á við atvinnuleysi að búa. En sá galli er á, þó að þetta sje viðurkent í orði, þá hefir reynslan orðið sú, að erfiðlega gengur með nauðsynlegar opinberar framkvæmdir þegar ver árar.

Það vill verða svo, að þegar æskt er eftir opinberum framkvæmdum vegna örðugleika almennings, þá er því svarað, að ekki sje hægt að ráðast í þær vegna fjárhagsörðugleika hins opinbera.

Kemur þetta illa heim við skoðun hæstv. fjrh. (JÞ) nú, og er gott að eiga von á því, ef hann ræður miklu um framkvæmdir hins opinbera í framtíðinni, að hann hagi sjer eftir þeim reglum, sem hann hefir nú viðurkent og tjáð sig fylgjandi.