02.03.1925
Neðri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þykir leitt að þurfa að taka aftur meiri hluta þess þakklætis, sem jeg galt hv. fjhn. við 2. umr. fyrir meðferð hennar á þessu frv., þar sem hún lagði þá til, að það yrði samþykt óbreytt. Síðan hefir hv. nefnd sjeð sig um hönd og leggur nú til, að 25% tollhækkunin verði ekki ákveðin lengur en til ársloka 1926 fyrst um sinn.

Jeg verð að segja það eins og það er, að jeg hefi ekki heyrt af vörum háttv. frsm. (KIJ) neinar gildar ástæður fyrir þessum skoðanaskiftum hv. nefndar. Hið eina, sem í mínum augum gæti rjettlætt það að binda gildi laga þessara tímatakmarki því, sem hv. nefnd stingur nú upp á, væri það, ef einhverjar líkur væru fyrir því, að ástæður ríkissjóðs breyttust svo til batnaðar, að hann mætti missa tolltekjur þessar frá árslokum 1926. En nú þegar má einmitt sjá fyrir, með svo mikilli vissu, sem yfirleitt er hægt að fá um áætlanir um ókomna tímann, að á þessu og næsta ári geta engar þær breytingar orðið á fjárhag ríkissjóðs, sem rjettlæti það, að lög þessi falli úr gildi frá lokum næsta árs. Eða hvaða útgjöld ríkissjóðs geta lækkað svo frá áætlun fjárlaganna þangað til næsta þing kemur saman, að þá þætti forsvaranlegt, að hann misti nálega einnar milj. kr. tekjustofn áður en Alþingi 1927 kæmi saman! Það er einungis einn útgjaldaliður í fjárlögunum, sem er svo háður breytingum tímanna, að nokkru verulegu geti numið. Er það dýrtíðaruppbót embættis- og sýslunarmanna landsins. En í fjárlagafrv. stjórnarinnar fyrir árið 1926 er einmitt gert ráð fyrir, að hún lækki úr 78% niður í 60%, og má það gott heita, ef þessi áætlun fær staðist; en að ríkissjóður megi missa nokkurs af tekjum sínum á þessum grundvelli, nær ekki nokkurri átt.

Hinsvegar er það ósiður, sem hjer hefir verið innleiddur á síðustu árum, að láta mikinn hluta tekjulinda ríkissjóðs vera bundinn lögum, sem falla úr gildi, ef þau eru ekki endurnýjuð svo að segja á hverju ári. Þó má segja, að þetta sje þolanlegt, þegar um gjaldstofna eins og t. d. útflutningsgjaldið er að ræða, sem allir telja mjög hagkvæman tekjustofn, og því má gera ráð fyrir, að fáist framlengt ágreiningslaust. En þetta er ótækt um þá tekjustofna, sem altaf geta valdið ágreiningi, eins og t. d. þessa tollhækkun. Og ef stjórnin á að vera í stöðugri óvissu um, hvort ríkissjóður fái nauðsynlegar tekjur, þá hlýtur það að hafa meiri en lítil áhrif á alla afstöðu hennar til fjármála, einkum til fjárveitinga úr ríkissjóði.

Ef ganga á út frá því, að þessi tollur falli niður frá árslokum 1926 og verðtollurinn frá 1. apríl sama ár, þá geta allir sjeð, hvílík áhrif það hlýtur að hafa á afstöðu núverandi stjórnar til fjármálanna nú þegar og á allar ráðstafanir hennar á þessu ári.

Nei, það er ekki vert að láta sem til sjeu líkur, þegar öllum má vera ljóst, að svo er ekki. Þess vegna er rjettast, að mál þetta fái að ganga sinn eðlilega gang og 25% tollhækkunin látin standa þangað til öðruvísi verður ákveðið með lögum á venjulegan hátt. Eins og lögin eru nú, er tollhækkunin bundin því skilyrði, að verð á sterlingspundi sje hjer í Reykjavík 25 kr. eða meira. Ef jeg sem fjrh. ætti enga aðra kosti en að velja á milli þessa ákvæðis og brtt. hv. fjhn. um að tollhækkunin falli úr gildi frá árslokum 1926, þá kysi jeg hiklaust, að lögin fengju að standa óbreytt, enda þótt sýnt hafi verið með ljósum rökum fram á, hversu óheppilegt þetta ákvæði laganna er, bæði við 1. og 2. umr. málsins, í greinargerð stjórnarinnar fyrir frv. þessu og í nál. hv. fjhn.; sem hún, því miður, virðist fallin frá.

Um brtt. háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) get jeg vísað til þess, sem jeg sagði við 2. umr. Þeim fylgir svo mikil skerðing á tekjum ríkissjóðs, að jeg fæ ekki sjeð, að til mála geti komið, að þær verði samþyktar. Sama er að segja um brtt. hv. 1. þm. Ám. (MT). Jeg álít, að hún verði að falla með brtt. hv. 2. þm. Reykv., enda eru þær nátengdar.

Jeg verð því að leyfa mjer að mælast til þess við hv. deild, að hún taki sömu afstöðu til þessa máls nú sem hv. fjhn. tók við 2. umr. og með nál. sínu, sem sje að samþykkja frv. óbreytt.