02.03.1925
Neðri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg skil ekki í því, að hæstv. fjrh. (JÞ) þurfi að taka aftur nú alt þakklæti, sem hann galt fjhn. við 2. umr. þessa máls. Eftir till. hennar fær ríkissjóður tekjur af tollinum alt árið 1926 og getur bygt sína áætlun á því. En það getur hæstv. stjórn ekki samkv. hennar eigin frv. um verðtollinn, sem aðeins á að framlengja til 1. apríl 1926. Þa8 er því ósamræmi hjá hæstv. fjrh. að finna að því við fjhn., að hún láti þetta vera tímabundið á þann hátt, sem hún leggur til í brtt. sinni, en hafa þó sjálfur tímatakmark í sínu frv., sem gefur miklu minni tryggingu. Hæstv. fjrh. kvaðst ekki hafa heyrt nægar ástæður fram færðar frá fjhn. fyrir brtt. hennar. En jeg get eins spurt hann, hvað honum hafi til þess gengið sjálfum að hafa tímatakmark í verðtollsfrv. sínu. Þá spurði hæstv. fjrh., hvort við teldum nokkrar líkur til þess, að tekjuaukinn af þessum lögum mundi mega missast í náinni framtíð. Nei, jeg geri ekki ráð fyrir því. Og jeg býst heldur ekki við því, að tekjurnar af verðtollslögunum megi missast, svo framarlega sem það er alvara þings og stjórnar að greiða lausaskuldir ríkissjóðs á næstu árum. Og hví er þá verið að tímabinda gildi þeirra laga? Jeg sje heldur enga hættu stafa af því, þó þessi lög sjeu tímabundin. Það má fram lengja þau á næsta þingi, alveg eins og verðtollslögin, sem jeg geri alls ekki ráð fyrir, að við megum sleppa. Hæstv. fjrh. tók það fram, að það væri ósiður að binda tekjur ríkissjóðs við lög, sem þurfa framlengingar frá ári til árs. Þetta má vera. Það hefir tíðkast að undanförnu, og má í því sambandi minna á útflutningsgjaldið. En þetta hefir oft verið gert í þeirri von, að bráðlega mundi rakna úr ástandinu, svo hægt yrði að leggja þessi gjöld og tolla niður. Jeg geri nú samt ráð fyrir, að útflutningsgjaldið sje komið svo inn í meðvitund manna sem sjálfsagt gjald, að því verði ekki bráðlega breytt, þó að það væri sett í upphafi aðeins til bráðabirgða.

Hœstv. fjrh. (JÞ) tók það fram, að svo framarlega sem þetta tímatakmark yrði samþykt, þá hlyti það að hafa áhrif á fjármál þessa þings. Þetta skil jeg ekki. Eftir okkar till. er þetta gjald trygt alt árið 1926, og óhætt að reikna með því.

Hæstv. fjrh. tók það fram, að ef hann ætti um að velja, þá vildi hann heldur lögin óbreytt en með þessu tímatakmarki, ef það næði samþykt. Jeg er honum samþykkur um það, að ekki sjeu líkur til, ef lögin verða óbreytt, að þau falli úr gildi á næsta ári; geri ekki ráð fyrir, að sterlingspundið fari niður úr 25 kr. En þá er líka frv. stjórnarinnar óþarft. Og hæstv. fjrh. er innan handar, ef hann vill heldur lögin óbreytt, að fá þá ósk sína uppfylta, með því að taka frv. sitt aftur. Jeg býst ekki við því, að neinn af háttv. þm. færi að taka það upp aftur. Honum er því í sjálfsvald sett að hafa lögin áfram eins og þau voru sett upphaflega af þinginu í fyrra.