05.03.1925
Efri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Jónas Jónsson:

Jeg get ekki sagt, að jeg gleðjist yfir því, að hæstv. fjrh. (JÞ) skuli nú hafa kastað frá sjer því eina raunverulega áhugamáli, sem hann hefir átt. En hann gerði það á svo átakanlegan hátt, að hann var alveg brjóstumkennanlegur, er hann lýsti því yfir, að hann hefði orðið að vinna það til upphefðarinnar að kasta sínum hugsjónum. Út af þessu vil jeg minna hann á ummæli Herriots forsætisráðherra Frakka, að það væru miklir stjórnmálamenn, sem framkvæmdu það þegar þeir væru komnir í meiri hluta, sem þeir hefðu haldið fram meðan þeir voru í minni hluta. Um slíkt er ekki að ræða hjá þessum hæstv. ráðherra, heldur hið öfuga. Hann hefir fyrrum látist vilja gera mikla samgöngubót hjer á Suðurlandi, leggja járnbraut austur. Nú þegir hann um það. Verður líklega að vinna það til skinvaldanna að eta ofan í sig hugsjónir yngri áranna.